Opinber orka Dreifiveitur, s.s. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, munu þurfa að vera að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila.
Opinber orka Dreifiveitur, s.s. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, munu þurfa að vera að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is VEÐMÆTI sem einkaaðilar og sveitarfélög eiga í orkufyrirtækjum rýrna ef frumvarp iðnaðarráðherra um auðlindir og orkumál verður að lögum.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

VEÐMÆTI sem einkaaðilar og sveitarfélög eiga í orkufyrirtækjum rýrna ef frumvarp iðnaðarráðherra um auðlindir og orkumál verður að lögum. Þetta kemur fram í umsögnum Viðskiptaráðs Íslands og Samorku um frumvarpið en margir umsagnaraðilar leggjast gegn því að eignarhald á orkuauðlindum verði einskorðað við opinbera aðila, þ.e. ríki og sveitarfélög.

Samkvæmt frumvarpinu á að aðskilja sérleyfisþætti frá samkeppnisþáttum til að tryggja að allir raforkuframleiðendur sitji við sama borð þegar kemur að samskiptum við fyrirtæki sem dreifa raforku. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að vel sé hægt að koma á samkeppni í vinnslu og sölu á raforku en að hins vegar búi dreifikerfið við „náttúrulega einokun“. Dreifiveitur, sem eru t.d. Orkuveita Reykjavíkur, RARIK og Hitaveita Suðurnesja, eiga því skv. frumvarpinu að vera að lágmarki 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila og þeim er ætlað að flytja og dreifa rafmagni óháð því hver framleiðir það. Þessi fyrirtæki munu þá ekki geta sinnt samkeppnisstarfsemi, þ.e. framleiðslu á rafmagni, og færa þarf slíka þætti inn í sjálfstæð fyrirtæki. Þetta nær þó ekki til lítilla orkufyrirtækja sem eru með árlegar rekstrartekjur innan við 2 milljarða króna.

Vilja ekki opinbert eignarhald

Samkeppniseftirlitið fagnar í umsögn sinni þessum aðskilnaði á samkeppnis- og sérleyfisþáttum. Það gera jafnframt Samtök iðnaðarins en Samorka og Viðskiptaráð hafa áhyggjur af því að þetta feli í sér óhagræði og RARIK heldur því fram að aðskilnaðurinn sé flókinn og að undanþágur flæki málið.

Allir þessir umsagnaraðilar, auk Landssamtaka raforkubænda, eru lítt hrifnir af ákvæðum um opinbert eignarhald. „Í stað þess að setja niður skýrar lögboðnar leikreglur á orkumarkaði með hagkvæma og sjálfbæra nýtingu, hámörkun arðsemi, virkt eftirlit og vernd orkukaupenda að leiðarljósi er leitað í smiðju þeirrar kenningar (hverrar ágæti hefur verið hrakið af biturri reynslu) að opinbert eignarhald og forræði sé nauðsynlegt til verndar almannahagsmuna og frekari framþróunar,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs en þar kemur einnig fram að með frumvarpinu sé verið að treysta eignarrétt hins opinbera yfir orkuauðlindum. Einkennilegt sé að álykta að það sé grundvallarforsenda áframhaldandi markaðsvæðingar raforkugeirans.

Í umsögn Samorku kemur jafnframt fram að erfitt sé að réttlæta slíka skerðingu á verðmætum sveitarfélaganna enda minnki virði dreifiveitnanna mjög verði frumvarpið að lögum.

100 ár fremur en 65

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög megi ekki framselja eignarrétt á vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 7MW. Upphaflega var ætlun iðnaðarráðherra að hafa mörkin við eitt megavatt og lágmarkið hefur því hækkað talsvert. Margir umsagnaraðilar leggjast alfarið gegn þessu ákvæði og vilja að hægt sé að framselja eignarréttindin varanlega. Norðurorka telur mörkin of lág og er jafnframt meðal þeirra sem gagnrýna harðlega að afnotarétturinn eigi aðeins að ná til 65 ára. Hundrað ár eru nefnd sem æskilegra viðmiðunartímabil, ef á annað borð eigi að takmarka framsalsrétt á þennan hátt.

Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið til iðnaðarnefndar Alþingis er runninn út en hugsanlega eiga einhverjar umsagnir eftir að berast, t.d. frá Hitaveitu Suðurnesja, sem ljóst er að þarf að skipta upp verði lögin samþykkt.

Í hnotskurn
» „Með umræddum ákvæðum er verið að festa í sessi umfangsmikla aðkomu opinberra aðila að raforkumarkaði. Það samrýmist ekki þeirri þróun sem hefur átt sér stað í þátttöku opinberra aðila að atvinnulífinu þar sem afl einkageirans hefur verið nýtt í þágu upbyggingar atvinnulífsins,“ segja Samtök atvinnulífsins.
» „Landssamtök raforkubænda telja lagasetningu í þá veru að tryggja ríkisvaldinu yfirráð orkuauðlinda með öllu óþarfa og einungis undirstrika stöðu sterks ríkisvalds, þar sem reynt er að tryggja stöðu hins opinbera gagnvart einstaklingsréttinum.“
» „Verði frumvarpið að lögum er ljóst að ríkið situr í öllum sætum við orkuborðið, sem valdhafi til reglusetninga, eftirlitsaðili og eigandi,“ segir Viðskiptaráð.
» „Samkeppniseftirlitið telur að frá sjónarmiði samkeppnislaga hnígi engin sérstök rök að opinberu eignarhaldi á félögum sem stunda sérleyfisstarfsemi. Frá almennu sjónarmiði má segja að heppilegast sé að eignarhald þeirra sé sem dreifðast þannig að sem flestir aðilar komi að raforkumarkaðinum.“