ÞAÐ er orðið ljóst að bæði Þróttur og Fjölnir munu leika sína heimaleiki á sínum völlum í Landsbankadeild karla í sumar.

ÞAÐ er orðið ljóst að bæði Þróttur og Fjölnir munu leika sína heimaleiki á sínum völlum í Landsbankadeild karla í sumar. Bæði félögin sóttu um undanþágu vegna mannvirkjaforsendna leyfiskerfisins og samþykkti stjórn KSÍ að veita félögum undanþágu þannig að þau leika á Valbjarnarvelli og Fjölnisvelli í sumar. Sá böggull fylgir þó skammrifi að félögin verða að koma fyrir 500 sætum fyrir áhorfendur við vellina til þess að þau megi leika þar.

Leyfisráð úrskurðaði á fundi sínum þann 19. mars að félögin uppfylltu allar A-forsendur leyfiskerfisins í öðrum þáttum en þeim sem snúa að mannvirkjamálum og bendir ráðið félögunum á að sækja um undanþágu vegna þessa til stjórnar KSÍ samkvæmt samþykkt mannvirkjanefndar KSÍ um keppnisleyfi.

Stjórnin samþykkti síðan á fundi sínum á fimmtudaginn að veita þessa undanþágu.