Robert Levin Lifandi spilamennska segir Jónas Sen um leik Levins.
Robert Levin Lifandi spilamennska segir Jónas Sen um leik Levins. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Tónlist eftir Dvorák, Beethoven og Richard Strauss í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einleikari: Robert Levin, Bryndís Halla Gylfadóttir. Stjórnandi Carlos Kalmar. Fimmtudagur 3. apríl.

GETUR hrein tónlist, sem ekki er sungin, sagt sögu? Svarið við spurningunni hér að ofan er ekki einfalt. Tónlist er bara skipulag hljóða sem getur í besta falli líkt eftir því sem hún á að sýna áheyrandanum. Engu að síður má skynja allt mögulegt í slíkri tónlist og óneitanlega er öfgakennt tónmál Richards Strauss, sem var á dagskránni á tónleikum Sinfóníunnar á fimmtudagskvöldið, þrungið merkingu.

Þetta var tónaljóðið um Don Kíkóta, en hann var spænskur aðalsmaður sem las yfir sig af riddarasögum og missti tökin á veruleikanum. Hann lagði út í heim og réðst á risa, sem í rauninni voru vindmyllur, og barðist við sauðfé, sem hann hélt vera óvinaher. Richard Strauss leitaðist við að segja söguna af hinum aumkunarverða riddara í tónum eingöngu og skipti verki sínu í tíu tilbrigði, sem hvert um sig er kafli í atburðarásinni.

Tónaljóðið verður að vera afburðavel leikið ef það á að njóta sín almennilega. Auk þess þarf það góðan hljómburð svo dramað skili sér fyllilega til áheyrenda; tónlistin verður að vera gædd glansáferð til að fínleg blæbrigðin geti sagt allt sem þau eiga að segja. Og endurómunin verður líka að vera rétt svo kraftmiklir kaflar nái viðeigandi þunga.

Fæst af þessu var í lagi á tónleikunum. Einleikur Bryndísar Höllu Gylfadóttur sellóleikara var að vísu sérlega fagur, og mikilvægir einleikskaflar þeirra Helgu Þórarinsdóttur víóluleikara og Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðluleikara og konsertmeistara komu líka ágætlega út þar sem ég sat. En það dugði bara ekki til. Í heild var leikur hljómsveitarinnar, undir stjórn Carlos Kalmar, oft ómarkviss, auk þess sem lélegur hljómburður Háskólabíós bjagaði styrkleikajafnvægið og olli því að verkið varð óhugnanlega flatneskjulegt. Ekkert gerðist í tónlistinni. Don Kíkóti og vindmyllurnar hefðu átt að birtast manni ljóslifandi, en í staðinn var áheyrendum boðið upp á yfirgengilega langloku sem ég hugsa að hafi gert flesta hálfbrjálaða úr leiðindum.

Meira var varið í forleik að Ótelló eftir Dvorák, og sérstaklega þó þriðja píanókonsertinn eftir Beethoven í túlkun Roberts Levins píanóleikara. Levin lék óvanalega frjálslega og bætti öllu mögulegu við verkið sem ekki er í nótunum (ég er ekki að tala um kadensurnar, eða sólókaflana, sem voru eftir Levin sjálfan). Kom það verulega skemmtilega út. Vissulega má segja að túlkandi listamaður eigi að virða vilja tónskáldsins og að ef hann sé ekki sáttur geti hann bara samið sína eigin músík. En það er líka gaman að heyra svona lifandi spilamennsku þar sem áheyrandanum er stöðugt komið á óvart. Guð minn góður hvað maður hefur oft heyrt þennan konsert fluttan af vísindalegri nákvæmni! Ég held að fleiri mættu taka Levin sér til fyrirmyndar.

Jónas Sen