Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is „Mér þykir vænt um heimilið og vinn við það af hlýju,“ segir Gísli Páll Pálsson, starfandi forstjóri sjálfseignarstofnunarinnar Grundar, elsta elliheimilis landsins.

Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

„Mér þykir vænt um heimilið og vinn við það af hlýju,“ segir Gísli Páll Pálsson, starfandi forstjóri sjálfseignarstofnunarinnar Grundar, elsta elliheimilis landsins.

Saga Grundar er samofin fjölskyldu Gísla því langafi hans, Sigurbjörn Á. Gíslason, var einn stofnenda heimilisins 1922 og rak Gísli Sigurbjörnsson, afi Gísla Páls, heimilið í 50 ár. Seinast tók Guðrún Birna, móðir Gísla Páls við forstjórastólnum en hún er í sumarfríi og er Gísli Páll í hennar stað. Hjúkrunarforstjóri er Sigrún Faulk en þau Gísli eru systrabörn.

Gísli Páll er framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Áss, í eigu Grundar, ásamt því að sitja í ýmsum ráðum og nefndum fyrir hönd Grundar. Áætlað er að hann taki við forstöðu heimilisins af móður sinni þegar hún lætur af störfum.

Taka við deild af Landakoti

Grund hefur tekið að sér að reka hjúkrunardeildina L-1 á Landakoti, skv. samningi sem undirritaður var í vikunni. Það er 18 hjúkrunarrýma deild fyrir aldraða sjúklinga sem bíða varanlegrar búsetu, einkum sjúklinga með heilabilun. Hún hefur verið lokuð að undanförnu vegna manneklu.

„Við treystum okkur til að manna þetta og munum ráða á bilinu 16-18 manns vegna verkefnisins,“ segir Gísli Páll.

Sama þjónusta fyrir minna

Í fréttatilkynningu frá Landspítalanum kemur fram að raunkostnaður við hjúkrunardeild sem spítalinn rak í fyrra var 22.000 krónur legudagurinn en skv. samningi verða Grund greiddar 19.800 krónur á legudaginn, eða 2.200 krónum minna. Deildin verður áfram á Landakoti þó að Grund sjái um rekstur hennar.

„Það stendur ekki til að veita lakari eða minni þjónustu en veitt hefur verið. Stutt er á milli Landakots og Grundar og munum við samnýta ýmsa stoðþjónustu á Grund, s.s. þvotta, mat, lækna, iðjuþjálfun og fleira,“ segir Gísli.

Aðspurður hvers vegna Grund treysti sér til þess að skila sama starfi fyrir minna fjármagn en spítalinn hefur gert, segir hann: „Við höfum 86 ára reynslu af að reka hjúkrunarheimili á hagkvæman hátt. Svo rek ég heimilið eins og ég ætti það sjálfur, þó að ég eigi ekki krónu í því. Ég held að það skipti máli.“

Í hnotskurn
Aðalhvatamenn að stofnun Grundar voru stjórnarmenn líknarfélagsins Samverjans. Safnaði félagið fé með skemmtanahaldi fyrir gamalt fólk. Safnaðist 541 kr. og í kjölfarið var heimilið stofnað, árið 1922. Keypt var hús við Kaplaskjólsveg og fimm árum síðar fékk heimilið lóðina við Hringbraut, þar sem það er nú.