Þann 2. apríl birtist í 24 stundum grein eftir Bolla Thoroddsen sem heitir „Ár kartöflunnar og mannsæmandi líf“. Þar leggur Bolli út af grein tveggja kvenna þar sem óskað er eftir „mannsæmandi lífi á viðráðanlegu verði“.

Þann 2. apríl birtist í 24 stundum grein eftir Bolla Thoroddsen sem heitir „Ár kartöflunnar og mannsæmandi líf“. Þar leggur Bolli út af grein tveggja kvenna þar sem óskað er eftir „mannsæmandi lífi á viðráðanlegu verði“. Við þá hugleiðingu spyrðir hann auglýsingu vegna „Árs kartöflunnar og útkomu uppskriftabæklings sem tengist þeim atburði“.

Bolli telur að táknmynd ofurverðs á matvælum sé íslenskar kartöflur. Hann telur að kartöflubændur hafi fengið „nánast einokun á íslenska neytendur með aðstoð stjórnvalda“. Síðan segir Bolli: „Bannað er að flytja inn kartöflur nema með ofurtollum nær allt árið.“ Af því leiðir, telur Bolli, að Íslendingar fái ekki nýjar kartöflur og borði bara gamlar stóran hluta af árinu. Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma á framfæri í sambandi við málflutning Bolla. Fyrst af öllu staðhæfing hans um ofurtolla á innfluttar kartöflur en magntollur er 60 krónur á kíló á meðan íslensk framleiðsla er til sölu. Það verður hver um sig að túlka það hvort um ofurtolla sé að ræða. Heildsöluverð á kartöflum er um 80 krónur á hvert kíló og er skilaverð til bónda 40 krónur en það sem skilur á milli er flutningur frá bónda til afurðastöðvar, pökkun, umbúðir o.s.frv. Sama dag og grein Bolla birtist brá ég mér í tvær lágvöruverðsbúðir og var kílóverð á kartöflum 150 kr. í annarri en 100 kr. í hinni. Virðisaukaskattur er 7% ofan á heildsöluverð auk álagningar verslunar. Þegar tollvernd féll niður vorin 2006 og 2007 hækkaði kartöfluverð og var hærra en þegar íslensku kartöflurnar voru eingöngu á markaði! Matur er um 11,3% af heildarútgjöldum íslenskra fjölskyldna og vega kartöflur einungis 0,1% af heildinni. Af hverjum hundraðkalli sem fjölskyldan eyðir fara aðeins 10 aurar í kartöflur og því óeðlilegt að tengja umræðu um mannsæmandi líf við meinta ofurtolla og verð á íslenskum kartöflum. Bolli heldur fram að „víða má framleiða kartöflur mun ódýrari en hér og uppskerutími er allt árið einhvers staðar í heiminum“. Fyrri fullyrðingin er væntanlega rétt. Það er örugglega hægt að framleiða ódýrari kartöflur en hér á landi. Síðari fullyrðingin er hins vegar ekki rétt. Ég hef enga vitneskju um að kartöflur séu ræktaðar nánast stöðugt allt árið um kring. Kartöflur eru ræktaðar á ákveðnum tíma árs og það sem skilur að aðstæður hér og erlendis er að uppskerutíminn er fyrr á sumrin þar en hérlendis.

Við viljum gæði – við viljum íslenskt! Að lokum tel ég rétt að minna á að íslenskar kartöflur eru ræktaðar við bestu skilyrði. Skilyrðin eru köld sem lengir vaxtartíma en það eykur upptöku vítamína. Minna er notað af varnarefnum hérlendis auk þess sem íslenskar kartöflur eru skolaðar úr hreinu og tæru íslensku vatni samanborið við klórblandað vatn erlendis. Flutningsleiðir frá akri til neytenda eru yfirleitt mjög stuttar og því eru mengunaráhrif flutninga töluvert minni en á innfluttum kartöflum.

Höfundur er framkvæmdastjóri

Sambands garðyrkjubænda