[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Atla Fannar Bjarkason atli@24stundir.

Eftir Atla Fannar Bjarkason

atli@24stundir.is

„Bakraddirnar eru stórskotalið íslenskra bakraddasöngvara; Hera Björk, Guðrún Gunnars, Pétur Örn og Grétar Örvarsson,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson, sérstakur ráðunautur Eurobandsins fyrir Evróvisjón-keppnina í Belgrad í Maí.

Mikil læti hafa verið í kringum Eurobandið frá því að 24 stundir sögðu frá því að dönsurunum fjórum í atriðinu hefði verið sparkað fyrir fjóra bakraddasöngvara. Dansararnir voru ósáttir og sögðu mikilli vinnu fórnað. En Páll Óskar er hvergi banginn og segir atriðið annað og betra nú þegar bakraddirnar hljóma undir söng Friðriks Ómars og Regínu Óskar. Hann undirstrikar þó að lagið hvíli að mestu á þeirra herðum. „Friðrik Ómar og Regína Ósk eru í forgrunni. Lagið er í réttum höndum – í þeirra börkum.“

Atriðinu ekki breytt aftur

„Við prófuðum bæði að vera með dansara og svo bakraddasöngvara til samanburðar, segir Páll Óskar um ákvörðunina sem lá að baki þegar dönsurunum var skipt út fyrir bakraddir. „Fyrsta prufan með bakraddasöngvurum hafði mikil áhrif á mig og Örlyg Smára, sem erum að semja Lagið. Það gerðist eitthvað. Við treystum því að þetta sé besta útfærslan á atriðinu – héðan í frá verður því ekki breytt.“

Sögusagnir hafa verið á kreiki um að fjölmargir söngvarar hafi verið kallaðir í áheyrnarprufur fyrir Eurobandið. Spurður út í það segist Páll Óskar alls ekki vilja gefa upp hversu margir voru prófaðir. „Það er leyndó,“ segir hann, og bætir við að hópurinn hafi fengið bakraddirnar sem hann óskaði sér. „...Þau stóðust prófið með þvílíkri sæmd.“