Frakt Icelandair Cargo er með fimm Boeing 757-200 fraktvélar.
Frakt Icelandair Cargo er með fimm Boeing 757-200 fraktvélar.
ICELANDAIR Cargo og Icelease, dótturfélög Icelandair Group, hafa hætt við samninga við Avion Aircraft Trading (AAT) um leigu og kaup á fjórum Airbus-fraktflugvélum.
ICELANDAIR Cargo og Icelease, dótturfélög Icelandair Group, hafa hætt við samninga við Avion Aircraft Trading (AAT) um leigu og kaup á fjórum Airbus-fraktflugvélum. Vélarnar áttu samkvæmt viljayfirlýsingu, sem undirrituð var í maí árið 2007, að afhendast á árunum 2010 og 2011. Haft er eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair, að þetta sé gert til að draga úr áhættu í rekstri félagsins með hliðsjón af óvissu í efnahagsmálum. Segir Björgólfur að fallið hafi verið frá viljayfirlýsingunni í fullu samráði við samningsaðila. Hins vegar kemur fram í yfirlýsingu sem Avion Aircraft sendi síðdegis í gær að ákvörðun Icelandair hafi komið þeim verulega á óvart, og segir Davíð Másson, forstjóri AAT, að félagið sé að skoða rétt sinn. Viðræður hafi verið á lokastigi, eftir mikla vinnu, og félagið telji það mjög alvarlegt þegar gengið er frá borðinu á síðustu stundu með skömmum fyrirvara.