[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér þykir mjög leitt hvernig til tókst. Ég hafði sem fyrirmynd Halldór Laxness sjálfan því ég hafði séð í rannsóknum ágætra bókmenntafræðinga hvernig hann nýtti sér texta annarra, tók út það sem hentaði verki hans og endurskoðaði og breytti.

Mér þykir mjög leitt hvernig til tókst. Ég hafði sem fyrirmynd Halldór Laxness sjálfan því ég hafði séð í rannsóknum ágætra bókmenntafræðinga hvernig hann nýtti sér texta annarra, tók út það sem hentaði verki hans og endurskoðaði og breytti. Þegar ég les dóminn yfir og íhuga hvernig þróunin hefur verið í höfundarréttarmálum er mér ljóst að ég gerði mistök. Þetta var alls ekki ásetningur minn enda hefði verið furðulegt ef ég hefði viljað brjóta lög vísvitandi því mér var alveg ljóst að bók mín yrði lesin mjög vandlega,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson en Hæstiréttur dæmdi hann í síðasta mánuði til að greiða Auði Laxness, ekkju Halldórs Laxness, 1,5 milljónir króna í fébætur fyrir brot á höfundarrétti í fyrsta bindi ævisögu Halldórs, auk 1,6 milljóna í málskostnað. Rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, sendi svo nýlega Hannesi bréf þar sem hún átaldi vinnubrögð hans og sagði þau hafa rýrt traust skólans.

Þú segist hafa unnið eins og Laxness en á ekki nokkuð annað við þegar menn vinna skáldverk heldur en við vinnslu fræðirits?

„Það má alveg leiða rök að því. Ég held að nýir tímar í akademískum rannsóknum krefjist miklu nákvæmari tilvísana og meiri virðingar fyrir textum annarra en var á þessu fyrsta bindi míns verks. Ég lærði af þeim mistökum og breytti vinnubrögðum mínum í öðru og þriðja bindi. Ég vona að menn hafi í heiðri nýja málsháttinn: Batnandi höfundi er best að lifa. Ég ætla líka að endurútgefa verkið við fyrsta tækifæri og taka þá tillit til dóms Hæstaréttar og gagnrýni samstarfsfólks míns í Háskólanum og annarra.“

Óþægilegt fyrir Háskólann

Hvernig bregstu við umvöndunum rektors?

„Ég tek þeim vel. Enginn er óskeikull, hvorki ég né nokkur annar. Mér finnst að Háskólinn eigi að setja markið hátt og það er auðvitað óþægilegt fyrir hann ef starfsmaður hans fær dóm fyrir höfundarréttarbrot. En ég minni á að refsikröfunni yfir mér var vísað frá og ég var sýknaður af miskabótakröfunni. Dómurinn gekk út á það að ég yrði að bæta frú Auði Laxness það tjón sem ég hefði valdið henni með því að nota í leyfisleysi efni frá Laxness í bók minni. Þar setti Hæstiréttur alveg nýja reglu, en ég verð að taka því. Ef til vill er þetta þáttur í réttarþróuninni.“

Er það venja í Háskólanum að fylgjast með dómsmálum starfsmanna?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég veit til dæmis að einn ágætur sagnfræðiprófessor var dæmdur í Hæstarétti 2004 fyrir meiðyrði í dómnefndaráliti, sem honum var sérstaklega falið ásamt öðrum að semja fyrir Háskólann, og til greiðslu miskabóta. Háskólinn hefur líka nokkrum sinnum verið dæmdur til skaðabóta í Hæstarétti, af því að yfirmenn stjórnsýslunnar, rektor og forsetar deilda, hafa brotið stjórnsýslulög á starfsmönnum. En ég veit ekki og hef ekki kynnt mér hvað gert var í þeim málum, enda afsakar það ekki mitt brot. Ég einbeiti mér að því að bæta fyrir það en ekki benda á einhverja aðra.“

Hver er staða þín innan Háskólans gagnvart samstarfsmönnum, nýturðu trausts þeirra eða ekki?

„Það gleður mig hversu marga góða vini ég á í minni deild, félagsvísindadeild. Ég held að nánast allir samstarfsmenn mínir þar vilji vinna með mér áfram. Ég hef ekki heyrt eitt einasta styggðaryrði frá neinum þeirra. En þeim þykir þetta auðvitað miður, eins og mér sjálfum.“

Hef ekki misst svefn

Vinir þínir hafa hafið fjársöfnun fyrir kostnaði þínum vegna þessa máls. Hvernig hefur sú söfnun gengið?

„Hún hefur gengið vonum framar. Ég hafði engin afskipti af henni og vissi ekki af henni því ég var erlendis þegar henni var hrint af stað. Ég gerði engar athugasemdir við hana þegar mér var sagt frá henni. Mér þykir vænt um þann vináttuvott sem í henni felst. Mér er nokkur vandi á höndum vegna þess að hart hefur verið sótt að mér úr mörgum áttum og ég hef þegar greitt 23 milljónir í lögfræðikostnað og skulda 7 milljónir. Þetta eru svimandi upphæðir.“

Í auglýsingu um fjárstuðning þér til handa er sagt að þú sért venjulegur launamaður. Hvernig getur venjulegur launamaður greitt 30 milljónir?

„Hann getur það ekki enda varð ég að selja hús mitt. Kjartan Gunnarsson, vinur minn, keypti það og ég leigi af honum í þeirri von að ég muni í framtíðinni eignast nægt fé til að kaupa það aftur. Ég veit ekki hvort ég mun ráða við það, en er samt hóflega bjartsýnn. Ég hef tekið lán og góðir menn hafa aðstoðað mig eftir föngum.“

Jón Ólafsson sækir meiðyrðamál á hendur þér í Bretlandi og það mál hefur þegar kostað þig stórfé. Hver er staða þess máls?

„Ég er að leita eftir því við bresku lávarðadeildina að hún leyfi mér að flytja málið þar. Það er ekki sjálfgefið því áfrýjunardómstóll hefur þegar dæmt Jóni í vil. Samkvæmt breskum lögum á að stefna mönnum á Íslandi eftir íslenskum reglum. Mér var ekki stefnt rétt. Dómarinn sem viðurkenndi þetta og ógilti gamlan dóm yfir mér veitti Jóni Ólafssyni sérstaka undanþágu frá því að stefnt væri eftir íslenskum reglum. Lögfræðingar mínir telja að það sé óeðlilegt að breskur dómari geti veitt slíka undanþágu. Sjálfum finnst mér freklega gengið á fullveldi Íslands ef breskur dómari veitir undanþágur frá íslenskum lögum. En við verðum að bíða og sjá hvernig þetta mál fer.“

Á þeim tíma sem þessi dómsmál hafa staðið yfir, hefurðu aldrei orðið þunglyndur eða niðurdreginn?

„Nei, ég get ekki sagt það. Mér þykir þetta auðvitað leitt, en þetta hefur ekki rænt mig svefni. Ég er hins vegar alveg undrandi á öllu því fólki sem er að eyða mestallri starfsorku sinni í mig.“

Gef sjaldan eftir

Það er ekkert leyndarmál að þú ferð innilega í taugarnar á mörgum og einstaka maður virðist nánast leggja hatur á þig. Hvernig tekurðu því?

„Barátta mín hefur ekki verið barátta gegn einstaklingum heldur stjórnmálabarátta fyrir því frelsi sem hefur fært þjóðinni mikla velmegun og opnaði þjóðfélagið og gerði það rúmbetra og bjartara. Hér eru einhver bestu lífskjör í heimi eins og frægt er orðið. Ég á erfitt með að skilja þetta hatur. Ég get verið stóryrtur og gef sjaldan eftir og kannski fer það í taugarnar á einhverjum.“

Hefurðu mildast með árunum?

„Ég hef vonandi eitthvað vaxið að þroska. Stjórnmálaskoðanir mínar hafa hins vegar ekki breyst í meginatriðum. Ég er þeirrar skoðunar að menn verði að læra af mistökum sínum í stað þess að endurtaka þau. Ég er líka þeirrar skoðunar að peningar skipti ekki öllu í lífinu þannig að ég sé ekki mjög mikið eftir þeim peningum sem ýmsir hafa verið að reyta af mér. Það er tvennt sem skiptir meira máli en peningar og það er góð heilsa og góðir fjölskylduhagir. Ég held að það sé það sem færi mönnum hamingjuna. Ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr hlutverki peninga því þeir geta verið afskaplega gagnlegir til að gera lífið þægilegra og skemmtilegra.“

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með nýjan formann og nýir menn eru í forystuliði Sjálfstæðisflokksins. Finnst þér þú stundum vera utanveltu þar?

„Nei, ég er mjög sáttur við forystuskiptin í Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddsson og Geir Haarde eru báðir góðir vinir mínir. Við erum í sama vinahópnum eða sömu klíkunni eins og sumir myndu segja. Allt frá því snemma á áttunda áratugnum höfum við hist nokkrir saman hálfsmánaðarlega í hádeginu og Davíð og Geir eru þar á meðal. Sá hópur sem ég tilheyri hefur ekki misst völdin því Geir Haarde var hinn eðlilegi eftirmaður Davíðs sem studdi hann mjög eindregið. Það er því ekki hægt að tala um þennan hóp í þátíð.“

En vingastu nokkuð við fólk sem hefur ekki sömu pólitísku skoðanir og þú?

„Þetta er misskilningur. Í félagsvísindadeild, þar sem ég kenni, eru fáir með sömu stjórnmálaskoðanir og ég en eru samt góðir vinir mínir. Ég á ekkert erfitt með að umgangast fólk af öðru pólitísku sauðahúsi. En lengsta og óslitnasta vináttan er við pólitíska baráttufélaga mína. Ég á marga góða vini og í mínum vinahópi er mikið mannval.“

Hef séð drauma mína rætast

Hvað veitir þér ánægju í lífinu?

„Ég varð mjög snemma bókaormur, hvarf inn í heim bókanna. Ég hef enn mjög gaman af að lesa og hlakka til að fara í langar flugferðir vegna þess að þá get ég lesið hnausþykkar bækur. Eftirlætisbækur mínar eru vel skrifaðar ævisögur og sagnfræðilegt efni, þótt ég hafi líka gaman af skáldsögum. Í gamla daga hafði ég mjög gaman af Tolstoy og Dostojevskí en nú finnst mér bækur þeirra vera allt of dramatískar, sérstaklega Dostojevskís; nánast fyrir hrifnæma unglinga. Ég les frekar gömlu bresku höfundana, Hume, Macaulay lávarð og Dickens, en ég er líka núna að lesa Hippolyte Taine sem skrifaði margar bækur um frönsku byltinguna.

Ertu lífsnautnamaður?

„Já, ég held að það sé óhætt að segja það. Ég hef gaman af góðum mat og góðum vínum. Ég hef verið mikill gæfumaður því mér hefur tekist að sjá flesta drauma mína rætast. Ég er í starfi sem mér finnst skemmtilegt og get varla hugsað mér betra starf eða ánægjulegra. Ég hef nóg fyrir mig þótt ég eigi litlar eignir eftir þessi ósköp. Ég þarf ekkert að kvarta.“

Hvaða manneskja hefur skipt þig mestu máli í lífinu?

„Ég myndi fyrst nefna móður mína. Hún var einstaklega góð móðir og hafði mikil áhrif á mig. Síðan nefni ég minn elskulega vin, Davíð Oddsson, sem er frábær maður, sterkur og hlýr og afar framsýnn. Ef einhver maður hefur sjöunda skilningarvitið fræga þá er það Davíð. Svo verð ég að nefna Friedrich von Hayek sem var minn lærimeistari, djúpvitur maður, og sömuleiðis Milton Friedman.“

Geturðu sagt mér eitthvað af þessu góða fólki?

„Ja, menn kunna nú líklega ekki að meta foreldra sína að fullu fyrr en þeir eru allir. Til dæmis kunni ég ekki alltaf að meta matinn hjá móður minni, mér fannst maturinn oft betri hjá vinkonu hennar hinum megin gangsins, sem líka var hálfgerð fósturmóðir mín. Þegar mér fannst maturinn vondur hjá mömmu, fór ég yfir. Þá laumaðist móðir mín með matinn þangað, húsfreyjan þar setti hann á disk og ég borðaði með bestu lyst. Þær sögðu mér frá þessu hlæjandi mörgum árum seinna.

Það vita auðvitað allir hversu snjall og orðheppinn Davíð er, svo að þar er engu við að bæta. En varðandi Hayek og Friedman þá er mér enn minnisstætt þegar ég sat kvöldverð með Hayek í London vorið 1985. Það var svo margt sem hann sagði mér og vinum mínum frá Oxford sem vorum komnir þangað til að finna hann. Til dæmis sagði hann okkur hvernig hann hefði afvopnað frú Thatcher. Hún var lærimær hans, ef svo má segja, og þegar hún var nýtekin við völdum frétti hún að hann væri staddur í London svo að hún bauð honum í Downingstræti 10. Hún tók á móti honum í anddyrinu og sagði með sinni sérstöku rödd: „Prófessor Hayek, ég veit alveg hvað þér ætlið að segja við mig. Þér ætlið að segja að ég hafi ekki gert nóg. Og auðvitað hafið þér alveg rétt fyrir yður um þetta.“

Í þessum kvöldverði sagði Hayek okkur í smáskálaræðu: „Ungu menn! Mér finnst vænt um að þið skuluð vilja hitta mig og að þið skuluð lesa bækurnar mínar. En ég hef aðeins eina ósk. Ekki verða hayekistar. Ég hef tekið eftir því að marxistarnir voru miklu verri en Marx og keynesistarnir miklu verri en Keynes. Haldið þið áfram að vera gagnrýnir í hugsun og gangist ekki á hönd neinum rétttrúnaði.“ Ég veit nú ekki hvort mér hefur alltaf tekist að fara eftir þessu boðorði Hayeks.“

Tala ekki um einkalífið

Þú sagðir fyrr í viðtalinu að fjölskyldan skipti gríðarlegu máli í lífi hvers einstaklings, en nú ert þú einhleypur.

„Hvað veist þú um það?“

Af hverju talarðu aldrei um einkalíf þitt?

„Það er ekki vegna þess að ég hafi eitthvað til að skammast mín fyrir. Ég veit að mér hættir til að vera sjálfhverfur en ég er að reyna að vinna bug á því. Eitt af því sem ég geri til þess er að tala ekki um einkalíf mitt.“

Þú hefur dvalið þó nokkurn tíma í Brasilíu. Hvað er svona heillandi við Brasilíu?

„Starf háskólaprófessors sem er virkur í rannsóknum er mjög oft alþjóðlegt. Ég hef ferðast mikið, þar á meðal verið mikið í Brasilíu. Ég gerði það líka að gamni mínu fyrir nokkrum árum að læra portúgölsku og það hefur reynst mér vel. Ég á þar fjölmennan vinahóp og mál hafa þróast þannig að Brasilía er nánast eins og mitt annað heimili. Mér líður afskaplega vel þar.“

Þú ert sívinnandi. Að hverju ertu að vinna núna?

„Ég er að þýða Svartbók kommúnismans sem er yfirlitsrit sem nokkrir franskir fræðimenn tóku saman um sögu kommúnismans. Ég skrifa íslenskan viðauka við bókina. Ég er líka að skrifa bók um hina miklu breytingu á Íslandi sem varð frá 1991 til 2007 og áhrifin á kjör almennings. Svo geri ég ráð fyrir því þegar dómsmálum lýkur að skrifa um þau, og þar mun sjálfsagt ýmislegt koma á óvart.“

Áttu þér lífsmottó?

„Ætli ég verði ekki að hafa sama mottó og er í lok myndinnar Life of Brian: Always look on the bright side of life.