Ellert Eggertsson fæddist í Hafnarfirði 22. júní 1956. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 22. febrúar síðastliðinn og var jarðsunginn frá Árbæjarkirkju 3. mars.

Ellert Eggertsson var borinn til grafar mánudaginn 3. mars. Hann lést langt um aldur fram. Leiðir okkar lágu saman seint á 8. áratugnum og við urðum góðir vinir um hríð. Vinátta okkar varð til vegna sameiginlegra vinkvenna – sem segja má að hafi leitt okkur saman, en tók fljótlega að snúast um sameiginlegan draum okkar beggja. Við létum okkur dreyma um ferðalag um Evrópu, og létum drauminn rætast. Til stóð að fara á Chevrolet Impala sem Elli átti; og ég man eftir því þegar ég heimsótti hann eitt sinn sem oftar á Gúmmívinnustofuna, að hann sýndi mér splunkuný dekk og spurði: „Hvernig líst þér á að rúlla á þessum niður Evrópu?“ Mér leist prýðilega á það, en hafði reyndar hvorki vit á bílum né dekkjum eins og Elli, sem var með talsverða bíladellu. Svo var hann líka fjórum árum eldri en ég, og það réð ef til vill úrslitum um að horfið var frá því að ferðast á amerískum dreka suður álfuna. Afráðið var að nota heldur evrópskt lestarkerfi.

Við byrjuðum í Kaupmannahöfn og fórum þaðan um Svíþjóð, Holland, Belgíu, Þýskaland og suður til Ítalíu – og til baka. Ferðalagið varð viðburðaríkt, og Elli og ég kviðum ekki morgundeginum. Báðir komum við líka heim aftur. Það var fyrir bráðum 30 árum, og varla að við höfum sést síðan. Ef til vill einu sinni eða tvisvar á hlaupum fyrir meir en tveimur áratugum.

Þegar ég frétti andlát Ellerts, daginn sem hann var borinn til grafar, varð mér hugsað til hans eins og stundum áður; og það er engin ástæða til þess að gráta okkar stuttu kynni. Þvert á móti er gott að minnast þeirra. Elli var frábærlega góður og traustur vinur og með afbrigðum skemmtilegur ferðafélagi. Hann var einstaklega hreinlyndur maður. Þannig hef ég alltaf munað hann og þannig mun ég minnast hans áfram. Guð blessi Ellert Eggertsson. Aðstandendum votta ég mína innilegustu samúð.

Hjörtur

Hjartarson.

Kær vinur og starfsfélagi, Ellert Eggertsson, er látinn langt um aldur fram og langar okkur að minnast hans í fáeinum orðum.

Elli, eins og við kölluðum hann, rak vörubíla- og gröfuþjónustu og kynntumst við honum fyrst fyrir sjö árum þegar hann var fenginn til að vinna verk fyrir okkur í garðyrkjunni. Leist okkur strax svo vel á hann að þaðan í frá vildum við helst ekki neinn annan en Ella ef við þurftum á vörubíl eða gröfu að halda. Hann var frábær verkmaður sem hægt var að treysta, var ótrúlega fær á kranann, vann sín verk fljótt en var jafnframt afar vandvirkur. Elli var alltaf boðinn og búinn að hjálpa okkur þrátt fyrir annríki enda mjög eftirsóttur. Minnumst þess nú þegar við vorum eitt sinn komnir í vandræði, en við vorum nærri búnir að missa vél ofan í skurð og þaðan utan í hús. Eftir smávegis vangaveltur var ákveðið að hringja í Ella. Þrátt fyrir að hann væri á fullu í öðru verki sleit hann sig frá því, var kominn á augabragði og náði að hífa vélina frá hættusvæðinu. Síðan var hann farinn jafnharðan og ekki viðlit að fá hann til að þiggja greiðslu fyrir.

Elli var mikið fyrir hvers kyns útiveru s.s hestamennsku og veiði og þá átti hann forláta mótorhjól sem hann hafði gaman af að þeysast um á. Oft talaði hann um sumarbústaðinn við Meðalfellsvatn og veiði í vatninu. Síðasta sumar heimsótti ég hann í bústaðinn og klippti runna. Í staðinn fékk ég að veiða í vatninu eins og ég vildi það sumar og nutum við sonur minn góðs af því.

Í samtölum leyndi sér ekki að fjölskyldan var honum mjög hugleikin og Spánarferðir með Elínu konu sinni var ein af hans bestu stundum.

Um leið og við þökkum samverustundirnar vottum við öllum þeim sem eiga um sárt að binda okkar dýpstu samúð.

Ragnar Eyþórsson.

Sigurbjörn Rafn Ottósson.