Céline „Margir miklir höfundar af hans kynslóð horfðu eins og hann upp á dauða, stríðsátök, hrylling, þjáningar og útskúfun.“
Céline „Margir miklir höfundar af hans kynslóð horfðu eins og hann upp á dauða, stríðsátök, hrylling, þjáningar og útskúfun.“
„Það er þessari dapurlegu vitleysu að þakka að skáldsagnahöfundurinn Céline náði að átta sig á einum þætti í tilveru mannsins sem enginn hafði komið auga á á undan honum,“ segir greinarhöfundur. En hvað var það sem Céline uppgötvaði?

Eftir Milan Kundera

Á blaðsíðu 129 til 131 í bókinni Frá einum kastala til annars segir frá tík. Hún kemur frá ísköldum héruðum Danmerkur þar sem hún var vön að strjúka út í skóg og haldast þar við langtímum saman. Þegar hún kom með Céline til Frakklands hætti hún að strjúka. Síðan fékk hún krabbamein einn daginn:

„... ég ætlaði að leggja hana útaf í heyið... skömmu fyrir sólarupprás... hún vildi ekki að ég legði hana útaf... hún vildi það ekki... hún vildi vera annars staðar... í kaldasta hluta hússins og á steinunum... hún lagði sig fallega útaf... hún byrjaði að emja... þetta voru endalokin... mér hafði verið sagt það, ég trúði því ekki... en það var satt, hún sneri sér í átt að minningunum, í áttina til uppruna síns, norðursins, Danmerkur, með trýnið í norður, sneri í norður... tíkin var þannig trú upprunanum, trú skógunum sem hún hafði strokið út í, Korsör, þarna uppfrá... líka trú þessu hræðilega erfiða lífi... hún hafði engan áhuga á skógunum í Meudon... hún dó eftir að hafa emjað tvisvar... eða þrisvar sinnum, ósköp lágt og settlega... án þess að kveina... ef svo má segja... og í mjög fallegri stellingu, eins og á fleygiferð, að strjúka... en liggjandi á hliðinni, alveg búin að vera... með trýnið í áttina að skógunum þangað sem hún hafði strokið, þarna uppfrá, þaðan sem hún hafði komið, þar sem hún hafði þjáðst... Guð einn veit það!

Ó, ég hef oft mátt að horfa upp á þjáninguna... hér... þar... alls staðar... en aldrei nærri því eins fallega og þessa, svona látlausa... trygglynda... það sem spillir fyrir dauðastríði mannanna er allt þetta trallala... enda er maðurinn er alltaf á sviði... “

„Það sem spillir fyrir dauðastríði mannanna er allt þetta trallala.“ Þvílík setning! Og „enda er maðurinn er alltaf á sviði“... Hver man ekki eftir alls kyns ömurlegum en frægum leikaraskap með „hinstu orðin“ sem menn eiga að hafa sagt skömmu fyrir andlátið? Þannig er það: jafnvel sárkvalinn er maðurinn stöðugt að sviðsetja sjálfan sig. Jafnvel sá „látlausasti“, sá sem hefur minnsta þörf fyrir að vekja athygli á sér, því það er ekki alltaf þannig að maðurinn setji sjálfan sig alltaf á svið. Hann setur sig ekki þangað sjálfur, hann er settur þangað. Það eru örlög hans sem manns.

Og þetta „trallala“! Dauðinn ævinlega upplifaður sem hetjulegur, eins og lokaatriðið í leikriti, eins og niðurstaða baráttu. Ég les í dagblaði: í einhverri borg er þúsundum rauðra blaðra sleppt upp í loftið til að heiðra fólk sem hefur veikst eða látist úr eyðni! Ég staðnæmist við þetta „til að heiðra“. Í minningu, til að minnast, sem merki um sorg og samúð, já það skil ég vel. En til að heiðra? Er eitthvað við þessa veiki sem vert er að halda upp á eða dást að? Á þessi veiki einhvern heiður skilinn? En þannig er það, og það vissi Céline: „það sem spillir fyrir dauðastríði mannanna er allt þetta trallala“.

Og ég hugsa enn einu sinni með mér: það er þessari dapurlegu vitleysu að þakka að skáldsagnahöfundurinn Céline náði að átta sig á einum þætti í tilveru mannsins sem enginn hafði komið auga á á undan honum. Til dæmis þessu trallala mannsins (allra manna) þegar hann er dauðvona.

Margir miklir höfundar af hans kynslóð horfðu eins og hann upp á dauða, stríðsátök, hrylling, þjáningar og útskúfun. En þeir upplifðu það handan landamæranna: þeir voru í hópi hinna réttlátu, verðandi sigurvegara eða fórnarlamba með geislabaug þess óréttlætis sem þau höfðu orðið fyrir, í stuttu máli, dýrðarinnar megin. „Trallalaið“ (siferðileg sjálfumgleði sem vill láta taka eftir sér) var látlaust, sakleysislega, ósýnilega samofið allri framkomu þeirra, þannig að þau gátu hvorki komið auga á það né nefnt það. En Céline var í tuttugu og fimm ár meðal hinna fordæmdu og fyrirlitnu, sekur meðal sekra. Allir í kringum hann áttu að þegja; hann einn ljáði þessari einstöku tilvistarreynslu röddu: reynslu af kringumstæðum sem gersneyddar voru öllu trallala .

Þessi reynsla gerði honum kleift að sjá hégómann ekki sem löst heldur sem eiginleika sem er samgróinn manninum, sem fer aldrei frá honum, ekki einu sinni meðan hann heyr dauðastríðið. Og á botni þessa rótgróna trallala mannsins gerði hún honum kleift að koma auga á stórkostlega og óvænta fegurð þess þegar tík deyr.

Friðrik Rafnsson þýddi© 2008 MK

Í hnotskurn
» Louis-Ferdinand Céline (1894-1961) var franskur læknir og rithöfundur. Hann starfaði sem læknir í fyrri heimsstyrjöldinni en vann að henni lokinni fyrir Þjóðabandalagið (undanfara Sameinuðu þjóðanna) víða um heim, m.a. í Sviss, Englandi, Kanada, Bandaríkjunum og á Kúbu. Einnig rak hann um skeið læknastofu í Montmartre-hverfinu í París.
» Meðfram læknastörfunum fékkst hann við skriftir og sendi frá sér sína fyrstu bók, Semmelweis, árið 1924, en þekktustu bækur hans eru Voyage au bout de la nuit (Ferð á enda næturinnar, 1932) og Mort à crédit (Dauði upp á krít, 1936). Céline þykir óumdeildur stílsnillingur og skarpskyggn og meinhæðinn mannlífskönnuður í skáldverkum sínum en hann var líka hatrammur gyðingahatari og var á sínum tíma, ranglega að flestra mati nú, sakaður um að vera hallur undir nasista. Vegna þess var hann sendur í útlegð frá Frakklandi til Danmerkur í 18 mánuði á árunum 1945-1947, en hlaut uppreisn æru og sneri aftur til heimalandsins árið 1951.
» Céline er almennt talinn einn merkasti höfundur Frakka á 20. öld og hafði mikil áhrif á franskar bókmenntir og raunar heimsbókmenntirnar á öldinni sem leið. Skáldsögur hans mótuðu höfunda á borð við Samuel Beckett, Sartre, Queneau, Genet, Le Clézio, Robbe-Grillet og Barthes í Frakklandi. Í Bandaríkjunum átti hann sér fjölmarga aðdáendur og sporgöngumenn, höfunda eins og Henry Miller, Jack Kerouac, Joseph Heller, Kurt Vonnegut, William Burroughs og Allen Ginsberg.

Höfundur er skáldsagna- og ritgerðahöfundur, tékkneskur að uppruna, búsettur í Frakklandi. Allar skáldsögur hans hafa komið út á íslensku, nú síðast hans fyrsta bók, Brandarinn (JPV 2007)