Þurrkur Brú yfir uppistöðulónið Barrios de Luna en vatnið í því hefur minnkað mikið.
Þurrkur Brú yfir uppistöðulónið Barrios de Luna en vatnið í því hefur minnkað mikið. — Reuters
MIKLIR þurrkar á Spáni eru farnir að valda hörðum deilum innanlands, milli þeirra héraða, sem líða mest fyrir vatnsskortinn, og þeirra, sem betur eru stödd. Í vetur eða frá 1. október hefur úrkoman verið 40% minni en til jafnaðar á þessum tíma.

MIKLIR þurrkar á Spáni eru farnir að valda hörðum deilum innanlands, milli þeirra héraða, sem líða mest fyrir vatnsskortinn, og þeirra, sem betur eru stödd. Í vetur eða frá 1. október hefur úrkoman verið 40% minni en til jafnaðar á þessum tíma. Segja sumir, að þurrkarnir séu þeir mestu í 40 ár en fyrir þremur árum, 2005, voru þurrkarnir þá taldir þeir mestu í 60 ár. Verst er ástandið í Miðjarðarhafshéruðunum og hefur það ekki verið verra síðan 1912.

Þurrkarnir hafa haft mjög alvarlegar afleiðingar á mörgum sviðum, ekki síst í landbúnaði og í rafmagnsframleiðslu en vatnsmagn í uppistöðulónum er nú aðeins 46,6% af því, sem þau rúma. Í Katalóníu með sínum sjö milljónum íbúa, þar sem Barcelona er höfuðborgin, eru aðeins 19% vatnsins eftir í uppstöðulónum og fari það niður í 15% verður ekki unnt að nota það vegna þess hve gruggugt það er þá orðið. Fari ekki að rigna myndarlega alveg á næstu mánuðum blasir ekki við neitt annað en vatnsskömmtun.

Deilt um vatnið í ánum

Yfirvöld í Katalóníu vilja, að vatni út ánni Segre, einni af þverám Ebró, verði veitt til héraðsins en stjórnvöld í Aragóníu, sem Ebró rennur um, eru því andvíg. Þau höfðu raunar á prjónunum að koma upp „evrópskri Las Vegas“ í eyðimörkinni með 70 hótelum, fimm stórum skemmtigörðum og golfvöllum en Jose Luis Rodriguez Zapatero forsætisráðherra bannaði það af umhverfisástæðum.

Frammi fyrir þessu neyðarástandi hafa Katalóníumenn látið sér detta ýmislegt í hug, t.d. að flytja inn ferskt vatn með skipum frá Marseilles í Frakklandi eða jafnvel með lestum frá öðrum héruðum Spánar. Það er þó talið allt of kostnaðarsamt en hins vegar er hafin smíði eimingarstöðvar, sem á að vinna 60 millj. rúmmetra af drykkjarvatni úr sjó árlega. Það svarar til neysluvatnsnotkunar í tvo mánuði.

Í landbúnaðinum verður hins vegar ekki um neina slíka lausn að ræða.

„Ef það fer að rigna alveg á næstunni, mun það verða til að bjarga uppskerunni að mestu leyti. Ef ekki, þá bíða okkar miklar hörmungar,“ sagði Andres del Campo, forseti Fenacore, landssambands spænskra áveitna.

Í hnotskurn
» Margir óttast, að Sahara-eyðimörkin sé að teygja sig yfir til Spánar og þriðjungur landsins verði henni að bráð.
» Ferðamannaiðnaðurinn er sakaður um gífurlegt vatnsbruðl og umfangsmikil grænmetisrækt í Almeria og Murcia um að þurrka upp allt vatn, grunnvatn og árvatn, á þeim slóðum.
» Um 80% allrar vatnsnotkunar á Spáni eru í landbúnaði og víðast hvar í suðurhluta landsins fer þetta hlutfall vel yfir 88%.