Eftir Gunnar Hersvein gunnars@hi.is ! Spekin er hulin ráðgáta sem ósegjanlega margir hafa gert tilraun til að leysa. Flestir hefja leitina með ranga spurningu í huga og skima eftir gulli sem glóir – en spekin er fremur lík jaspis.

Eftir Gunnar Hersvein

gunnars@hi.is

! Spekin er hulin ráðgáta sem ósegjanlega margir hafa gert tilraun til að leysa. Flestir hefja leitina með ranga spurningu í huga og skima eftir gulli sem glóir – en spekin er fremur lík jaspis.

Kvars er algeng steind og kemur fyrir í fleiri litbrigðum en nokkur önnur steind. Kvars getur verið kristallað, myndlaust eða dulkristallað eins og jaspis. Undravert er að litbrigði jaspis eru nær óendanlega mörg: stundum í einum og sama steininum. Jaspis er oft grænn með rauðum doppum, gulur, rauður, móleitur eða marglitaður.

Eins er með spekina!

Kvars er hrein kísilsýra og það eru aðkomuefnin sem gefa litinn. Jaspis er ekki hreinn kísill heldur mengaður ýmsum efnum og með innlyksum annarra steinda.

Eins er með spekina!

Spekin er ævinlega falin og það er iðulega eitthvað annað sem grípur augu manna og athygli. Kristalgerð hennar er eins og jaspis: á mörkum þess að vera greinanleg í smásjá. Spekin felur sig ekki í demöntum eða kórúnd. Hún er ekki heldur í gifsi eða kalki. Hún er í kvarsi því harka hennar er talan sjö og hún er rúnum rist. Kvars leysist ekki upp í sýrum en þó getur það ekki fremur en spekin varist öllu.

Eins og jaspis er spekin ógagnsæ: jafnvel á skelþunnum brúnum sínum. Spekin er ekki gimsteinn eða dýr málmur. Ef það spyrst til hennar hefst ekki gullgrafaræði heldur lætur fólk sér oft fátt um finnast. Jaspis er ekki sjaldgæft efni – og hver vill hampa því sem enginn kemur auga á nema ef til vill í smásjá? Spekin líður því óséð hjá.

Spekin er ekki falin í innstu og dýpstu hirslum heldur er hún það fyrsta sem aðkomumenn sjá en taka ekki eftir. Hún er holufylling í fyrsta steininum og getur verið ef því er að skipta: hundrað kílógrömm að þyngd. Hún hefur enga kleyfni fremur en jaspis og býr ekki yfir neinum gljáa. Enginn getur séð spekina þótt hann leiti daga og nætur að formi hennar. Aðeins má taka eftir ljóma hennar sem berst frá því sem mannleg augu sjá ekki. Og ljómi hennar er kristals-kær! Eins er með jaspis!

Spekin er hulin augum allra sem lifa og þótt göng verði grafin fjarri mannabyggðum og í grjóti finnist safír og gullkorn er hana þar ekki að finna. Því ekki einu sinni ránfuglsaugað hefur litið veginn til hennar. Og það undarlega er að hvorki tópassteinn né skírasta gull nægir sem borgun fyrir hana. Enginn sönnun fæst um hana úr undirheimum og sjálfur dauðinn getur ekki sagt nema fátt eitt um hana: „Aðeins orðspor hennar hefur borist oss til eyrna.“

Jafnvel þótt enginn geti höndlað spekina og hún þegi ávallt um hvað beri að gera þá þreytist hún aldrei á því að kenna hvað ekki eigi að gera og hvað beri að forðast. Í bliki hennar endurvarpast orð sagnarandans á þessa leið: „Það er speki að forðast illt: ekki traðka á öðrum, ekki skerða frelsi, ekki nema burt ábyrgð eða virðingu, ekki næra hatur, ekki beita ofbeldi, ekki skara eld að eigin köku, ekki ofmetnast, ekki elska aðeins þína eigin.“

Þannig er spekin lík jaspis sem sýnir ekki sjálfan sig heldur aðeins litina sem hann hefur tekið í sig. Spekin og jaspis eru ógegnsæ, án gljáa og augu okkar sjá aðeins: sterklituð aðkomuefni en alls ekki kristalgerðina.

Við leitum spekinnar og spyrjum: „Hvað eigum við að gera?“ Svarið berst ekki því hún segir engum hvað hann eigi að gera. Einn segir: „Hér er spekin!“ Og annar segir: „Hér er spekin!“ En aðeins sá sem rekur sig á hlustar á varúðarorð spekinnar og segir: „Hér er spekin ekki!“ Hann segir satt því hún er hulin ráðgáta.