MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs: „Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs harmar þá ákvörðun umhverfisráðherra Þórunnar Sveinbjarnardóttur að greiða...

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

„Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs harmar þá ákvörðun umhverfisráðherra Þórunnar Sveinbjarnardóttur að greiða götu álversframkvæmda í Helguvík. Með því að staðfesta fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat fyrir álver í Helguvík hunsar ráðherra náttúruvernd í landinu og svíkur öll fyrri loforð um stóriðjuhlé.

Það er æðsta hlutverk umhverfisráðherra að standa vörð um náttúru landsins og framfylgja ábyrgri umhverfisstefnu. Það er óforsvaranlegt að ráðherrann úrskurði gegn umhverfi og náttúruvernd og hafni þeirri eðlilegu kröfu Landverndar að fram fari heildarumhverfismat fyrir álver, virkjanir og flutningslínur. Þá vekur furðu að ráðherra treysti sér ekki einu sinni til að taka efnislega afstöðu til málsins í heild heldur vísi öðrum megin þætti þess frá, þrátt fyrir að málið sé búið að velkjast í ráðuneytinu og embættismannakerfinu í marga mánuði.

Umhverfisráðherra hefur nú setið á ráðherrastóli í tíu mánuði og hefur á þeim tíma haft gnótt tækifæra til að leggja fram breytingar á lögum og reglum, endurskoða vinnubrögð og taka ákvarðanir til að treysta betur náttúruvernd í landinu. Það er til lítils fyrir valdhafa að segjast vera ósáttur við eigin ákvarðanir eða nefna í orði kveðnu óljósar stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni ef í reynd er ekkert að gert til að stöðva stóriðjuáætlanir og náttúrueyðileggingu. Það er hægur vandi að skipta um stefnu án stjórnarskrárbreytinga ef raunverulegur vilji er fyrir hendi innan ríkisstjórnarinnar.

Í kosningabaráttunni síðastliðið vor hamraði Samfylkingin á loforðum sínum um stóriðjuhlé. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs krefst skýringa á svikunum og skorar á ríkisstjórnina að hverfa frá þjónkun við hina blindu stóriðjustefnu með tilheyrandi náttúruspjöllum, þensluáhrifum í efnahagsmálum og neikvæðum ruðningsáhrifum gagnvart öðru atvinnulífi. Það er enn ekki of seint fyrir Samfylkinguna að standa við gefin loforð og framfylgja ábyrgri umhverfisstefnu í anda sjálfbærrar þróunar, en nú eru síðustu forvöð og trúverðugleiki flokksins í umhverfismálum er í húfi í heild sinni.“