Kostnaður Akureyrarbæjar vegna kaupa og innleiðingar á nýju fjárhags- og upplýsingakerfi, nemur nú rúmlega 120 milljónum króna, en upphaflegt tilboð í verkið hljóðaði upp á tæpar 60 milljónir.

Kostnaður Akureyrarbæjar vegna kaupa og innleiðingar á nýju fjárhags- og upplýsingakerfi, nemur nú rúmlega 120 milljónum króna, en upphaflegt tilboð í verkið hljóðaði upp á tæpar 60 milljónir. Samið var við fyrirtækið Applicon vegna verksins, en næsta tilboð á eftir átti HugurAx, upp á tæpar 86 milljónir króna.

Kostnaður hefur því tvöfaldast og þrátt fyrir að rúm þrjú ár séu liðin frá undirritun samninga er kerfið ekki enn komið í notkun að fullu og því sér ekki fyrir endann á fjárútlátum bæjarfélagsins. Kostnaðaráætlun bæjarins hljóðaði upp á tæpar 160 milljónir króna.

„Til þess að kerfið gæti nýst sem best í þessum flókna rekstri, sem rekstur sveitafélaga er, þurftum við að bæta við gagnagrunnum, fjölga notendaleyfum og kaupa meiri þjónustu og því varð verkið umfangsmeira en við gerðum ráð fyrir í upphafi.“ Þetta segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar. „Verkið er enn innan kostnaðaráætlunar sem gerð var við upphaf verksins og það sem gildir mestu er að við fáum heildarlausn sem mun nýtast og þróast með sveitarfélaginu til frambúðar.“

Sigrún segir útboð vegna verksins hafa verið unnið samkvæmt þarfagreiningu og í fullu samráði við Ríkiskaup. „Útboðið var unnið eins vel og hægt var. Það sem bættist við var eingöngu til að gera kerfið skilvirkara og var ekki fyrirséð.“

Fyrirhugað er að taka kerfið að fullu í notkun á næstu mánuðum, en ljóst er að innleiðing þess hefur dregist á langinn.

„Mistökin sem við gerðum voru þau að ráða ekki sérstakan verkefnisstjóra yfir verkinu í stað þess að bæta verkefnisstjórninni á starfsmenn bæjarfélagsins. Ef verkefnisstjóri hefði verið yfir verkinu frá upphafi væri það eflaust komið lengra.“ æþe