Jónas Gunnar Einarsson
Jónas Gunnar Einarsson
Jónas Gunnar Einarsson fjallar um efnahagsmál: "Þvert á skoðun leiðarahöfundar er mikils um vert að umræðan haldi áfram... fjölmiðlum ber að stuðla að umræðu, ekki þagga umræðu niður."

AÐ BERJA hausnum við steininn er vond stefnumótun.

Á hinn bóginn gott orðtak yfir þvermóðsku, sem þessi misserin virðist mjög stýra stöfum í Morgunblaðinu, sbr. leiðara blaðsins í dag (28. febrúar) undir yfirskriftinni: Málið afgreitt. En þar er af innlifun himinn höndum tekinn, umræða um upptöku evru afgreidd sem rugl og vitleysa með ósk um umræðuhreinsun; umræðunni formlega slitið, sagt endanlega lokið, eina ferðina enn, með tilvísunum í ummæli Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Manuels Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem góða þulu vandkvæða um upptöku evru á Íslandi.

Morgunblaðið eins og fleiri skyldi ganga hægt um gleðinnar dyr í umfjöllun um útlit í efnahagsmálum, sem berst á ljóshraða um allar jarðir, ekki síður en í umfjöllun um túlkun á pólitískum ummælum.

Evrópusambandið heldur sig skiljanlega við stefnu sína um efnahagsleg skilyrði fyrir upptöku evru til að auka stöðugleika í Evrópu á sviði efnahagsmála. Ekkert síður en á sviði öryggismála. Ríkisstjórnin, fulltrúar almennings í málinu skiljanlega og eðlilega mjög á varðbergi gagnvart umræðu um evru því hér er í allmörg horn að líta, ekki síður pólitísk en hagræn; ekki síst útliti um fjármögnun fjármálafyrirtækja á næsta ári, sem og frumvarpi viðskiptaráðherrans um sértryggð skuldabréf, sbr. grein ráðherrans í Mbl. í gær (27. febrúar).

Þvert á skoðun leiðarahöfundar Mbl. er mikils um vert að umræða um allar hliðar málsins haldi áfram og því ástæða til að benda á það augljósa: fjölmiðlum ber að stuðla að umræðu, ekki þagga umræðu niður.

Evruvæðing er auðvitað þegar hafin á Íslandi: með uppgjörum fyrirtækja og ársreikningagerð í evrum; með útborgun launa í evrum, að hluta eða öllu leyti; síðast en ekki síst huglægt og tengist líðan og sálarlífi ef ekki skjátlast: síaukinn samanburður við okkar góðu frændþjóðir og aðrar þjóðir Evrópu og veldur vaxandi óþoli almennings á Íslandi gagnvart mismunun aðila á markaði, okrinu í vaxtakjörum og ógagnsæi verðlags.

Er þá ónefnd umræða hérlendis, utan ódáinsgarðs Morgunblaðsins, í kjölfar heimsókna erlendra hagfræðinga og sérfræðinga hingað til lands, sem sjálfstætt segja okkur satt og rétt, t.d. um tengingu krónu við evru: upptöku evrukrónu, ekr.

Umræða um evrukrónu virðist hafa lent í þöggun; þessari taktík fjölmiðlanna sem er einn af vondum vísnaháttum ritskoðunar, eins konar ofbeldi fyrir allra augum sem ekkert sjá.

Spurt er: Hvaða króna er evrukrónan?

Svar: Fasttenging gengis krónu við gengi evru. Aðgerð sem ekki er upptaka evru, með öllu sem fylgir, heldur yfirlýsing stjórnvalda og seðlabanka gagnvart umheiminum um að frá og með tilteknum tímapunkti sveiflist gengi íslenskrar krónu eins og gengi evru. Rétt eins og danska krónan og sænska krónan gera nú.

Þyngsta og eina almennilega röksemdin gegn tengingu íslenskrar krónu við evru/annan gjaldmiðil á ekki lengur við, þ.e. sjálfstæða handaflið um smíði og framkvæmd íslenskrar gengisstefnu sem mest er jafnvægislist á vatnskrana, höndum stjórnvalda og seðlabanka, mest eftir útliti um hagvöxt og þróun viðskiptakjara við útlönd. Ástæðan einföld og flókin: Í opnu hagkerfi er gengisstýring með handafli í besta falli óskynsamleg en í versta falli stórhættuleg, því þá er marsérað gegn eðlilegu samhengi í markaðsstarfsemi, þ.e. þess krafist að árlækir og fljótin renni upp á við.

Evrutenging ýtir út hugmyndum um breytingu/afnám verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Þau markmið fá sjálfkrafa aukið vægi við evrutengingu, með hliðsjón af markmiðum Seðlabanka Evrópu. Um leið má ætla að aukinn kraftur færist í stefnumótun sem miðar að því að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins um efnahagslega frammistöðu Íslands, ekki síst til að vera engir eftirbátar annarra og tryggja að við komumst í hóp Evrópusambandsríkja þegar og ef það hentar.

Til viðbótar yrðu fyrr en síðar að veruleika brýnar leiðréttingar á íslensku viðskiptaumhverfi, t.d. löngu löngu tímabær útstrikun þáttar eignabreytinga burt úr vísitölu neysluverðs. Myndi þá skána samræmið við evrópuvísitölu neysluverðs og sambærilegar landsvísitölur þjóða Evrópu.

Önnur leiðrétting er síðan afnám verðtryggingar.

Heiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, sagði í viðtali við Mbl. í gær (27. febrúar): „Ef ég væri seðlabankastjóri þá væri mitt fyrsta verk að afnema verðtrygginguna.“ Nefndi hann síðan enn eitt öfugsnúið dæmi af íslenskum fjármálamarkaði: hækkun vísitölu neysluverðs (þ.e. verðbólgu) sem veldur lækkun vaxta á nýjum útgefnum verðtryggðum skuldabréfum og lægri ávöxtunarkröfu. Klárt öfugmæli skuldabréfamörkuðum, en engu síður satt og rétt hérlendis. Verðtryggingin hangir á bláþræði; hangir á trúarbragðinu einu saman: sannleikur annarra okkar öfugmæli.

Þvermóðska á auðvitað stundum við; flestir þekkja þó afleiðinguna af því að slá ítrekað hausnum við steininn: Þá dregst þeim mun lengur að hausverkurinn skáni.

Höfundur er rithöfundur.