Sterkar Pálína Gunnlaugsdóttir sækir hér að körfu KR en til varnar eru Lilja Oddsdóttir og Sigrún Ámundadóttir.
Sterkar Pálína Gunnlaugsdóttir sækir hér að körfu KR en til varnar eru Lilja Oddsdóttir og Sigrún Ámundadóttir. — Ljósmynd/Víkurfréttir
KEFLAVÍK landaði í gærkvöldi sínum þrettánda Íslandsmeistaratitli í körfuknattleik kvenna, þegar liðið lagði KR 91:90. Þetta var þriðji leikur liðanna í úrslitum Iceland Express deildarinnar og sigraði Keflavík í þeim öllum.

KEFLAVÍK landaði í gærkvöldi sínum þrettánda Íslandsmeistaratitli í körfuknattleik kvenna, þegar liðið lagði KR 91:90. Þetta var þriðji leikur liðanna í úrslitum Iceland Express deildarinnar og sigraði Keflavík í þeim öllum. Raunar tapaði liðið ekki leik í úrslitakeppninni, því þær unnu Hauka einnig 3:0 í undanúrslitum. Hin bandaríska TaKesha Watson var í lykilhlutverki hjá Keflavík og var að leiknum loknum útnefnd besti leikmaður úrslitakeppninnar.

Eftir Kristján Jónsson sport@mbl.is

Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að Keflavík sé með besta lið landsins. Þegar niðurstaðan lá fyrir tjáði hann Morgunblaðinu að hún kæmi sér ekki á óvart: ,,Ég sagði fyrir tímabilið að við ætluðum okkur að vinna alla titla sem í boði væru. Það klikkaði því við misstum af bikarnum út af aumingjaskap í okkur sjálfum. Við unnum hins vegar hina fjóra og því ætti þetta ekki að koma fólki á óvart. Við vorum með besta liðið, það var engin spurning. Ég held að það hljóti allir að vera sammála því. Það var líka kominn tími á þetta. Það eru þrjú ár síðan Keflavík vann síðast og það þykir heldur betur langur tími hjá okkur,“ sagði Jón. Spurður um muninn á Keflavík og KR sagði hann breiddina hafa skipt höfuðmáli: ,,Við vorum með breiðari hóp en þær og spiluðum á fleiri leikmönnum. Það hefur sennilega gert það að verkum að minni þreytu gætti hjá okkur en þeim. Við ætluðum að fara í gegnum alla úrslitakeppnina án þess að tapa leik og það gekk eftir. Það var takmarkið og því kemur það okkur ekki á óvart.“

Reynsluleysi háði KR-ingum

KR veitti Keflavík verðuga mótspyrnu í gærkvöldi rétt eins og í fyrsta leik liðanna í Keflavík. Gestirnir byrjuðu af krafti og náðu í framhaldinu tólf stiga forskoti í öðrum leikhluta 37:25. Heimaliðið vann sig strax inn í leikinn á ný og náði ágætu forskoti í þriðja leikhluta á meðan Hildur Sigurðardóttir, leikstjórnandi KR, var utan vallar vegna meiðsla. Hún snéri þó aftur og í síðasta leikhlutanum vann KR upp ellefu stiga mun og jafnaði leikinn 87:87. TaKesha Watson skoraði þá síðustu fjögur stig Keflavíkur en Guðrún Ámundardóttir svaraði með glæsilegri þriggja stiga körfu þegar fimm sekúndur lifðu af leiknum. Þá brutu Keflvíkingar af sér og KR fékk tækifæri á því að stela sigrinum þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir. Skot þeirra geigaði hins vegar og nýliðarnir í deildinni urðu að játa sig sigraða. KR-ingar börðust vel í leiknum en reynsluleysi háði liðinu sem birtist meðal annars í því að þær töpuðu boltanum allt of oft til Keflvíkinga.

Munurinn gæti ekki verið minni

Jóhannes Árnason, þjálfari KR, er sammála því að Keflvíkingar hafi haft reynsluna fram yfir KR: ,,Við erum búin að spila tvo leiki hérna í Keflavík í þessari rimmu og tapa þeim báðum með samtals tveimur stigum. Þetta gæti því ekki verið minni munur. Keflvíkingar búa að því að eiga tvo útlendinga sem gera mikilvægar körfur fyrir þær á svona stundum. Þrjár úr mínu byrjunarliði eru bikarmeistarar í unglingaflokki og okkur skortir reynslu og kunnáttu sem þarf til þess að vinna svona leiki. Við létum þessar stelpur leika stórt hlutverk að þessu sinni og það mun nýtast þeim á næstu leiktíð,“ sagði Jóhannes.

Ingibjörg Vilbergsdóttir, fyrirliði Keflvíkinga, setti niður mikilvæga þriggja stiga körfu þegar skammt var eftir af leiknum. Hún var að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil: ,,Við ætluðum alltaf að taka þetta 3:0 en vissum að það yrði mjög erfitt. Við sýndum bara hversu öflugar við erum og tókum þetta bara 6:0 í úrslitakeppninni,“ sagði Ingibjörg en gat ekki neitað því að hafa verið orðin örlítið stressuð undir lokin þegar KR tókst að jafna: ,,Auðvitað. En það er mikill karakter í okkar liði og ég var sannfærð um að við myndum koma til baka. Það var alltaf markmiðið að ná öllum fimm titlunum en við náðum fjórum. Á næsta ári verða þeir fimm.“

Var ekkert stressuð

Pálína Gunnlaugsdóttir gekk í raðir Keflvíkinga frá Haukum síðastliðið sumar. Hún hefur leikið stórt hlutverk hjá Keflavík í úrslitakeppninni þó svo að hún hafi ekki átt sinn besta leik í sókninni í gærkvöldi. Pálína varð Íslandsmeistari með Hafnfirðingum 2006 og 2007. Hún hefur því orðið meistari þrjú ár í röð: ,,Jú jú það er alveg hægt að venjast þessu. Þetta er svo sem mjög svipað að vinna titilinn með Keflavík og Haukum. Reyndar er leikmannahópurinn svolítið ólíkur. Ég var ekkert stressuð fyrir þennan leik og spurði þjálfarann hvort það væri ekki skrítið. Honum fannst það hins vegar bara fínt. Kannski er maður orðin eitthvað kokhraust af því að maður er búinn að vinna þetta áður. Reyndar er mikið sjálfstraust í öllu liðinu enda höfum við ekki tapað í síðustu fjórtán leikjum. Við skjótum allar á körfuna af miklu sjálfstrausti,“ sagði Pálína.

Pálína styrkti Keflavíkurliðið mikið eins og Birna Valgarðsdóttir sem snéri aftur í janúar eftir barneignarfrí. Á sama tíma bættist hin þýska Susan Biemer í hópinn og að undanförnu hefur Keflavík verið óstöðvandi. Sterkasti hlekkur liðsins er þó TaKesha Watson sem eins og áður segir var verðlaunuð fyrir frammistöðu sína í úrslitakeppninni. Mjög verðskuldað hjá Watson enda frábær íþróttamaður þar á ferðinni.