Örn Sigurðsson
Örn Sigurðsson
Örn Sigurðsson skrifar um Reykjavíkurflugvöll og svarar grein Þorkels Á. Jóhannessonar: "Flugvellinum á kjörlendinu í Vatnsmýri hefur verið viðhaldið með valdbeitingu í rösk 60 ár í skugga mikils misvægis atkvæða."

ÞORKELL Á. Jóhannesson, yfirflugstjóri Mýflugs, skrifar í Morgunblaðið 14.3. 2008 um flug í hjarta höfuðborgar. Hann veitist að persónu og starfsheiðri undirritaðs og að öðrum arkitektum. M.a. vænir hann undirritaðan um ómerkilega sölumennsku og óábyrga meðferð talna. Skrif Þorkels eru að mati undirritaðs ekki svaraverð nema fyrir þessa persónulegu nálgun.

Líkt og aðrir flugvallarsinnar gerir yfirflugstjórinn enga tilraun til að takast á við borgarskipulagið og lífshagsmuni 210.000 borgarbúa með vitsmunalegum og ábyrgum hætti en dylgjar þess í stað um græðgi, óheilindi og vafasaman tilgang heillar starfsstéttar.

Flugstjórinn beitir fyrir sig sjúkrafluginu og leikur þar enn á ný með óábyrgum hætti á viðkvæma strengi allra, sem hafa samkennd með sjúkum og slösuðum. Um sjúkraflugið, sem auðveldlega má stórbæta, er eftirfarandi að segja:

1. Stórslasaða og bráðveika ber að flytja með þyrlu á þá sjúkrastofnun, sem veitir mestar batahorfur í hverju tilviki með hliðsjón af fjarlægð og/eða búnaði stofnunar. Auðvelt er og hagkvæmt að útbúa þyrlupalla með blindflugsbúnaði.

2. Óábyrgt er að flytja sjúklinga með vængjuðu flugi ef einhverjar líkur eru á að ferðatími geti haft neikvæð áhrif á batahorfur. Almennt gildir að sjúklingar eru fluttir með vængjuðu flugi á sjúkrastofnanir til sérstakra aðgerða eða meðferðar, sem eru liður í bataferli.

3. Hvorki er þekkt í skipulagi borga að sjúkrahús séu staðsett sérstaklega vegna legu flugvalla né að flugvellir séu sérstaklega staðsettir nærri sjúkrahúsum.

4. Flug í Vatnsmýri hefur í 60 ár splundrað byggð á höfuðborgarsvæðinu. Með því að byggja borg í Vatnsmýri eins og til stóð fyrir röskum 60 árum má draga úr akstri um 40% á 20 árum og fækka þar með umferðarslysum um sem því nemur auk þess að greiða fyrir sjúkraflutningum, annarri neyðarþjónustu og almennri umferð í borginni. Heilsuspillandi mengun og útblástur minnka að sama skapi.

Yfirflugstjórinn ætti að vita að flugvellinum var nauðgað upp á Reykvíkinga eftir stríð á kjörlendinu í Vatnsmýri gegn vilja þeirra og hagsmunum. Og honum hefur verið viðhaldið þar með valdbeitingu í rösk 60 ár í skugga mikils misvægis atkvæða, sem í sjálfu sér er til háborinnar skammar fyrir íslenska þjóð. Mestöll umræða og nálgun flugvallarsinna er sprottin úr þessum rotna jarðvegi þar sem víðtækum almannahagsmunum er kerfisbundið vikið til hliðar fyrir níðþrönga og sértæka einkahagsmuni.

Yfirflugstjóranum og öðrum flugvallarsinnum væri sæmst að snúa nú við blaðinu og einbeita sér að því að finna góða framtíðarlausn fyrir flugið til hagsbóta fyrir flugrekendur og flugfarþega án þess að riðlast á grundvallarhagsmunum 210.000 borgarbúa.

Senn kemur jú borg í stað flugvallar í Vatnsmýri. Um ábata þess fyrir borgarbúa er eftirfarandi að segja:

Byggja má a.m.k. 2.100.000 m² af hágæða miðborgarbyggð í Vatnsmýri. Markaðsvirði byggingarlóða, sem nú eru bundnar undir malbiki flugbrauta er þá a.m.k. 140 milljarðar kr. Sé reiknað með 6% vöxtum af bundnu fé tapast því a.m.k. 8,4 milljarðar kr. á ári.

Í skýrslu samgönguráðherra frá apríl 2007 (www.samgonguraduneyti.is: Reykjavíkurflugvöllur, úttekt á framtíðarstaðsetningu) er fórnarkostnaður þess að fresta brottför flugs úr Vatnsmýri talinn a.m.k. 3,5 milljarðar kr. á ári miðað við helmingi færri gólfflatarmetra. Með blandaðri miðborgarbyggð í Vatnsmýri fæst meðalsparnaður af akstri og tíma borgarbúa, sem nemur a.m.k. 30 milljörðum kr. og um 25.000 mannárum árlega.

Fórnarkostnaður vegna tafa á brottflutningi flugsins er þó margfalt meiri en að framan var sagt því í ofangreindum úttektum er ekki tekið tillit til mögulegs ábata 210.000 borgarbúa af öðrum samgöngumátum en einkabílnum, minni tímasóun, minni mengun, bættu heilsufari, skilvirkari rekstri heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga, virkara lýðræði, samstæðara borgarsamfélagi og öflugari borgarmenningu.

Þar sem umræðusiðferði er í hávegum haft ríkir sátt um að 2+2=4, en það er einmitt grunnurinn að magntöku og siðlegum samanburði hagsmuna. Yfirflugstjóranum til glöggvunar í talnaflóði undirritaðs eru eftirfarandi margfeldisstuðlar til grundvallar í „borgarhagfræði“ höfuðborgarinnar: íbúar eru 210.000, brúttóflötur byggðar 14.000 ha, þéttleiki byggðar 15íb/ha, bílar 700 á hverja 1.000 íbúa, um ein milljón farþegaferða á dag (4% í strætó), hver ferð 7 km á 26 km hraða á klst. að meðaltali o.s.frv.

Séu allir Íslendingar jafnir, þrátt fyrir gróft misvægi atkvæða, gildir almennt að ein stund er jafnmikils virði í lífi borgarbúa og í lífi flugfarþega, að 25.000 mannár í lífi höfuðborgarbúa eru 170 sinnum meira virði en 145 mannár flugfarþega o.s.frv.

Ársvelta innanlandsflugs er ámóta og árlegur fórnarkostnaður þess að fresta brottför flugsins skv. niðurstöðu samgönguráðherra.

Áratuga vanræksla flugmálayfirvalda í að finna framtíðarstað fyrir flugið skaðar ekki einungis borgarsamfélagið meira en orð fá lýst heldur hefur trassaskapurinn skaðað flugfarþega og flugrekendur og hamlað framþróun íslensks flugs.

Höfundur er arkitekt og í stjórn Samtaka um betri byggð.