[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Albert Örn Eyþórsson albert@24stundir.is „Þetta var alveg stórkostlegt leik eftir leik og aldrei áður hef ég orðið vitni að annarri eins baráttu og fórnfýsi í neinni íþrótt.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

„Þetta var alveg stórkostlegt leik eftir leik og aldrei áður hef ég orðið vitni að annarri eins baráttu og fórnfýsi í neinni íþrótt.“ Svo segir Margrét Ólafsdóttir, fararstjóri íslenska kvennalandsliðsins í íshokkí, eftir frækilega frammistöðu liðsins í fjórðu deild heimsmeistaramótsins í íshokkí. Þar tóku íslensku stúlkurnar hverja þjóðina af annarri nánast í kennslustund og enduðu með gullverðlaunin. Fyrirfram voru þær allra bjartsýnustu í hópnum að gæla við að ná bronsverðlaunum.

Þvert á spár

Mörgum erlendum áhugamönnum hefur löngum þótt það bæði skondið og merkilegt að þjóð sem kennir sig við ís skuli ekki vera betri í íshokkí en raunin hefur verið undanfarin ár. Okkur til huggunar eru margar ástæður fyrir því en fyrst og fremst aðstöðuskortur lengi vel og í raun ennþá. Sé litið til þeirrar staðreyndar auk þeirrar að hér á landi spila aðeins tvö kvennalið íshokkí með samtals 44 skráða iðkendur er árangur íslenska kvennalandsliðsins hreint stórkostlegur.

Sarah Smiley

Þótt slíkur árangur náist aðeins ef allir leggjast á eitt er einn einstaklingur sem leikmenn og aðstandendur telja eiga hvað mestan heiður af afrekinu. Það er Sarah Smiley, aðalþjálfari liðsins, en um það eru menn sammála að hún hafi lyft grettistaki, ekki aðeins hjá landsliðinu heldur í skautaíþróttum almennt þau tæpu tvö ár sem hún hefur þjálfað á Akureyri. Sjálf er hún hógværari en svo. „Árangurinn kom okkur öllum á óvart en eftir að hafa unnið fyrstu tvo leikina fórum við að gera okkur ljóst að við gætum meira og farið lengra en við héldum. Ég kortlagði andstæðingana mjög vel og var grimm í að breyta leikkerfi okkar þegar ástæða var til og stelpurnar náðu að læra og leika nákvæmlega eftir þeim kerfum sem gerði svo gæfumuninn þegar upp var staðið.“

Stelpur mót strákum

Sarah kemur frá Kanada þar sem hún spilaði íshokkí í kvennadeildinni við góðan orðstír en kann vel við sig á Akureyri og er ekkert á leið heim á ný. „Akureyri er með ótrúlegan stórborgarbrag og ég finn lítið fyrir heimþrá. Aðallega fyrir pressu að halda áfram að gera góða hluti og reyna að gera liðið klárt í þriðju deildina þegar þar að kemur og er strax komin með nokkrar hugmyndir enda er himinn og haf milli fjórðu deildar og þeirrar sem við spilum í næst. Ég hyggst meðal annars láta stelpurnar keppa reglulega við strákaliðin því þar er talsverður getumunur og til að bæta sig verður að vera meira í boði en að mæta alltaf sama liðinu í deildinni eins og hefur verið raunin hér um langt skeið.“
Í hnotskurn
Íslenska liðið leiddi í öllum helstu tölfræðideildum mótsins. Markaprósenta 15.87% Markvarsla 95.33% varin Power Play 42.55% Penalty Killing 100%