Veiðar Netabátarnir hafa mokfiskað að undanförnu. Netin koma bunkuð upp og fiskurinn er feitur og fallegur.
Veiðar Netabátarnir hafa mokfiskað að undanförnu. Netin koma bunkuð upp og fiskurinn er feitur og fallegur. — Ljósmynd/Hafþór Örn Þórðarson
Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is „ÞAÐ er búið búið að vera alveg svakalega gott fiskirí. Maður hefur bara ekki kynnzt öðru eins. Vegna kvótaniðurskurðarins má maður ekkert beita sér.

Eftir Hjört Gíslason

hjgi@mbl.is

„ÞAÐ er búið búið að vera alveg svakalega gott fiskirí. Maður hefur bara ekki kynnzt öðru eins. Vegna kvótaniðurskurðarins má maður ekkert beita sér. Það er bara verið að veiða upp í heimildir, sem eru af skornum skammti. Við erum því ekki einu sinni á helmingsafköstum,“ segir Hafþór Örn Þórðarson, skipstjóri á Erling KE. Hann er aflahæstur netabáta frá áramótum með 884 tonn og 1.400 til 1.500 tonn frá upphafi fiskveiðiársins í haust. Bezti einstaki róðurinn gaf um 56 tonn. Erling er 366 brúttótonn að stærð og gerður út af Saltveri í Reykjanesbæ.

Auðvelt að ná í fiskinn

„Við höfum ekki verið með nema 30 til 75 net í sjó að undanförnu og það er ekki neitt. Þá höfum við ekki endurnýjað net í um þrjár vikur. Þrátt fyrir þetta er mokfiskirí. Við vorum á sjó á miðvikudag með um 60 net og fengum 35 tonn í þau. Menn hafa bara ekki kynnzt annarri eins veiði. Það hefur verið mjög auðvelt að ná í mikið af fiski, bæði á vertíðinni núna og í fyrra. Hvort það er vegna aukningar á fiski eða aukins veiðanleika veit ég ekki. Þetta er ekkert rannsakað. Það vantar alveg að þetta sé skoðað betur,“ segir Hafþór.

Hann segir að fiskurinn sé vænn, að meðaltali um sex kíló, lifrarmikill og góður. Hann sé svipaður og í fyrra.

„Vertíðin var góð í fyrra en nú erum við að upplifa ennþá betri vertíð. Við tókum netin upp á miðvikudag. Við vorum í helgarfríi um síðustu helgi og svo er núna framundan langt helgarfrí. Það eru ekki nema 100 tonn eftir af þorskkvótanum. Við þurfum að treina okkur það út apríl,“ segir Hafþór.

Það mokfiska allir

Þeir hafa verið með netin utan við fjögurra mílna mörkin, sem hrygningarstoppið nær til. „Við höfum verið með þau svona sex til sjö mílur norðvestur úr Garðskaga, svo það hefur ekki verið langt að fara. Það mokfiska hreinlega allir sem fara út á sjó og leggja net, þessir fáu sem eru á sjó mokfiska, en í raun og veru má enginn fá neitt vegna kvótastöðunnar. Það er enginn að beita sér. Menn eru bara á hálfum snúningi,“ segir Hafþór.

Í hnotskurn
» Erling KE er aflahæstur netabáta frá áramótum með 884 tonn og 1.400 til 1.500 tonn frá upphafi fiskveiðiársins í haust. Bezti róðurinn gaf 56 tonn.
» Fiskurinn er vænn, að meðaltali um sex kíló, lifrarmikill og góður. Hann er svipaður og í fyrra.
» Í raun og veru má enginn fá neitt vegna kvótastöðunnar. Það er enginn að beita sér. Menn eru bara á hálfum snúningi.