Það getur verið hættulegt að hafa skoðanir. Reyndar ekki alls staðar, en í sumum löndum getur verið afdrifaríkt að segja skoðun sína.

Það getur verið hættulegt að hafa skoðanir. Reyndar ekki alls staðar, en í sumum löndum getur verið afdrifaríkt að segja skoðun sína. Í fyrradag dæmdi dómstóll í Peking Hu Jia í þriggja og hálfs árs fangelsi á þeirri forsendu að hann skrif hans og ummæli hefðu verið hvatning til niðurrifs.

Dómurinn er greinilega til þess ætlaður að þagga niður í Hu, sem hefur verið ötull talsmaður mannréttinda í Kína. Hann hefur hjálpað alnæmissjúklingum og tekið þátt í gróðursetningu trjáa til að verjast uppblæstri.

Hann var handtekinn í desember vegna sex greina sem hann skrifaði og viðtala þar sem hann gagnrýndi kínversk stjórnvöld. Meðal annars lýsti hann því hvernig lögreglan pyntaði tvo einstaklinga sem mótmæltu þegar heimili þeirra voru gerð upptæk með ólöglegum hætti í Peking. Þessar greinar og viðtöl voru notuð gegn honum í réttarhöldunum.

Kínverjar sögðu þegar þeir sóttu um að halda Ólympíuleikana á þessu ári að það myndi stuðla að því að opna landið og efla mannréttindi. Atburðir undanfarnar vikur benda ekki til þess að kínversk stjórnvöld ætli að standa við þessi fyrirheit. Mótmæli eru barin niður af harðfylgi í Tíbet. Reynt er að þagga niður raddir sem hafa óþægilegan boðskap fram að færa. Meðferðin á Hu er ef til vill hálfkák miðað við fyrri tíma en sýnir engu að síður hversu óviss kínversk stjórnvöld eru í sinni sök.

Við undirbúning Ólympíuleikanna, sem hefjast í ágúst, var ráðist í miklar framkvæmdir í Peking. Í þessum framkvæmdum hefur verið gengið nærri gömlum og rótgrónum húsum og hverfum í borginni og mikil menningarverðmæti hafa horfið. Þessar framkvæmdir hafa iðulega verið í óþökk íbúanna sem margir hafa verið þvingaðir til að flytja í úthverfi borgarinnar og oft í mun lakari híbýli en þeir áttu fyrir. Andóf gegn þessum framkvæmdum hafa stjórnvöld reynt að kveða niður með ýmsum ráðum.

Nú nálgast Ólympíuleikarnir og stjórnvöld vilja ekki að blettur falli á glansmyndina. Það hefur hins vegar þveröfug áhrif þegar mótmæli eru kæfð og gagnrýnendum varpað í fangelsi.

Kínversk stjórnvöld sóttust eftir að Kína kæmist í sviðsljósið þegar þau föluðust eftir að fá að halda Ólympíuleikana, en þau geta ekki ráðið því hvert því er beint. Nú beinist það að Hu Jia og Zeng Jinyan, konu hans, sem hefur einnig gagnrýnt stjórnvöld og situr í stofufangelsi. Hafa leiðtogar kommúnistaflokksins hugrekki til að standa við fyrirheitin um aukin mannréttindi og opnara samfélag?