Ómagi „Krónan var fyrir nokkrum mánuðum það besta síðan ristaða brauðið var fundið upp. Núna er hún ræfill, ómagi, pestargemlingur sem við verðum að losna við.“
Ómagi „Krónan var fyrir nokkrum mánuðum það besta síðan ristaða brauðið var fundið upp. Núna er hún ræfill, ómagi, pestargemlingur sem við verðum að losna við.“
Eftir Sigtrygg Magnason naiv@internet.is Það er komin kreppa, sól í heiði skín, segir skáldið.

Eftir Sigtrygg Magnason

naiv@internet.is

Það er komin kreppa, sól í heiði skín, segir skáldið. Fylliríið búið, timburmennirnir teknir við, pabbi sem var svo hress í partíinu í gær liggur nær örendur á sófanum inni í stofu, segir við okkur krakkana sem vorum varla með í partíinu að við verðum að slaka svolítið á, það verði enginn ísbíltúr í dag: pabbi er þunnur.

Hvað sem verður þá er ljóst að kreppan er að minnsta kosti frábært fjölmiðlaefni. Ekkert hefur hrist jafnvel upp í íslensku fjölmiðlasálinni lengi. Líklega ekkert síðan Lúkas var drepinn. Fyrirgefið: síðan Lúkas var ekki drepinn. Og einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að innan fárra mánaða finnist feit króna ráfandi við rætur Hlíðarfjalls. Og þá verður allt í lagi. Eða ekki.

Við lifum tíma þar sem ekkert er endanlegt, ekki einu sinni dauðinn. Lífið nær langt út yfir dauðann, við skrifumst á við hina látnu í minningargreinum og bloggi. Það skiptir engu máli hvað er; það skiptir öllu hvað við höldum, hvað við látum aðra halda.

Það er eitthvað fallega skáldlegt við þessa tíma sem eru þó allt annað en fallegir í fagurfræðilegum skilningi. Uppspuninn ræður ferðinni. Sama hvað pólitíkusarnir ákveða, sama hvað þeir gera, hversu heimskulega þeir haga sér, þá verður alltaf hægt að laga það með smá spuna, með því að segja eitt en ekki annað. Við lifum á tímum hagræðingar: hagræðingar í rekstri og hagræðingar sannleikans.

Fjölmiðlabyltingin hefur breytt heiminum, bylt honum og það verður ekki snúið til baka. Upplýsingarnar ferðast hraðar en mannshugurinn. Það sem var frábært tækifæri í gær er stórkostleg ógnun í dag. Krónan var fyrir nokkrum mánuðum það besta síðan ristaða brauðið var fundið upp. Núna er hún ræfill, ómagi, pestargemlingur sem við verðum að losna við.

Allur þessi hraði og öll þessi upplýsing getur af sér nýtt samhengi. Heimurinn bærist eftir breytilegum vindum. Og eins og blessuð gróðurhúsaáhrifin er stundum misvindasamt af mannanna völdum. Það eru engin sakleysisleg markaðslögmál sem hagkerfið hreyfir sig eftir heldur fær það annað slagið spastíska kippi eins og óverdósaður eiturlyfjasjúklingur. Hvað gerir maður þá? Jú, maður leggur hann inn á bráðadeild og lýgur í hann lífi.

Og tökum nú eftir. Hvað gerist þegar þarf að bæta ímynd eins fyrirtækis, lands eða hagkerfis? Auðvitað fer maður á netið og kaupir far til útlanda og bókar nokkur viðtöl við helstu fjármálafjölmiðla og sérfræðinga á sviði hagfræði. Þá skánar þetta, greinar birtast þar sem fjallað er um málið á hlutlausan hátt; leiðréttingunum hefur verið komið á framfæri: vindvélin er komin í gang og vindarnir blása á hagfelldari hátt.

Á tímum þessara miklu sviptinga sjáum við hvaða ægivald fjölmiðlarnir hafa. Í gegnum þá er heiminum stjórnað. Og það sem er líka umhugsunarvert er að menn hafa ekki áhrif á gengi fyrirtækja og gjaldmiðla með hinum illu markaðsverkfærum: auglýsingum og kostun. Nei, það er með öflugum almannatengslum sem menn ná árangri; þegar menn hefja upp raust sína í gegnum fréttamiðlana. Menn tala upp gengi og menn tala niður gengi og það er bara eins og að fara út í búð að kaupa mjólk.

Kaupmennirnir vakna úr velmegunarrotinu frammi í eldhúsi og hrópa að nú þurfi að hækka vöruverð um 30%. Herskari fólks ræðst inn í raftækjaverslanir og kaupir síðustu uppþvottavélarnar á gamla genginu með útsöluglampa í augum. Þetta voru kostakaup, sannkölluð brunaútsala, krónan fellur, vextirnir hækka, mjólkin hækkar, það er allt að fara til fjandans og ég keypti þessa frábæru uppþvottavél sem ég get dáðst að í kreppunni. Kreppan gaf okkur góða afsökun til að fara út í búð og kaupa raftæki, góða afsökun, og eins og vitur maður sagði: það er eins með afsaknir og rassgöt, það eru allir með svoleiðis.

Það er komin kreppa, sól í heiði skín, segir skáldið. Fylliríið búið, timburmennirnir teknir við, pabbi sem var svo hress í partíinu í gær liggur nær örendur á sófanum inni í stofu, segir við okkur krakkana sem vorum varla með í partíinu að við verðum að slaka svolítið á, það verði enginn ísbíltúr í dag: pabbi er þunnur.

Og það eina sem við getum gert er að bíða eftir því að einhver nógu mælskur, einhver nógu mælskur fái sínar fimmtán mínútur af frægð. Og þegar sá stórkostlegi óratór hefur hafið upp raust sína og leyft rödd sinni og boðskap að hljóma verður okkur öllum borgið. Þá getur pabbi farið aftur í partí.