Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Einu undarlegasta máli í sögu íslenskra bókmennta er svo gott sem lokið.

Eftir Þröst Helgason

throstur@mbl.is

Einu undarlegasta máli í sögu íslenskra bókmennta er svo gott sem lokið. Rektor Háskóla Íslands hefur sent Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor bréf þess efnis að hún telji staðfestingu Hæstaréttar á því að Hannes hafi brotið gegn höfundarrétti Halldórs Laxness áfall fyrir Háskóla Íslands. Rektor telur hins vegar ekki lagalegar heimildir til þess að veita Hannesi áminningu. Málinu er því formlega lokið, nema hvað Hannes hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að hann ætli að gefa bókina út aftur endurskoðaða og fara eftir þeim ábendingum og gagnrýni sem komið hafa fram. „Ef ég hef á einhvern hátt rýrt orðstír Háskóla Íslands, þá þykir mér það mjög leitt og ætla að gera mitt besta til að bæta úr því,“ sagði Hannes á mbl.is á fimmtudaginn.

En þótt málinu sé formlega lokið virðist enn einhver þræsingur í loftinu. Vefritið Kistan leitaði álits rúmlega tuttugu háskólamanna um málið í vikunni. Viðbrögð háskólamannanna eru nánast öll á einn veg, þeim þykir dómurinn eðlilegur og að rektor eigi að bregðast við með einhverjum hætti, til dæmis með áminningu eða jafnvel brottrekstri prófessorsins úr stöðu sinni. Gauti Kristmannsson, lektor í þýðingafræði við Háskólann, tekur einna sterkast til orða um viðbrögð rektors: „[Hann á að] segja prófessornum upp starfi, hann hefur þverbrotið grundvallarreglur þær sem háskólamönnum ber að starfa eftir. Á þetta hefur HHG sjálfur bent í grein á vefsíðu sinni að sé venjan að gera við háskóla erlendis.“

En það eru kannski ekki hin þungu orð sem vekja mesta athygli í þessari óformlegu viðhorfskönnun Kistunnar heldur hálfkæringur og aulafyndni í garð hins dæmda manns eins og þessi um viðbrögð rektors: „[Hann ætti að] kalla Hannes til sín, veifa framan í hann vísifingri og segja að svona nokkuð geri maður hvorki í HÍ né hinum 99 skólunum. Fá honum síðan það verkefni að gefa út óbreyttar allar ræður forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, frá upphafi.“

Það er hálfóhuggulegt að sjá fólk innan þessarar virðulegu stofnunar hlakka yfir óförum starfsbróður síns með þessum hætti. En ef könnunin endurspeglar viðhorf akademíunnar til málsins almennt þá er erfitt að sjá annað en að rektor fái gusurnar yfir sig næstu daga.

Í Mannamáli á Stöð tvö sl. sunnudag kallaði Einar Már Guðmundsson rithöfundur svo eftir svörum Hannesar, Háskólans og Sjálfstæðisflokksins um það hver væri afstaða þeirra til eignarréttarins. „Þetta vil ég sem borgari þessa lands og höfundur minna bóka fá að vita eða get ég búist við að hitta eigin verk undir nafni annars höfundar?“ Óformlega er málinu sennilega ekki lokið.