Úr þokunni Ivor Novello birtist innan úr Lundúnaþokunni í The Lodger frá árinu 1927
Úr þokunni Ivor Novello birtist innan úr Lundúnaþokunni í The Lodger frá árinu 1927
Flestir tengja kvikmyndagerð Alfreds Hitchcocks við meistaraverk á borð við Psycho og Rear Window en sjaldnar koma myndir frá Bretlandsárum hans upp í hugann.

Flestir tengja kvikmyndagerð Alfreds Hitchcocks við meistaraverk á borð við Psycho og Rear Window en sjaldnar koma myndir frá Bretlandsárum hans upp í hugann. Á undanförnum árum hefur mynddiskaútgáfa gert verk Hitchcocks frá því snemma á ferli hans aðgengileg og þar er marga gullmola að finna.

Eftir Heiðu Jóhannsdóttur

heida@mbl.is

Alfred Hitchcock er einn af merkustu leikstjórum kvikmyndasögunnar og sömuleiðis einn þeirra kvikmyndahöfunda sem hvað flestir þekkja. Þegar hugsað er um kvikmyndagerð Hitchcocks koma vafalaust upp í hugann stjörnum prýddar spennumyndir á borð við Psycho , Vertigo , Rear Window og The Birds . Hér má reyndar lengi áfram telja en Hitchcock leikstýrði meira en fimmtíu kvikmyndum á ferli sem hófst á þriðja ártugnum og náði fram til þess áttunda. Færri hugsa hins vegar um Hitchcock sem breskan leikstjóra enda fór þessi kaupmannssonur úr austurhluta London snemma á ferli sínum til Hollywood þar sem hæfileikar hans blómstruðu. En þegar Hitchcock gerði sína fyrstu mynd í Hollywood, þ.e. Rebecca sem kom út árið 1940, hafði hann hins vegar leikstýrt yfir tuttugu kvikmyndum í Bretlandi. Meðal kvikmynda Hitchcocks frá Bretlandsárunum leynast margar perlur sem eru lítt þekktar í samanburði við seinna tíma myndir hans, en þar má nefna myndir á borð við The Lodger (Leigjandinn), Blackmail (Fjárkúgun), The Man Who Knew too Much (Maðurinn sem vissi of mikið), The 39 Steps (39 þrep) og Young and Innocent (Ung og saklaus). Í fyrstu myndum Hitchcocks má greina hvernig listræn sýn leikstjórans og þematísk áhugaefni tóku að mótast strax í upphafi ferils hans. Margar af ofangreindum myndum hafa hins vegar verið illfáanlegar, ekki síst þær elstu. Þessa dagana er hins vegar að koma út safnútgáfa með tíu af myndum Hitchcocks frá Bretlandsárunum sem nefnist Hitchcock – The British Years , þar sem m.a. er að finna fyrstu kvikmyndina sem Hitchcock leikstýrði, The Pleasure Garden (Unaðsreiturinn) sem kom út árið 1925. Auk ofantalinna mynda (ef frá er skilin Blackmail ) er að finna í útgáfunni kvikmyndirnar Secret Agent (Njósnarinn), Sabotage (Skemmdarverk), The Lady Vanishes (Daman hverfur) og Jamaica Inn (Jamaica gistiheimilið). Með þessari útgáfu hefur verið fyllt upp í ákveðið skarð í útgáfu á höfundarverki Hitchcocks á mynddiskum, en flestar safnútgáfur á myndum leikstjórans innihalda þekktari og „klassískari“ verk frá því á Hollywood-árunum. Ef safnútgáfan nýja er skoðuð í samhengi við áþekkar útgáfur sem komið hafa út á undanförnum árum, s.s. Alfred Hitchcock: The Early Years og The Early Hitchcock Collection er nú hægt að nálgast bróðurpart þeirra kvikmynda sem Hitchcock gerði snemma á ferlinum á mynddiskum, þótt sumar hafi reyndar komið út í Bretlandi og aðrar í Bandaríkjunum. Hitchcock og Lundúnaþokan Ferill Hitchcocks hófst á þögla tímabilinu svokallaða í kvikmyndagerð, en þá varð leikstjórinn fyrir áhrifum sem áttu eftir að einkenna stíl hans alla tíð. Hitchcock fékk snemma áhuga á kvikmyndagerð en þegar hann var tvítugur að aldri fékk hann vinnu við að skreyta textaspjöld fyrir þöglar myndir hjá kvikmyndaveri í London. Hann tileinkaði sér smám saman ólíkar hliðar kvikmyndagerðar, lærði sviðshönnun, handritsgerð og klippingu, og eftir að hafa starfað sem aðstoðarleikstjóri við nokkur verkefni, fékk hann tækifæri til að leikstýra kvikmynd. Myndin sem um ræðir, The Pleasure Garden , var tekin upp í hinu virta Ufa-kvikmyndaveri í Þýskalandi. Þar kynnti Hitchcock sér jafnframt strauma í þýskri kvikmyndagerð og tileinkaði sér m.a. stíláhrif expressjónismans. The Plesure Garden er áhugaverð frumraun sem fjallar um unga sýningarstúlku sem verður stjarna í næturklúbb en vakti hins vegar takmarkaða athygli þegar hún kom út. Önnur mynd Hitchcocks, The Mountain Eagle var nokkurs konar melódrama sem átti sér stað í uppsveitum Kentucky-ríkis, en Hitchcock mun sjálfur hafa viljað vita sem minnst af þeirri mynd, sem er glötuð í dag. Það var ekki fyrr en með sinni þriðju mynd, The Lodger: A Story of the London Fog , sem Hitchcock sló í gegn en myndin er ein af vörðum breskrar kvikmyndagerðar frá þögla tímabilinu. Í kvikmyndinni tvinnar Hitchcock saman hrollvekjandi sagnaarfleifð Jack the Ripper, þrúgandi og þokublöndnu andrúmslofti Lundúnaborgar og myndrænni framsetningu þýska expressjónismans. Morðingi gengur laus í London þegar sagan hefst og þegar dularfullur leigjandi birtist utan úr myrkrinu, fer hjónin sem hann leigir hjá að gruna að þar sé ekki allt með felldu. Tvíræð sagan ber handbragð Hitchcocks og ein helst kvikmyndastjarna Breta á þögla tímanum, Ivor Novello fer með hlutverk leigjandans dularfulla. Í The Lodger vann Hitchcock með handritshöfundinum Eliot Stannard sem átti eftir að skrifa fjölmörg handrit fyrir leikstjórann á Bretlandsárunum. Stannard hafði sterka sýn sem handritshöfundur og telja margir breskir kvikmyndafræðingar að áhrif Stannard á mótunarár Hitchcocks í kvikmyndagerð hafi verið vanmetin. Annar samstarfsmaður Hitchcocks frá þessum tíma var Alma Reville, síðar eiginkona leikstjórans, en hún starfaði sem aðstoðarleikstjóri við The Lodger . Alma vann sem klippari og handritshöfundur í breska kvikmyndabransanum áður en þau Hitchcock kynntust, og starfaði náið með Hitchcock út ferilinn. Hitchcock gerði fleiri þöglar myndir og telst Downhill , sem einnig skartar Ivor Novello í aðalhlutverki, til snilldarverka leikstjórans frá því tímabili. Kvikmyndin Blackmail er einnig stórmerkileg, en hún stóð svo til klofvega milli þögla tímabilsins og komu talmyndanna. Hitchcock vann myndina, tvíræða morðsögu sem endar með eltingarleik um salarkynni British Museum, fyrst sem þögla kvikmynd, en tók síðan upp atriði eftir á með tali að kröfu kvikmyndaversins sem vildi gera myndina að einum af fyrstu boðberum hinnar nýju hljóðmyndatækni árið 1929. Tvær ólíkar útgáfur af dramatísku atriði þar sem söguhetjan hugsar með hryllingi til morðs sem hún framdi, sýnir hin átakalausu umskipti Hitchcocks frá tjáskiptum þöglu myndanna til talmyndar. Í þöglu myndinni hryllir sögupersónuna við því að skera brauð með voldugum hníf, en í síðara atriðinu sker frásögn nágrannakonu í eyru söguhetjunnar þegar orðið „hnífur“ ber sífellt á góma. Kvikmyndirnar The Man Who Knew too Much og 39 Steps eru ef til vill þekktustu verk Hitchcocks frá Bretlandsárunum, en sú síðarnefnda þykir að margra mati marka hápunkt kvikmyndagerðar hans á þeim tíma. The Lady Vanishses , sem fjallar um leit að horfinni konu í tákngerðu Þýskalandi nasismans og Young and Innocent eru ekki síðri og til marks um það hversu sterkum tökum Hitchcock hafði náð á list sinni áður en hann fór til Bandaríkjanna. Og það fyrsta sem hann gerð þar var að næla sér í Óskarsverðlaun fyrir bestu mynd, þ.e. rökkurmyndina Rebecca með Laurence Olivier og Joan Fontaine í aðalhlutverki.