Harmleikur Líf Önnu Nicole Smith reyndist að lokum mikill harmleikur.
Harmleikur Líf Önnu Nicole Smith reyndist að lokum mikill harmleikur. — Reuters
ÞEIR hinir sömu og settu á svið óperuna Jerry Springer: The Opera undirbúa nú óperu byggða á lífi Önnu Nicole Smith.
ÞEIR hinir sömu og settu á svið óperuna Jerry Springer: The Opera undirbúa nú óperu byggða á lífi Önnu Nicole Smith. Óperan verður að öllum líkindum sett upp í Konunglega óperuhúsinu í London og að sögn Richards Thomas, sem semur söngtextann, er sagan hreint ótrúleg. Hún henti óperuforminu vel en sé að sama skapi mjög sorgleg. „Anna var í raun mjög klár kona sem hafði þó þann galla að hún sá ekki fram á að komast í gegnum daginn án verkjalyfja.“ Smith var árið 1993 valin Leikfélagi ársins hjá tímaritinu Playboy en hún hlaut heimsfrægð þegar hún giftist hinum aldraða milljarðamæringi J. Howard Marshall árið 1994. Hann var 63 árum eldri en Smith og lést ári síðar. Í kjölfar dauða hans hófst mikið stríð milli Smith og ættingja Marshalls sem sökuðu hana um að hafa gifst ættföðurnum í þeim tilgangi að komast yfir auð hans. Það mál er enn rekið fyrir dómstólum. Í september árið 2006 eignaðist Smith dótturina Dannielynn en þremur dögum síðar lést tvítugur sonur hennar, Daniel, eftir að hafa innbyrt lyfjakokteil sem innihélt m.a. zoloft og meþadón. Aðeins tveimur vikum eftir lát hans gekk Smith svo í það heilaga með lögfræðingi sínum Howard K. Stern sem hélt því fram að hann væri faðir Dannielynn. Síðar kom í ljós að fyrrverandi kærasti Önnu, Larry Birkhead, væri líffræðilegur faðir stúlkubarnsins. Fimm mánuðum síðar fannst Anna Nicole Smith látin á hótelherbergi sínu í Flórída.