Margrét „Ég man vel hvað mér fannst erfitt að lesa þessar bækur, Kofi Tómasar frænda og Sagan hans Hjalta litla, ég bókstaflega píndi mig áfram,“ segir Margrét.
Margrét „Ég man vel hvað mér fannst erfitt að lesa þessar bækur, Kofi Tómasar frænda og Sagan hans Hjalta litla, ég bókstaflega píndi mig áfram,“ segir Margrét. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Lesarinn Ég er með nýjan doðrant um málbreytingar, sem Þórhallur Eyþórsson málfræðingur ritstýrir, á skrifborðinu mínu. Ég er rétt að byrja en bókin lofar góðu, enda um uppáhaldsviðfangsefni mitt í málfræði.

Lesarinn

Ég er með nýjan doðrant um málbreytingar, sem Þórhallur Eyþórsson málfræðingur ritstýrir, á skrifborðinu mínu. Ég er rétt að byrja en bókin lofar góðu, enda um uppáhaldsviðfangsefni mitt í málfræði. Undanfarið hef ég hins vegar aðallega lesið bækur sem ég hef lesið áður, sumar til þess að geta verið með á nótunum í umræðum um bókmenntir á Hugvísindaþingi nú um helgina en svo ákvað ég nýlega að rifja upp tvær bækur sem ég las sem krakki. Þetta eru Kofi Tómasar frænda og Sagan hans Hjalta litla . Ég man vel hvað mér fannst erfitt að lesa þessar bækur, ég bókstaflega píndi mig áfram og nú langaði mig til að endurmeta upplifunina. Það hræðilega og sorglega í þessum bókum var sannleikurinn í þeim, ég gerði mér einhverja grein fyrir honum og það hafði áhrif þegar ég lærði seinna um hann hjá sögukennurum, dýpkaði held ég skilninginn. Reyndar rifjaðist upp fyrir mér að það sem mér fannst á sínum tíma sorglegast af öllu sorglegu í sögunni um Hjalta voru örlög ærinnar Hosu!

Nú reyni ég að gera upp við mig hvort ég á að kynna þessar bækur fyrir krökkunum mínum. Myndu þau engjast eins og ég gerði?

Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri

Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands.