Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson
BIRGIR Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, komast áfram á Estoril Open í Portúgal í gær, en mótið er liður í evrópsku mótaröðinni.

BIRGIR Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, komast áfram á Estoril Open í Portúgal í gær, en mótið er liður í evrópsku mótaröðinni. Birgir Leifur lék á einu höggi undir pari í gær og tveimur höggum undir pari í fyrradag og er því samtals á 139 höggum eða þremur höggum undir pari vallarins. Það skilar honum í 51. til 62. sætið á mótinu en 155 kylfingar mættu til leiks og 77 komust áfram eftir hringina tvo.

Það var nokkuð spennandi að fylgjast með gangi mála undir lok hringsins í gær því Birgir Leifur var með síðustu mönnum í hús og staðan því nokkuð ljós. Hann var næst síðastur á lista þeirra sem voru fyrir ofan strik, en þeir sem eru þar komast áfram, áður en hann kom á 16. holuna. Hann mátti aðeins missa eitt högg til að detta niður fyrir strik. En hann lék síðustu þrjá holurnar á pari, líkt og fyrri daginn og komst sem sagt í gegnum niðurskurðinn.

Fyrri níu holurnar voru nokkuð skrautlegar hjá honum því hann byrjaði á fugli, síðan komu tveir skollar, par og fugl. Því næst komu þrjú pör í röð og fugl á níundu holu. Samtals eitt högg undir pari. Á seinni níu fékk hann 7 pör, fugl á 13. braut og skolla á 15.

Spilamennskan virðist vera nokkuð þokkaleg á þessu móti því þeir sem voru á einu höggi undir pari eftir fyrstu tvo dagana komust ekki áfram. Alls léku 92 kylfingar undir pari.