Heiða Þórðardóttir
Heiða Þórðardóttir
Heiða Þórðardóttir skrifar um málefni öryrkja, láglaunafólks og ellilífeyrisþega: "Þegar ekki er staðið við loforð kallast það einfaldlega svik."

ÉG nýt þeirrar guðs blessunar að vera tiltölulega heilbrigð á sál og líkama. Þeirrar sömu gæfu eru ekki allir aðnjótandi. Því miður. Þar á meðal fólk sem stendur mér nærri. Framkoma þeirra manna sem sitja við stjórnvöl þessarar þjóðar, í garð; öryrkja, láglaunafólks og ellilífeyrisþega, líkist einna helst helför að þeim sem minna mega sín, í mínum huga. Þvílíkt skeytingar- og virðingarleysi.

Upp í huga mér kemur fyrstur Pétur Blöndal og ummæli hans í gegnum tíðina. Mín ósk til hans er að aldrei muni hann lenda í þeirri aðstöðu að standa uppi sem öryrki. Aldrei muni hann standa uppi slyppur og snauður og þurfa að beygja sig það lágt að leita sér ásjár í von um æti. Að aldrei, aldrei muni karlinn eldast það hratt að hann teljist lögbundinn ellilífeyrisþegi.

Félagsmálaráðherra hefur í mínum huga í gegnum tíðina verið baráttukona. Stjórnmálamaður „litla mannsins“. Það dró þó úr aðdáun minni á Jóhönnu þegar mér varð ljóst að tekjumörk öryrkja eru 300.000 kr. á ári, áður en bætur þeirra skerðast. Ellilífeyrisþegar mega afla sér mun meiri tekna áður en til skerðinga kemur. Að mínu mati ættu mörkin að vera engin. Við eigum ekki að refsa fólki fyrir að eldast eða veikjast. Eitt af loforðum Jóhönnu fyrir síðustu kosningar var m.a. að eðlileg hækkun á örorku- og ellilífeyrisbótum væri 50.000 kr. Yrði það henni keppikefli og myndi hún stuðla að hækkuninni kæmist hún til valda. Hækkunin nú síðast nam um 4%. Ekki var staðið við loforðið. Þegar ekki er staðið við loforð kallast það einfaldlega svik.

Fátækt er andstyggilegur „Akkilesarhæll“ sem elur af sér veikindi, andleg og líkamleg. Að eiga ekki í sig og á er hægfara dauðdagi. Má ég biðja um skjótan, heilbrigða lífdaga fyrir mig sjálfa, takk.

Það vekur upp hjá mér óhug og vanmátt að horfa upp á fólk veslast upp í kringum mig og eru þessir stjórnarhættir stór liður í því. Af hverju ekki að leyfa þeim sem á undan komu að „fara“ með sæmd? Af hverju ekki að hlúa betur að þeim sem minna mega sín? Af einhverri ástæðu dettur mér í hug:

– um hvað hugsa ráðamenn þegar þeir leggjast til hvílu að degi loknum? Eru þeir sáttir við áunnið dagsverk? Eru draumfarir jafn ljúfar og þeirra sem ekkert hafa á samviskunni?

Höfundur er verslunarstjóri.