Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit við rannsókn fjögurra mála í fyrra á grunni upplýsinga sem höfðu ýmist borist stofnuninni eða hún aflað sér sjálf. Þann 3.

Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit við rannsókn fjögurra mála í fyrra á grunni upplýsinga sem höfðu ýmist borist stofnuninni eða hún aflað sér sjálf. Þann 3. mars framkvæmdi stofnunin húsleit hjá fimm ferðaskrifstofum og auk þess á skrifstofu Samtaka ferðaþjónustunnar. Húsleitin var gerð vegna gruns um samráð.

Þann 5. júní var framkvæmd húsleit hjá Mjólkursamölunni, Osta- og smjörsölunni og Auðhumlu. Leitin var framkvæmd vegna kvörtunar frá Mjólku og var hún liður í gagnaöflun vegna athugunar á því hvort fyrirtækin hefðu misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína.

Þann 16. september framkvæmdi Samkeppniseftirlitið síðan húsleit hjá Lyf og heilsu á Akranesi og í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík. Húsleitin var gerð á grunni kvörtunar um að fyrirtækið byði lægra verð í apóteki sínu þar heldur en annars staðar.

Húsleit var gerð hjá Högum, Bónus, Kaupási og þremur heildsölum á matvörumarkaði þann 15. nóvember. Heildsölurnar voru Innes, O. Johnsen & Kaaber og Íslensk-Ameríska. Grunnurinn að rannsókninni var grunur um ólögmætt samráð smásöluaðila og birgja.

Málin enn í rannsókn

Rannsóknir allra þessara mála standa enn yfir og að sögn Páls Gunnars er ekkert hægt að gefa út um hvenær þeim muni ljúka. „Þessi mál eru mjög viðamikil. Þau eru vissulega á mismunandi stigi en þeim verður hraðað eftir því sem kostur er.“