Eflaust væri fulldramatískt að tala um uppreisn en það er ekki laust við að Alþingi sé farið að standa fastar í lappirnar gagnvart framkvæmdavaldinu en það hefur gert undanfarin ár.

Eflaust væri fulldramatískt að tala um uppreisn en það er ekki laust við að Alþingi sé farið að standa fastar í lappirnar gagnvart framkvæmdavaldinu en það hefur gert undanfarin ár. Þannig minna þingmenn reglulega á að valdið sé löggjafans og ráðherrarnir verði að gjöra svo vel að hlíta því. Hugmyndir dómsmálaráðherra um að skipta upp lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum hafa t.a.m. mætt andstöðu þingmanna úr stjórnarliðinu. Þrír Samfylkingarmenn lýstu miklum efasemdum í vikunni og innan Sjálfstæðisflokks ríkir heldur ekki eining um málið. Þess vegna verður áhugavert að fylgjast með því hvort lagabreytingar, sem þyrfti að gera, gangi í gegn.

Eldveggur eða eldvaldur?

Utanríkismálanefnd hefur sýnt hvað mesta sjálfstæðistilburði gagnvart framkvæmdavaldinu í vetur en utanríkisráðherra hefur jafnframt tekið af skarið og boðað stóraukið samráð í málaflokknum. Engu að síður var ekki haldinn sameiginlegur fundur áður en ráðamenn héldu utan á fund Atlantshafsbandalagsins nú í vikunni. Miðað við viðbrögð nefndarmanna má ætla að í framtíðinni komi ráðherra alltaf fyrir nefndina áður en hann fer á stóra fundi sem þennan.

Utanríkismálanefnd leggur til grundvallarbreytingar á varnarmálafrumvarpinu en hún skilaði áliti sínu á því í vikunni. Frumvarpið sjálft ber vott um þá togstreitu sem hefur verið milli dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Þannig er hugtakið „varnarmál“ ráðandi í frumvarpinu en minna fjallað um „öryggis- og varnarmál“ enda myndi hið síðarnefnda ná mjög inn á svið dómsmálaráðuneytisins.

Ætlunin er að reisa „lagalegan eldvegg“ milli borgaralegra og hernaðarlegra verkefna. Varnarmálastofnun á að sinna öllu hernaðarlegu samstarfi og verkefnum því tengdum, s.s. samskiptum við NATO og skipulagningu heræfinga hér á landi.

Í áliti sínu tekur utanríkismálanefnd undir gagnrýni, sem hefur m.a. komið frá Ríkislögreglustjóra, um að erfitt sé að draga svo skýr mörk milli borgaralegra og hernaðarlegra verkefna. Borgaralegar stofnanir verði að geta komið að hættumati og utanríkisráðherra eigi ekki að fara einn með stefnumótun í varnarmálum heldur þurfi ávallt að hafa samráð við nefndina.

Álit nefndarinnar skerpir á fyrirhugaðri lagasetningu en enn er fjölda spurninga ósvarað. Hvernig geta farið fram heræfingar við landið án þess að borgaralegar stofnanir á borð við Flugstoðir komi eitthvað að þeim, þó ekki sé nema til að tryggja öryggi borgaralegs flugs? Hvaða stjórn hafa íslensk yfirvöld á heræfingum hér á landi? Setti NATO fram kröfu um að ratsjárkerfið yrði áfram virkt hér á landi?

Rekstrarkostnaður við stofnunina er áætlaður tæplega 1,4 milljarðar í fjárlögum fyrir 2008 og verður ekki minni á næstu árum. Þetta eru umtalsverðar fjárhæðir og starfsemin verður því að vera vel úthugsuð.

Kóngur myndlíkinga

Yfir í aðeins léttara hjal. Eins og gengur og gerist með fólk almennt eru þingmenn misgóðir ræðumenn. Sumir hafa auðvitað menntun eða starfsreynslu sem hefur þjálfað þá í ræðulistinni en aðrir koma óreyndir inn og fá sína skólun á þingi.

Björn Bjarnason er kannski ekki líflegasti ræðumaður þingsins en sýndi ótrúlega takta á dögunum þegar hann í miðri ræðu tók upp penna og leiðrétti eitthvað á pappírunum sem hann var að lesa af, án þess að fipast í flutningnum. Kolbrún Halldórsdóttir býr að sinni leikhúsreynslu og kann sannarlega að flytja góðar ræður og flokksbróðir hennar Steingrímur J. Sigfússon á mjög góða spretti í ræðustóli, enda maður mikils orðaforða.

Guðni Ágústsson er hins vegar ókrýndur kóngur myndlíkinga á Alþingi og ræður hans bera sveitaupprunanum glöggt merki. Og í sveitum er talað um veðrið. „Óveðursský hrannast upp í íslenskum efnahagsmálum. Sá himinn sem til skamms tíma var heiður er nú þungbúinn og dimmur,“ sagði Guðni í umræðum um efnahagsmál. Hann talaði um krappa lægð í banka- og peningamálum, líkti lánsfé við súrefni fyrir fyrirtækin og gerði sjómannamálið að sínu þegar hann lýsti því hvernig þjóðarskútan velktist um í ólgusjó og ölduróti.

Skemmtilegar og vel smíðaðar ræður lífga sannarlega upp á þingið. En innihaldið er auðvitað alltaf aðalatriðið.