Kristín Ingólfsdóttir
Kristín Ingólfsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

HANNES Hólmsteinn Gissurarson birti í gærmorgun færslu á bloggsíðu sinni þar sem hann vísaði í þrjá dóma sem gengið hafa á undanförnum árum, þar sem prófessorar voru ýmist dæmdir fyrir brot á stjórnsýslulögum eða meiðyrði í Hæstarétti. Sjálfur var Hannes nýverið dæmdur fyrir brot á höfundarlögum. Umræða um mál hans er nokkur og hafa fjölmargir háskólamenn verið inntir álits á máli Hannesar á vefritinu kistan.is. Þeirra á meðal er forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, sem er málsaðili í einum dómanna sem Hannes vísar til.

Hafði þrennt að leiðarljósi

Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, kveðst ekki þekkja sögu þeirra mála sem Hannes vísar í sérstaklega, enda hafi þau gengið fyrir hennar rektorstíð. Með bréfi rektors til Hannesar Hólmsteins nú sé bundinn endahnútur á meðferð máls sem hófst þegar siðanefnd Háskólans barst kæra frá Auði Sveinsdóttur árið 2004. Kristín segir að Háskólinn leggi mat á mál sem upp koma á þeim forsendum sem fyrir liggja hverju sinni. Að þessu sinni hafi legið fyrir hæstaréttardómur og jafnframt kæra til siðanefndar Háskólans vegna sama máls. Málsatvik hafi verið þannig að hún hafi talið efnisleg rök fyrir áminningu en vegna lagatæknilegra þátta hafi skólinn ekki haft svigrúm til að áminna með réttaráhrifum. Hafi viðbrögð forvera hennar í öðrum málum verið ólík bréfi hennar nú sé ástæðan líklega sú að þáverandi rektor hafi ekki þurft að bregðast við kæru af því tagi.

,,HÍ er 10.000 manna stofnun og það er kannski ekki skrýtið að einstaka sinnum komi upp mál sem geri að verkum að bregðast þurfi við og færa til betri vegar. Ég tek hvert mál til afgreiðslu sem kemur inn á mitt borð. Sem rektor hafði ég þrennt að leiðarljósi við afgreiðslu þessa máls. Í fyrsta lagi að standa vörð um vísindaheiður háskólans, númer tvö að fara að landslögum og númer þrjú að virða réttindi starfsmanns. Þetta tel ég mig hafa gert við afgreiðslu málsins,“ segir Kristín.

Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindadeildar, hefur lýst sig vanhæfan til að fjalla um mál Hannesar og vildi ekki tjá sig um bréf rektors í samtali við Morgunblaðið í gær.

Rannveig Traustadóttir varadeildarforseti kveðst hins vegar sammála niðurstöðu og afgreiðslu rektors. Málið hafi ekki verið á forræði deildarinnar hingað til. Hannes Hólmsteinn sé prófessor við deildina, starfsskyldur hans séu skilgreindar í lögum samkvæmt því. „Hann mun sinna þeim áfram hér eftir sem hingað til. Við höfum ekkert yfir því að segja að breyta hans starfsskyldum vegna þessa máls, enda hefur þessi átalning ekkert lögformlegt gildi þótt hún sé mjög alvarleg,“ segir Rannveig. Hún telur málið álitshnekki fyrir deildina og Hannes, en við það verði að una.