Flokksbroddar Mugabe með forsætisnefnd ZANU-PF í gær.
Flokksbroddar Mugabe með forsætisnefnd ZANU-PF í gær. — Reuters
Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is STJÓRNARFLOKKURINN í Simbabve blés í gær til sóknar í lokatilraun til að halda völdunum eftir að hafa ráðið lögum og lofum í landinu í 28 ár, allt frá því að það fékk sjálfstæði árið 1980.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

STJÓRNARFLOKKURINN í Simbabve blés í gær til sóknar í lokatilraun til að halda völdunum eftir að hafa ráðið lögum og lofum í landinu í 28 ár, allt frá því að það fékk sjálfstæði árið 1980.

Forsætisnefnd stjórnarflokksins ZANU-PF samþykkti að efnt yrði til annarrar umferðar forsetakosninga og er þetta í fyrsta skipti sem flokkurinn viðurkennir að Robert Mugabe forseti hafi ekki náð endurkjöri í fyrri umferðinni á laugardaginn var.

Krefst endurtalningar

Forsætisnefndin ákvað einnig á fimm klukkustunda fundi í Harare að krefjast endurtalningar í þingkosningum sem haldnar voru sama dag. Samkvæmt opinberum kjörtölum fékk stjórnarandstaðan alls 109 sæti á þinginu en stjórnarflokkurinn 97. Forsætisnefnd ZANU-PF sakaði stjórnarandstöðuna um að hafa mútað kjörstjórnarmönnum og krafðist endurtalningar í a.m.k. sextán kjördæmum, eða nógu mörgum til að flokkurinn gæti endurheimt meirihluta sinn á þinginu.

Yfirkjörstjórnin hefur ekki enn greint frá úrslitum forsetakosninganna. Flokkur Morgans Tsvangirais, Lýðræðishreyfingin, heldur því fram að hann hafi fengið 50,2% greiddra atkvæða. Erlendir eftirlitsmenn sögðu á hinn bóginn að Tsvangirai hefði fengið mest fylgi en ekki meirihluta atkvæðanna.

Stjórnarskrá landsins kveður á um að kjósa eigi milli tveggja efstu frambjóðendanna innan þriggja vikna ef enginn fær meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni. Fréttastofan AP hafði eftir stjórnarerindrekum í Harare og hjá Sameinuðu þjóðunum að Mugabe hygðist fresta síðari umferðinni um þrjá mánuði til að öryggissveitir hans fengju nægan tíma til að þjarma að stjórnarandstöðunni.

Jonathan Moyo, fyrrverandi talsmaður forsetans, kvaðst í gær vera fullviss um að Mugabe, sem er 84 ára gamall, hygðist halda völdunum til æviloka. Moyo sagði skilið við Mugabe og ZANU-PF í lok ársins 2004 vegna óánægju með val Mugabes á varaforseta og hefur síðan verið í stjórnarandstöðu.

Moyo sagði að yfirvöld hefðu frestað því að skýra frá úrslitum forsetakosninganna til að undirbúa herferð gegn flokki Tsvangirais. Hann spáði því að vopnaðir hópar stuðningsmanna forsetans myndu beita ofbeldi til að reyna að tryggja honum sigur í síðari umferðinni – en án árangurs því Simbabvemenn væru orðnir ónæmir fyrir ofbeldi eftir margra ára harðstjórn.

Í hnotskurn
» Klofningur hefur verið í stjórnarflokknum í Simbabve á síðustu árum. Talið er að Joyce Mujuru varaforseti hafi farið fyrir fylkingu sem hafi beitt sér fyrir því að Robert Mugabe drægi sig í hlé og viki fyrir yngri manni.
» Talið er að klofningurinn hafi stuðlað að slæmri útkomu flokksins í kosningunum, auk mikillar óánægju landsmanna vegna efnahagsþrenginga sem lýsa sér m.a. í því að verðbólgan er nú yfir 100.000%.