Edda V. Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 1943. Hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1977 og starfaði hjá Alþýðuleikhúsinu og síðar hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Edda V. Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 1943. Hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1977 og starfaði hjá Alþýðuleikhúsinu og síðar hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Edda hóf störf hjá SÁÁ árið 1989 sem áfengisráðgjafi og starfaði þar til ársins 2002 þegar hún varð forstöðukona Dyngjunnar. Eiginmaður Eddu er Elías Sv. Sveinbjörnsson og eiga þau tvö börn og tvö barnabörn.

Dyngjan er áfangaheimili fyrir konur sem lokið hafa áfengis- eða vímuefnameðferð. Næstkomandi miðvikudag, 9. apríl, verður Dyngjan 20 ára og verður af því tilefni opið hús frá 5 til 7 og gestum boðið upp á kaffisopa.

Edda V. Guðmundsdóttir er forstöðukona Dyngjunnar: „Það er gott að hafa stað eins og Dyngjuna þar sem gefst svigrúm fyrir skjólstæðingana að byggja upp allsgáðan og ábyrgan lífsstíl,“ segir Edda en um 860 konur hafa búið í Dyngjunni frá upphafi. „Hér geta dvalið 14 konur hverju sinni, allt frá þremur mánuðum upp í ár, og í nokkrum tilvikum er reynt að bjóða þann möguleika að konur geti haft börnin sín hjá sér.“

Íbúar í Dyngjunni þurfa að fylgja heimilisreglum sem kveða m.a. á um að þær sæki þrjá AA-fundi í viku og stundi samviskusamlega framhaldsmeðferðir. Haldnir eru húsfundir þrisvar í viku þar sem farið er yfir stöðuna og línurnar lagðar. Þar læra heimilismenn hver af annarri að byggja sig upp á ný,“ segir Edda, en um 40 konur innritast í Dyngjuna á ári hverju. „Þær velja sjálfar að koma í Dyngjuna og eru yfirleitt mjög duglegar að vinna að batanum. Hér leggja þær mikið á sig til að breyta lífsmynstrinu í allsgáðann lífsstíl og ábyrgan.“

Það er mikilvægt, að sögn Eddu, að börn kvennanna geti alltaf heimsótt mæður sínar „Börnin eru alltaf velkomin. Mörg gista hér um helgar og í sumum tilvikum búa börnin hérna allan tímann. Til dæmis er einn sex mánaða snáði hér núna með móður sinni,“ segir Edda. „Batinn væri svo miklu erfiðari, ef konurnar hefðu ekki þennan möguleika og byggir starfsemi Dyngjunnar m.a. á því að veita möguleika á að skapa eðlilegt fjölskyldulíf að nýju.“

Dyngjan var stofnuð að frumkvæði hóps kvenna sem unnið höfðu bug á fíkn og leituðu til borgarinnar um að opna aðstöðu af þessu tagi. „Það hefur sýnt sig að starfsemi Dyngjunnar skiptir sköpum og er þörfin mikil. Sérstaklega gaman er þegar við fáum heimsóknir frá fyrrum íbúum sem leggja stundum leið sína hingað til að þakka fyrir vistina. Það er líka uppörvandi fyrir þær sem hér búa að sjá aðrar konur sem gengið hafa í gegnum það sama en hafa náð að vinna sig svona langt frá þessum sjúkdómi.“