Karlalandsliðið í íshokkí er komið til Ástralíu þar sem það keppir í 2. deild heimsmeistaramótsins. Fyrsti leikurinn er gegn Nýja-Sjálandi á mánudagsmorguninn en auk þess er leikið við Ástralíu, Mexíkó, Kína og Spán .

Karlalandsliðið í íshokkí er komið til Ástralíu þar sem það keppir í 2. deild heimsmeistaramótsins. Fyrsti leikurinn er gegn Nýja-Sjálandi á mánudagsmorguninn en auk þess er leikið við Ástralíu, Mexíkó, Kína og Spán . Íslenskur þjálfari stjórnar liðinu í fyrsta skipti, Sveinn Björnsson , sem er aðalþjálfari Skautafélags Akureyrar , en honum til aðstoðar er Richard Eiríkur Tahtinen , sem er hálfíslenskur og hefur þjálfað undanfarin ár hjá Malmö Redhawks í Svíþjóð . Íslenska liðið endaði í fjórða sæti af sex liðum í sínum riðli 2. deildarinnar á síðasta ári. Sextán bestu þjóðir heims leika á sjálfu heimsmeistaramótinu, tólf leika í 1. deild og Íslendingar eru einir tólf þjóða í 2. deildinni. Þar fyrir neðan eru síðan átta þjóðir í 3. deild.

Keflvíkingurinn Haraldur Freyr Guðmundsson hefur verið settur út úr byrjunarliði Aalesund fyrir stórleik liðsins gegn Noregsmeisturum Brann í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Það kemur mjög á óvart en Haraldur hefur verið lykilmaður í vörn liðsins undanfarin ár. „Ég er bálreiður og tel mig ekki verðskulda þetta, enda taldi ég mig hafa spilað vel gegn Vålerenga í fyrstu umferðinni. En ég lofa því að ég verð ekki lengi á bekknum ,“ sagði Haraldur við netútgáfu Sunnmörsposten í gær. Ólafur Örn Bjarnason og Kristján Örn Sigurðsson eru í byrjunarliði Brann í dag en Gylfi Einarsson er á varamannabekknum.

Íslenska kvennasveitin í golfi, sem keppir á á Sotogrande vellinum á Spáni, er í 9. til 10. sæti af 11 sveitum eftir þriðja hring í gær. Valdis Þóra Jónsdóttir lék best íslensku keppendanna í gær, lauk leik á 75 höggum og Tinna Jóhannsdóttir var á 78 höggum. Helena Árnadóttir lék á 84 og taldi ekki. Tinna er í 14. sæti í einstaklingskeppninni á 233 höggum, Valdís Þóra í 17. á 235 höggum og Helana 33. á 254 höggum, en keppendur eru 34.

Karlasveitin er í 19. og næst neðsta sæti en þar lék Sigurþór Jónsson sinn besta hring í keppninni til þessa, lauk leik á 75 höggum. Hinir þrír, Pétur Freyr Sigurðsson, Kristján Þór Einarsson og Stefán Már Stefánsson léku allir á 77 höggum. Stefán Már er í 63. sæti á 235 höggum en 79 kylfingar keppa. Pétur Freyr er í 68. sæti á 237 höggum, Kristján Þór og Sigurþór eru í 72. sæti á 240 höggum.

Kristján Ari Halldórsson , kantmaður í úrvalsdeildarliði HK í knattspyrnu, missir af fyrstu umferðum Íslandsmótsins. Kristján Ari , sem lék 10 leiki með HK í úrvalsdeildinni í fyrra, brákaðist á rist á æfingu Kópavogsliðsins í vikunni.