Black Francis
Black Francis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Hljómsveitin Steely Dan hefur verið æði virk undanfarið, mannkyni til heilla. Plötur sveitarinnar á áttunda áratugnum standa sem ein tilkomumesta plöturuna rokksögunnar, þar sem eitt meistarastykkið rak annað.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Hljómsveitin Steely Dan hefur verið æði virk undanfarið, mannkyni til heilla. Plötur sveitarinnar á áttunda áratugnum standa sem ein tilkomumesta plöturuna rokksögunnar, þar sem eitt meistarastykkið rak annað. Það merkilega er að endurkomuplötur Dan hafa og verið stórgóðar (Two Against Nature (2000) og Everything Must Go (2003)). Þessi mikla uppvakning hefur spillst yfir á sólóumsýslan leiðtogana tveggja, þeirra Donald Fagen og Walter Becker og gaf sá fyrrnefndi út hörkuplötu árið 2006, Morph the Cat. Þess má geta í framhjáhlaupi að allar þrjár sólóplötur Fagen komu út í boxi síðasta haust sem The Nightfly Trilogy og samanstendur það af The Nightfly (1982), Kamakiriad (1993) og áðurnefndri Morph the Cat.

En nú er röðin komin að Walter Becker, en fyrsta sólóplata hans í fjórtán ár, Circus Money, kemur út seint í maí eða snemma í júní á hans eigin merki, 5 Over 12, sem er undir hatti Mailboat Records, útgáfu sem var stofnuð af Jimmy Buffett árið 1999.

Síðasta plata Becker, 11 Tracks of Whack, kom út árið 1994. Sólóplötur Dan–bræðra hafa fylgt línum hljómsveitar þeirra nokkuð nákvæmlega verður að segjast en það má búast við þónokkrum sveigjum og beygjum á Circus Money, samanber viðtal sem Becker átti við Billboard fyrir stuttu. Þar segist hann hafa verið að hlusta mikið á jamaíska döbbtónlist frá áttunda áratugnum og áhrif frá henni munu án efa gera vart við sig á plötunni. Becker mun mögulega fylgja plötunni eitthvað eftir en fyrst eru það nokkrir Steely Dan-tónleikar í sumar og í haust. Ekkert er hins vegar að frétta af nýrri hljóðversplötu frá henni.

„Við túruðum í fjóra eða fimm mánuði á síðasta ári sem er ansi mikið fyrir menn á okkar aldri,“ segir Becker. „Það eru engar áætlanir uppi um plötu. Ég veit ekki einu sinni hvort við erum lengur á mála hjá einhverri útgáfu. Ég vona ekki!“

Black Francis (áður Frank Black, áður Black Francis. Rétt nafn: Charles Michael Kittridge Thompson IV), leiðtogi Pixies og höfundur skrilljón sólóplatna hefur gefið út nýtt sjö laga sett sem kallast Svn Fngrs. Um einslags temaplötu er að ræða, en heitið (Seven Fingers þegar það er búið að afrugla það) vísar í hina goðsagnakenndu írsku hetju, Cúchulainn, sem átti hafa haft sjö fingur og sjö tær. Platan kemur út í kjölfar Bluefinger (2007) sem fylgdi svipuðu formi, en þá var umfjöllunarefnið hollenski listamaðurinn Herman Brood. Francis hefur lítið gefið upp um ástæðurnar fyrir þessum fingratemum, og yfirlýsingar í fjölmiðlum eru dularfullar og lyklaðar. Fólki gefst þó færi á að leggjast yfir þetta með meistaranum í San Francisco 25. apríl, en það eru einu tónleikarnir sem hafa verið staðfestir á þessu ári.