Afganistan var í brennidepli á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Búkarest í vikunni. Ákveðið var að efla enn friðargæzlu NATO í landinu. Það skiptir máli að það takist að ráða niðurlögum talibana og annarra öfgamanna í Afganistan.

Afganistan var í brennidepli á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Búkarest í vikunni. Ákveðið var að efla enn friðargæzlu NATO í landinu. Það skiptir máli að það takist að ráða niðurlögum talibana og annarra öfgamanna í Afganistan. Ekki aðeins af því að alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi þreifst í skjóli þeirra á sínum tíma og ekki aðeins vegna þess að almenningur í Afganistan verðskuldar frið og betri kjör, heldur vegna þess að árangur í Afganistan ræður úrslitum um trúverðugleika NATO. Bandalagið verður að sýna að það ráði við það verkefni, sem það hefur tekið að sér.

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra lögðu áherzlu á það eftir fundinn að ekki ætti að hvika frá stuðningi við Afganistan, þótt NATO-ríkin ættu að sjálfsögðu að læra af reynslunni og þeim mistökum, sem sveitir aðildarríkjanna hafa gert í landinu.

Ísland á ekki að skerast úr leik í Afganistan. Það myndi veikja stöðu landsins í NATO. Í lokayfirlýsingu leiðtogafundarins var ítrekað að bandalagið gæti ekki unnið verkefni sín án þess að aðildarríkin legðu því til nauðsynlegar bjargir, og skorað á ríki sem hafa dregið saman varnarmálaútgjöld sín að auka þau. Auðvitað er eftir því tekið að eitt af aðildarríkjunum ver miklu lægra hlutfalli af landsframleiðslu til varnarmála en öll hin. Þótt Ísland eigi engan her, kemur það hins vegar að sjálfsögðu ekki í veg fyrir framlag okkar í formi borgaralegra verkefna eins og þeirra, sem unnið hefur verið að í Afganistan.

Á fundi NATO í Búkarest var öllu minna talað um Atlantshafið, sem bandalagið er kennt við, en um Afganistan. Íslendingum og Norðmönnum hefur ekki gengið sem skyldi að koma Norður-Atlantshafinu á dagskrá bandalagsins á ný, þrátt fyrir vaxandi hernaðarumsvif Rússlands, stóraukna eldsneytisflutninga um hafsvæðið og horfur á miklum breytingum á flutningaleiðum vegna hlýnunar loftslags.

Samt hanga hagsmunir Íslands á Norður-Atlantshafi og þátttaka okkar í verkefnum NATO í Afganistan saman. Ef Ísland leggur sitt af mörkum þar syðra er líklegra að önnur NATO-ríki verði reiðubúin að gefa öryggisþörfum norrænu aðildarríkjanna meiri gaum.