ÁSGEIR Þór Davíðsson, eigandi skemmtistaðarins Goldfinger, ætlar að áfrýja til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sínu gegn Guðrúnu Elínu Arnardóttur ritstjóra og Björk Eiðsdóttur blaðamanni Vikunnar.

ÁSGEIR Þór Davíðsson, eigandi skemmtistaðarins Goldfinger, ætlar að áfrýja til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sínu gegn Guðrúnu Elínu Arnardóttur ritstjóra og Björk Eiðsdóttur blaðamanni Vikunnar.

Í dóminum sem kveðinn var upp í gær sýknaði héraðsdómur ritstjórann og blaðamanninn af kröfum stefnanda. Hann var einnig dæmdur til að greiða hinum stefndu málskostnað upp á 600 þúsund kr.

Ásgeir krafðist þess að ummæli um hann, sem höfð voru eftir í viðtali Vikunnar við Lovísu Sigmundsdóttur nektardansmey 23. ágúst 2007, yrðu dæmd dauð og ómerk. Sömuleiðis að millifyrirsagnir og fleira sem laut að uppsetningu á viðtalinu og kynningu á því, m.a. á forsíðu, í efnisyfirliti og leiðara, yrði dæmt dautt og ómerkt. Þá krafðist hann 5 milljóna kr. miskabóta og 800 þúsund kr. til birtingar á niðurstöðu málsins í dagblöðum og að stefndu greiddu málskostnað.

Nektardansmeynni var einnig stefnt en stefnandi gerði við hana dómsátt og greiddi henni 150 þúsund kr. Ritstjóri og blaðamaður Vikunnar kröfðust sýknu, en til vara að fjárhæðir yrðu lækkaðar verulega.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á „að við framsetningu þess viðtals í tímaritinu Vikunni, sem um ræðir í málinu, og kynningu helstu efnisatriða þess hafi verið hafðar í frammi ærumeiðingar og aðdróttanir sem varði við 234. gr., 235. gr. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga öndvert löghelguðum og stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningarfrelsis.“ Niðurstaða dómsins var því sú að sýkna bæri ritstjóra og blaðamann Vikunnar af öllum kröfum stefnanda.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari dæmdi málið. Lögmaður stefnanda var Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl. og lögmaður Vikunnar var Gunnar Ingi Jóhannsson hdl.