Verðbólgan Stóra spurningin er hvert krónan stefnir, hún hefur veikst um 22% frá ársbyrjun. Fyrir páska náði gengisvísitalan hæsta gildi allra tíma.
Verðbólgan Stóra spurningin er hvert krónan stefnir, hún hefur veikst um 22% frá ársbyrjun. Fyrir páska náði gengisvísitalan hæsta gildi allra tíma.
GREINING Glitnis og greiningardeild Landsbankans spá því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um hálft prósentustig 10. apríl nk.

GREINING Glitnis og greiningardeild Landsbankans spá því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um hálft prósentustig 10. apríl nk.

„Þá teljum við að vöxtum verði haldið óbreyttum í 15,5% fram á þriðja ársfjórðung til að ná niður tímabundnum verðbólguþrýstingi,“ segir í Morgunkorni Glitnis. Vextirnir myndu halda aftur af verðbólguvæntingum.

Greiningardeild Kaupþings væntir þó ekki frekari vaxtahækkana, „enda er vandamál krónunnar ekki að vaxtamunur sé ekki til staðar,“ segir í stýrivaxtaspá. Vaxtahækkun við núverandi aðstæður skapi frekar ugg á erlendum mörkuðum. Seðlabankinn ætti því frekar að auka lausafé á gjaldeyrismarkaði.

Kaupþing og Glitnir spá því að vaxtalækkunarferli hefjist í september og að vextir verði 13,0-14,5% í árslok. Þá verði vextir ört lækkaðir á árinu 2009, verðbólgumarkmið náist um mitt árið og vextir verði 6,5-8,0% í lok þess árs.

Tíminn til aðgerða naumur

Glitnismenn segja nauðsynlegt að stjórnvöld og Seðlabankinn bregðist við aðstæðum í fjármálakerfinu með skýrum aðgerðum, áður en fjármálaóstöðugleiki nái að skjóta rótum. Sem dæmi um mögulegar aðgerðir nefna þeir lántöku til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans og rýmkun reglna um veðhæf verðbréf, sérstaklega í erlendri mynt. Þá sé mögulegt að ríkið kaupi skuldabréf bankanna sem gjaldfalli á næstu misserum, örlað hafi á stuðningi við þetta innan ríkisstjórnarinnar. „Við teljum þó að uppkaup á öllum skuldabréfum bankanna til næstu þriggja ára eins og Merrill Lynch mælir með [í nýlegri skýrslu] sé óþarflega stórt skref.“ Seðlabankinn hafi að vísu stigið fyrstu skrefin í rétta átt með útgáfu innistæðubréfa og ríkisbréfa. Bestu raunina gæfi líklega sambland þessara aðgerða, en ljóst sé að tíminn sé naumur.

Í hnotskurn
» Landsbankinn gerir ráð fyrir að verðbólga frá upphafi til loka þessa árs verði 8,4%. Þá náist verðbólgumarkmið um mitt ár 2009. Fallandi fasteignaverð muni einnig draga úr verðbólgu.
» Haldist krónan veik áfram gæti verðbólga hins vegar náð allt að 13% í sumar.