Í Hafnarhúsi Björn Jörundur með rafmagnsgítarinn í Hafnarhúsinu, þar sem auglýsingastofan Pipar er til húsa, en Björn gegnir þar starfi hugmynda- og textasmiðs.
Í Hafnarhúsi Björn Jörundur með rafmagnsgítarinn í Hafnarhúsinu, þar sem auglýsingastofan Pipar er til húsa, en Björn gegnir þar starfi hugmynda- og textasmiðs. — Morgunblaðið/Valdís Thor
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is BJÖRN Jörundur Friðbjörnsson tónlistarmaður á heiðurinn af öllum þeim dægurlögum sem flutt verða í Gítarleikurunum , við lagatexta eftir eina persónu leikritsins, trúbadorinn John Hansen.

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is BJÖRN Jörundur Friðbjörnsson tónlistarmaður á heiðurinn af öllum þeim dægurlögum sem flutt verða í Gítarleikurunum , við lagatexta eftir eina persónu leikritsins, trúbadorinn John Hansen.

Söguþráður verksins er á þá leið að fjórir ólíkir gítarleikarar og fyrrverandi nemendur Hansens ákveða að halda um hann minningartónleika, nýkomnir úr jarðarför hans. Það reynist hins vegar þrautin þyngri að skipuleggja þá. Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Halldór Gylfason, Hanna María Karlsdóttir og Jóhann Sigurðarson leika gítarleikarana en þau leika lög Björns og syngja í verkinu.

„Þau eru alveg nógu fær til að geta flutt þetta, já, já,“ svarar Björn, spurður að því hvort leikararnir fjórir séu færir á gítar. „Ég samdi þetta með það í huga að þau ættu að flytja þetta á sviðinu.“

Björn segir Hansen hafa verið þekktan lagahöfund en ekkert sérstaklega góðan, hann hafi samið virkilega vonda og skrítna texta.

„Ég gaf mér að hann hefði hlustað á ákveðnum tímabilum á ákveðna menn, hefði hlustað eitthvað á John Lennon t.d. og því bjó ég til eitt þannig lag fyrir hann, lét hann vera í nokkrum tímabilum.“

Björn segir að leikhúsgestir geti líklega greint áhrif frá einstaka lagahöfundum, að því gefnu að þeir hafi sæmilegt vit á tónlist. Hann hafi þó ekki tekið sérstaklega fyrir ákveðin tímabil tónlistarsögunnar í lagasmíðinni heldur reynt að miða við það sem var í gangi á þeim tíma sem Hansen samdi lögin.

„Við breyttum textunum og löguðum þá að lögunum á nokkrum stöðum. Stundum voru þeir svo hræðilegir að við urðum bara að gera það.“ Björn kemur sjálfur ekki að flutningi laganna, lætur leikarana alveg um að flytja þau.

Ellefu heil og tvö hálf

Björn hefur áður samið lög fyrir leikrit, m.a. fyrir Á sama tíma að ári sem naut mikilla vinsælda fyrir einum átta árum. Hann segist þó ekki hafa samið jafnmörg lög í einu fyrir eitt leikrit og Gítarleikarana , ellefu heil lög og tvö „hálf-lög“.

–Eiga lögin eitthvað eftir að heyrast utan leikhússins, verða þau kannski gefin út á plötu?

„Já, það er alla vega séns að það verði tekið upp eitthvað til að spila í útvarpi en ég veit nú ekki hvort við gerum heila plötu,“ svarar Björn. Lögin yrðu þá flutt af leikurunum, ekki honum. „Þetta er ágætt hjá þeim,“ segir Björn að lokum um flutning leikaranna á lögunum hans.

Gítarleikararnir verða frumsýndir á litla sviði Borgarleikhússins í kvöld kl. 20.