Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit við rannsókn fjögurra mála í fyrra á grunni upplýsinga sem höfðu ýmist borist stofnuninni eða hún aflað sér sjálf. Þann 3. mars framkvæmdi stofnunin húsleit hjá fimm ferðaskrifstofum og auk þess á skrifstofu Samtaka ferðaþjónustunnar. Húsleitin var gerð vegna gruns um samráð.
Þann 5. júní var framkvæmd húsleit hjá Mjólkursamölunni, Osta- og smjörsölunni og Auðhumlu. Leitin var framkvæmd vegna kvörtunar frá Mjólku og var hún liður í gagnaöflun vegna athugunar á því hvort fyrirtækin hefðu misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína.
Þann 16. september framkvæmdi Samkeppniseftirlitið síðan húsleit hjá Lyf og heilsu á Akranesi og í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík. Húsleitin var gerð á grunni kvörtunar um að fyrirtækið byði lægra verð í apóteki sínu þar heldur en annars staðar.
Húsleit var gerð hjá Högum, Bónus, Kaupási og þremur heildsölum á matvörumarkaði þann 15. nóvember. Heildsölurnar voru Innes, O. Johnsen & Kaaber og Íslensk-Ameríska. Grunnurinn að rannsókninni var grunur um ólögmætt samráð smásöluaðila og birgja.