Stjórnmálaumræður vikunnar í kringum Natófund í Úkraínu er dæmið um þegar lítil þota veltir þungu hlassi. „Pólitísk umræða á lágu plani,“ segir forsætisráðherra.

Stjórnmálaumræður vikunnar í kringum Natófund í Úkraínu er dæmið um þegar lítil þota veltir þungu hlassi. „Pólitísk umræða á lágu plani,“ segir forsætisráðherra. „Enn eitt dæmið um að ríkisstjórn, þessi og þær sem á undan fóru, ráða ekki við nútímasamskipti í fjölmiðlun,“ segir almannatengill.

Pólitísk umræða úti á túni en ekki á plani

Ferðamáti Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra og Geirs H. Haarde forsætisráðherra, sem flugu með einkaþotu til Úkraínu á Natófund í vikunni, hefur vakið athygli. Undarlega, neikvæða og tilefnislausa athygli, að mati stjórnvalda og talsmanna þeirra. En veit ekki ríkisstjórnin hvað einkaþota táknar í huga almennings sem nú er sagt að spara? Vissulega var umræðan mikil. En kannski er þetta samt hið besta mál, þotan á spottprís, dýrmætur tími sparast til góðra verka, hótelkostnaður lækkar og ferðalúnir ráðherrar fá aukanætur í faðmi fjölskyldunnar. Kynningin var hins vegar ekki gott mál. Meira eins og skítaredding eftir á. Pólitíska umræðan fór út um víðan völl, endaði úti á túni og komst á það plan sem forsætisráðherra vill ekki hafa hana á. En því ræður hann ekki þótt hann sé forsætisráðherra. Geir Haarde er starfsmaður á plani fyrir þjóðina og verður að vera þar sem almenningur er og taka umræðuna sem kemur. Hversu þröngsýn og heimóttarleg sem þjóðarsálin og fjölmiðlarnir kunna að vera.

Lítil tilkynning fyrirfram hefði dugað

Aðdragandi ákvörðunarinnar um að leigja þotuna er sagður þessi: Farið var yfir verð og tímaplan ráðherranna tveggja. Dagskrá þeirra var þétt. Þotuleigan gerði tilboð sem var mjög gott en ekki mátti segja frá upphæðinni. Eftir að allir kostir höfðu verið skoðaðir þótti hagkvæmast að leigja þotuna. Sú ákvörðun kveikti á gagnrýninni sem varð býsna heit, bæði í fjölmiðlum og manna á milli. Bloggsíður loguðu og umræður urðu á Alþingi. „Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin gerði þetta sjálf að máli,“ segir Jón Hákon Magnússon, ráðgjafi í almannatengslum. „Ráðherrarnir áttu að segja það strax og að fyrra bragði hvers vegna þeir leigðu þotuna. Það gátu þeir gert þótt verðið hefði verið trúnaðarmál. Lítil tilkynning til fjölmiðla með skýringu sem fjölmiðlarnir koma áfram til þjóðarinnar hefði líklega alveg dugað, “ segir Jón Hákon. En þetta var ekki gert og í staðinn þurfa ráðherrarnir að búa við gagnrýni úr öllum áttum sem þeir hefðu getað sloppið við. „Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin skyldi ekki sjá við jafn fyrirsjáanlegum hlut. Þetta er ástæðan fyrir því að forsætisráðherra, utanríkisráðherra, talsmenn þeirra og embættismenn, fjölmiðlar og meira að segja Alþingi hafa eytt í umræður um lítið,“ segir Jón Hákon. Hann telur sem sagt að ríkisstjórnin geti hvorki bent á almenning né fjölmiðla og talað um lágkúru. Hún hafi grafið sína eigin gröf.

Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra og fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, er ekki sammála Jóni Hákoni.

Skilningsleysið ekki ríkisstjórnarinnar

Róberti finnst umræðan vera á lágu plani og þar sé ekki við ríkisstjórnina að sakast. Þvert á móti finnst honum Geir H. Haarde hafa útskýrt málið vel í Kastljósi sjónvarpsins. Gagnrýnina á stjórnvöld telur Róbert til marks um að umræðan sé ekki mjög nútímaleg. „Ég hefði haldið að skilningur á mikilvægi þess að spara tíma væri meiri, “ segir Róbert Marshall. „Ég taldi líka að almenningur hefði skilning á því að fólk sem ferðast um allan heim sem fulltrúar þjóðarinnar reyni að ferðast þannig að sem flestar nætur væru heima með fjölskyldunni.“

Enn er ekki alveg upplýst hver var á hvaða plani, hvort það er ríkisstjórnin eða almenningur sem ekki kann á nútímann. Eða hver er ástæða þess að stjórnvöld og fjölmiðlar nota dýrmætan tíma í umfjöllun um ómerkileg mál, eða gera merkileg mál ómerkileg með umfjöllun á lágu plani.

beva@24stundir.is