Eftir Gunnar Theodór Eggertsson gunnaregg@gmail.com Í ágætri bók frá 1974 um ofbeldi í listum fjallar höfundurinn John Fraser um óræðni í ofur-ofbeldisfullum kvikmyndum, eða svokölluðum níðingamyndum.

Eftir Gunnar Theodór Eggertsson

gunnaregg@gmail.com

Í ágætri bók frá 1974 um ofbeldi í listum fjallar höfundurinn John Fraser um óræðni í ofur-ofbeldisfullum kvikmyndum, eða svokölluðum níðingamyndum. Þegar bókin var skrifuð höfðu tvær nýlegar kvikmyndir vakið töluverða athygli og Fraser ber saman framsetningu ofbeldis í báðum verkum. Önnur myndin vakti mikið umtal vegna hrottaskapar, en hin ekki, þrátt fyrir að sú síðarnefnda innihaldi mun meira beint og sýnilegt ofbeldi. Sú er The Godfather (1972), með fjölda blóðugra og ruddalegra mafíumorða, en til samanburðar er aðeins eitt morð í þeirri fyrrnefndu, næstum ekkert blóð sýnilegt og flestir ofbeldisverknaðirnir framdir utan sjóndeildarhrings áhorfandans. Sú er A Clockwork Orange (1971). Út frá þessum samanburði veltir Fraser því lengi fyrir sér hvers vegna mynd Kubricks hafi vakið jafnsterk viðbrögð og raun ber vitni, en hin ekki. Til að gera langa sögu stutta telur hann það vera vegna óræðninnar sem ríkir í framsetningu bæði á illmennunum og sjálfu ofbeldinu.

Ég fór að rifja upp þennan kafla eftir að ég leigði mér Saw III (2006) um daginn. Fyrir þá sem ekki þekkja til myndaflokksins segir hann frá raðmorðingja sem kemur fórnarlömbum sínum fyrir í aðstæðum þar sem þau þurfa að framkvæma einhvern hrylling, ellegar týna lífinu. Í raun og veru eru myndirnar lítið annað en röð af dauðasenum sem snúast allar um frumlegar pyntinga- og aftökuaðferðir, hver annarri subbulegri. Slíkar pyntingamyndir má rekja til sömu ára og Fraser sat við sínar skriftir, eftir að höft kvikmyndaeftirlitsins höfðu minnkað tilfinnanlega vestra og leikstjórar tóku að gera tilraunir með alls kyns ofbeldi. Blóðið skvettist fljótt yfir skjáinn í myndum sem nutu almannahylli, á borð við Bonnie and Clyde (1967) og The Wild Bunch (1969), með ofbeldi sem var auðskilgreinanlegt og hluti af myndformi sem var kunnugt áhorfendum (s.s. mafíumyndir og vestrar). Órætt ofbeldi af þeim toga sem finna má í A Clockwork Orange komst sjaldan í mikla dreifingu án þess að hafa stór nöfn á bak við sig (á borð við Kubrick sjálfan eða Sam Peckinpah með Straw Dogs (1971)) heldur lenti miklu frekar í b-mynda prógrömmunum. Alræmdar níðingamyndir á borð við Last House on the Left (1972) eða I Spit On Your Grave (1978) (sem innihalda langar, erfiðar og niðurlægjandi ofbeldissenur) vöktu umtal meðal hryllingsunnenda, en náðu aldrei að fanga athygli umheimsins fyrr en með tilkomu myndbandstækninnar.

Í upphafi níunda áratugarins var fjöldi ofbeldismynda kominn á myndbandamarkaðinn og því orðinn aðgengilegri en áður þekktist. Þetta voru hryllingsmyndir af ólíkum toga – bæði níðingamyndir sem lögðu áherslu á tilfinningalega flókið ofbeldi og hreinræktaðar subbumyndir sem gerðu ekkert annað en að bjóða upp á heilalaust ofbeldi af verstu gerð. Þessar myndir voru kallaðar „video nasties“ og komu af stað slíku hneyksli að ritskoðunarskærin fóru á fullt, margar myndir voru einfaldlega bannaðar, og flestar hafa þurft aldarfjórðung til að jafna sig og komast aftur í samt lag. Það hlýtur því að teljast merkilegt hversu mikið landslagið hefur breyst á tímum þegar groddaverkum Saw- seríunnar er flaggað í öllum bíóum, stúdíóin keppast við að senda frá sér markaðsvænar subbumyndir og nútímaníðingamyndir líkt og Irréversible (2002) eiga greiða leið í A-salinn. Þetta er allt gott og blessað, enda brýn nauðsyn að horfast í augu við og ræða ofbeldi í öllum birtingarmyndum opinskátt í samfélaginu, en þegar öllum subbuskapnum hefur verið skúbbað fram í dagsljósið, hvað getur jaðarmenningin þá gert af sér næst?