Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson vill að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni: "Ekki má dragast að taka ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Flest rök hníga að því að hann eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni."

SEGJA má að það sé að bera í bakkafullan lækinn að taka til máls um Vatnsmýrina og Reykjavíkurflugvöll. Svo mikið hefur verið rætt og ritað um þetta efni að flest sjónarmið hafa fengið að njóta sín. Þrátt fyrir það langar mig til að leggja fáein orð í belg.

Það er ekki ofmælt að flugvöllurinn sé eitt af því sem gerir Reykjavík að höfuðborg. Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur sýnist vera óráð og hugmyndir um lagningu járnbrautar til Keflavíkur illa grundaðar. Að mörgu yrði að hyggja áður en ráðist yrði í þá framkvæmd. Til dæmis þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir vegna snjókomu að vetrarlagi. Á síðasta ári olli lítils háttar snjókoma stórfelldum vandræðum í járnbrautarkerfinu í Englandi, og svipuð vandamál hafa komið upp annars staðar, t.d. í Danmörku.

Nær allir sem eitthvað hafa komið nálægt flugmálum eru sammála um að ekki finnist betri staður fyrir Reykjavíkurflugvöll en Vatnsmýrin. Vangaveltur um hugsanlegan flutning flugvallarins hafa leitt til þess að endurbætur á aðstöðu fyrir innanlandsflug hafa tafist. Þá hefur fyrirhugaðri byggingu fangelsis á Hólmsheiði verið frestað af sömu ástæðu. Fyrir skömmu var sagt frá því í fréttum að 140 afbrotamenn, sem búið væri að dæma til fangavistar hérlendis, gengju lausir þar sem ekki væri rúm fyrir þá í fangelsum landsins. Þetta ástand er óviðunandi og sýnir að ekki má dragast lengur að taka endanlega ákvörðun í flugvallarmálinu.

Þeir sem vilja flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni hafa stundum látið í veðri vaka að flutningurinn muni ekki kosta neitt; byggingarlóðirnar séu svo verðmætar að það vegi upp á móti kostnaðinum við að gera nýjan völl. Þessi röksemd er illskiljanleg. Það kostar gríðarlegt fé að gera flugvöll. Einhver verður að greiða þann kostnað, undan því verður ekki vikist. Vafalaust sjá menn fyrir sér einhvern sparnað við að byggðin þéttist. En þéttari byggð er ekki endilega betri byggð þótt ýmsir virðist standa í þeirri trú. Í flestum borgum hafa menn séð nauðsyn þess að hafa óbyggð svæði, jafnvel marga stóra garða. Lóðirnar sem fengjust í Central Park í New York eða Hyde Park í London yrðu sennilega öllu verðmætari en lóðirnar í Vatnsmýrinni. Samt hafa menn ekki freistast til að þétta byggðina á þessum stöðum. Því miður hefur þegar verið tekin stór sneið af Vatnsmýrinni, nú síðast undir umferðaræð sem var að ýmsu leyti vanhugsuð. Nýr umferðarvandi er svo fyrirsjáanlegur á næstunni vegna Háskólans í Reykjavík. Staðarval þess skóla var einstaklega óheppilegt þótt fáir hafi hreyft mótmælum þegar ákvörðunin var tekin.

Vatnsmýrin er ekki sérlega heppilegt byggingarland, líklega með því erfiðasta á Reykjavíkursvæðinu. Ég mæli þar af nokkurri reynslu því að fyrir þremur áratugum vann ég að því ásamt nokkrum félögum mínum að reisa flugskýli í svonefndum Fluggörðum við Reykjavíkurflugvöll. Okkur var sagt að staðurinn væri með þeim skástu á svæðinu, en samt reyndist býsna langt niður á fasta undirstöðu, og vatnselgur var með ólíkindum mikill. Mýrin ber nafn með rentu, og það verður ekki auðvelt að veita vatninu frá án þess að skerða nauðsynlegt streymi til Tjarnarinnar. Framkvæmdakostnaður yrði því mikill, til viðbótar við hátt lóðaverð.

Þess er engin von að menn verði nokkurn tíma sammála um það hver sé besta lausnin á flugvallarmálinu. Hins vegar ættu allir að sjá að ákvörðun verður að taka án tafar. Vonandi verður það gert, og vonandi verður niðurstaðan sú að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni um ókomna framtíð. Ég geri mér engar vonir um að skrif eins og þessi hafi nokkur áhrif á ráðamenn. En hitt er víst að ég mun forðast að styðja í næstu kosningum nokkurn þann flokk eða frambjóðanda sem hefur það á stefnuskrá sinni að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni.

Höfundur er stjörnufræðingur og fyrrverandi einkaflugmaður.