Gyrðir Elíasson „Menning sem ekki felur í sér skynsamlega umgengni við náttúruna og ákveðna hóg- værð gagnvart henni er að mínu mati falsmenning og ekkert annað. Hún hlýtur að fela tortíminguna í sjálfri sér.“
Gyrðir Elíasson „Menning sem ekki felur í sér skynsamlega umgengni við náttúruna og ákveðna hóg- værð gagnvart henni er að mínu mati falsmenning og ekkert annað. Hún hlýtur að fela tortíminguna í sjálfri sér.“ — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hver eru bókmenntaáhrif Davíðs Oddssonar? Hér er fjallað um óljósa stöðu einstaklingsins í breyttum og framandi heimi, veruleikann sem hvarf og möguleika skáldsögunnar til þess að lýsa því hvarfi.

Eftir Þröst Helgason

throstur@mbl.is

Í skáldsögunni Afleggjaranum (2007) eftir Auði A. Ólafsdóttur fer 22 ára maður, Arnljótur, í ferðalag út í óvissuna. Hann hefur misst móður sína, sem hann var mjög náinn, og hann er nýorðinn faðir eftir að hafa eytt fjórðungsparti úr nóttu „með eins konar vinkonu vinar síns“. Staða hans er óljós. Við honum blasir nýtt hlutverk. Framtíðin er óráðin að öllu öðru leyti en því að hann hefur ráðið sig í garðyrkju í útlöndum, hann ætlar að koma lagi á frægan rósagarð sem staðið hefur lengi við ónefnt klaustur á afskekktum stað en verið í órækt um árabil. Hann tekur lítinn farangur með sér eins og til að undirstrika að hann ætli að skilja fortíðina eftir heima þegar hann fer að leita að framtíð sinni. Hann skilur barnið eftir heima hjá móðurinni og einnig þroskaheftan tvíburabróður og aldraðan föður, en tekur með sér þrjá afleggjara af áttablaðarósum. Ferðalagið liggur líka eftir ólíklegustu afleggjurum, hann lendir á spítala þar sem botnlanginn er tekinn úr honum (sennilega fullur af fortíðargumsi), uppi í rúmi hjá gamalli skólasystur og úti í skógi, og hraðbrautin sjálf verður að nokkurs konar afleggjara inn í eilífðina þegar hann keyrir fram á dauðaslys og sér fullorðin hjón látin í bíl sínum. Hans eigin bíll er sítrónugulur ópel lasta, táknmynd eilífðarglímu mannsins við lestina, súra sem sæta. Á áfangastað hefst Arnljótur þegar handa við að yrkja garðinn sinn, hann stingur rósaafleggjurunum niður í frjóa moldina og reynir í senn að festa rætur í nýjum aðstæðum. Það reynist ekkert áhlaupaverk. Tungumálið í þorpinu er eins og hans eigið, talað af fáum og illhöndlanlegt en í klaustrinu kynnist hann presti, séra Tómasi, sem talar fjörutíu tungumál, „nítján vel og fimmtán til viðbótar sæmilega“, auk þess sem hann skilur hrafl í þó nokkrum: „Þegar maður er kominn upp fyrir ellefu er lítið mál að bæta við nýju,“ segir presturinn. En þrátt fyrir tungumálakunnáttuna hefur Tómas enga lausn á þeirri óljósu stöðu sem Arnljótur er kominn í. Presturinn er áhugamaður um kvikmyndir og virðist miklu heldur trúa því að þar sé einhver svör að finna. Arnljótur veltir fyrir sér líkamanum, sem er honum framandi, dauðanum, sem hann hefur fengið svolitla innsýn í, og allir í kringum hann virðast velta fyrir sér kynhneigð hans, sem gerir stöðu hans enn óljósari. Heimurinn hellist þó fyrst yfir hann þegar barnsmóðir hans, Anna, boðar komu sína í þorpið með barnið, sem hún vill skilja eftir hjá honum í fjórar vikur, og hann sem veit ekki einu sinni hvað er honum sjálfum fyrir bestu.

Í Afleggjaranum er að finna mörg þeirra viðfangsefna sem íslenskur skáldskapur hefur glímt við undanfarin misseri. Óljós staða einstaklingsins í breyttum og framandi heimi hefur verið áberandi þema rétt eins og við sáum í Sendiherranum eftir Braga Ólafsson í síðustu Lesbók . Óljós mörk milli sálar og líkama hafa einnig verið til umfjöllunar, sömuleiðis líkamleg tengsl og mörk hins karllega og kvenlega, mörk kynhneigða – kannski er Arnljótur lentur inni í auga kynuslans sem hefur riðið yfir síðustu ár. Í sögunni er einnig fjallað um vanmátt tungumálsins frammi fyrir veruleikanum og eilífðarspurningunum. Auður segir að það sé afar spennandi glíma að fjalla um það í bók að ekki sé hægt að gera veruleikanum skil með orðum. „Það er um leið grundvallarþversögn skáldskaparins og líklega ástæða þess að ég er rithöfundur.“

Allt eru þetta umfjöllunarefni sem hafa kallað á ýmiss konar æfingar með form og möguleika skáldsögunnar en um leið endurspegla þau menningarástand samtímans, dreifingu sjálfsverunnar og upplausn veruleikans. Áður en við rýnum frekar í möguleika skáldsögunnar nú á tímum skulum við skoða ástandið sem hún sprettur úr.

Bókmenntaáhrif Davíðs Oddssonar

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og rithöfundur, snerti á einu athyglisverðasta og sennilega viðkvæmasta umfjöllunarefni íslenskra bókmennta hin síðari ár í smásagnasafninu Stolið frá höfundi stafrófsins (2002). Rúmu ári eftir að bókin kom út birti Hermann Stefánsson smásögu í Lesbók undir titlinum „Stolið frá höfundi Stolið frá höfundi stafrófsins“ (10. janúar 2004) sem öðrum þræði fjallaði um þá nýtilkomnar ásakanir á hendur Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni um að hann hefði tekið texta úr verkum eftir Halldór Laxness og fleiri og sett fram sem sína eigin í fyrsta bindi ævisögu sinnar um Halldór (2003). Allar götur síðan hefur ritstuldur verið áberandi þema í íslenskri sagnagerð, meðal annars í Sendiherranum eftir Braga Ólafsson þar sem hann verður að eins konar táknmynd um gangvirki skáldskaparins.

En áhrif Davíðs Oddssonar á íslenskar bókmenntir eru miklu meiri og tengjast forsætisráðherratíð hans í þrettán ár, frá 1991 til 2004. Þessi ár mörkuðu upphaf nýrra tíma á Íslandi. Undanfarinn var sá stórpólitíski viðburður í Berlín 1989 að múrinn á milli austurs og vesturs féll og hin einfalda svarthvíta heimsmynd kaldastríðsins vék fyrir enn einfaldari mynd af heiminum, allt átti að stefna í sömu átt, það þurfti að opna fyrir frjáls markaðsviðskipti og draga úr afskiptum ríkisins á sem flestum sviðum. Hér á landi skipti samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið árið 1991 meginmáli í þessu ferli en hann opnaði Ísland meðal annars fyrir frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls. Á ógnarhraða dró úr áhrifum stjórnmálamanna og viðskiptajöfrar tóku völdin. Áður en öldin var úti höfðu ríkisbankarnir ásamt nokkrum öðrum opinberum stofnunum verið seldir til fjármagnseigenda og fleiri – einkavæðing var nokkurs konar lausnarorð tímans. Allri þessari opnun fylgdi hressandi andblær í þjóðfélaginu og það er kunnara en frá þurfi að segja að ótrúlegustu hlutir fóru á hreyfingu í kjölfar þess að efnahagurinn blés út.

En, eins og víðar, fylgdu þessu líka grundvallarbreytingar á hugmyndalífi landsmanna. Samfélag síðkapítalismans, eins og það er kallað, var opnara og frjálsara að ýmsu leyti og virtist að margra mati bjóða upp á nýja möguleika til að vaxa og reyna hluti sem áður voru ekki innan seilingar. Margir sáu þetta hins vegar ekki í þessu jákvæða ljósi heldur töluðu um vaxandi græðgi, efnishyggju, yfirborðsmennsku og eiginhagsmunapot á kostnað heildarhagsmuna. Þessi togstreita er enn til staðar og er einn af meginþráðunum í pólitískri og menningarlegri umræðu. Hún endurspeglast til dæmis í svörum nokkurra rithöfunda þegar þeir eru spurðir hvaða hlutverki bókmenntir gegni í samtímanum. Bragi Ólafsson segir: „Í fyrsta lagi sama hlutverki og jafnaðarstefna í stjórnmálum: Að sporna gegn kúgunar- og niðurrifsöflum frjálshyggju, trúarkenninga og alræðis.“ Auður A. Ólafsdóttir segist hafa þá rómantísku sýn að í skáldskapnum geti lesandi hitt fyrir sjálfan sig og að skáldskapurinn geti – ef menn gefa honum sjens – gert það sem pólitíkin geti ekki gert, breytt því hvernig menn hugsa heiminn og þar af leiðandi breytt heiminum: „Að bók geti jafnvel kveikt ástríðu, löngun og vilja hjá lesanda sem hugsi með sér, nei hættu nú alveg...kannski ég ætti að endurskoða líf mitt og grafa tvo til þrjá brunna í Afríku og styrkja skólastofu fyrir munaðarlausar stúlkur á Indlandi.“ Spurður hvort það sé erfitt að skrifa um samtímann segir Guðbergur Bergsson að svo sé ekki: „Vandamálið er að þora að skrifa um samtímann og finna útgefanda. Þeir og rithöfundar eru yfirhöfuð orðnir að sölukjánum.“

En áhrif síðkapítalismans rista enn dýpra í samfélagi og menningu samtímans. Hann er ekki aðeins kerfi sem dreifir peningum og vörum, heldur setur hann mark sitt á alla reynslu okkar. Þegar mann langar í eða kaupir einhverja vöru þá er maður ekki aðeins að kaupa hlutinn sjálfan heldur einnig táknin, myndirnar og ímyndirnar sem fylgja þeim. Og þessi viðhengi vörunnar skapa fjölmiðlarnir. Með æ meiri samruna hlutanna og ímyndanna virðist sem fólk sé slegið blindu á veruleikann og ýmis gildi sem áður þóttu mikilvæg, notagildi, verðgildi og ýmis siðferðisleg gildi. Sumir hafa gengið svo langt að segja veruleikann horfinn í þessu gjörningaveðri neysluhyggjunnar þar sem áherslan sé öll á birtingarmyndir hlutanna en ekki inntak þeirra.

Bókmenntirnar hafa lýst þessu ástandi með ýmsum hætti en líka brugðist við því. Skáldsaga Eiríks Guðmundssonar, Undir himninum (2006), hefst með eftirfarandi orðum: „Stærstu mistök mín í lífinu eru þau að ég hef um nokkra hríð ekki gert greinarmun á skáldskap og veruleika.“ Sagan gerist í snertifletinum á milli veruleika og skáldskapar, eigin lífs höfundarins og tilbúins heims. Aðalpersónan E er útvarpsmaður eins og Eiríkur sjálfur og hefur gefið út bók með heitinu 39 þrep til glötunar eins og Eiríkur og er að skrifa bók sem heitir Undir himninum . Eiríkur segir að þegar talað hafi verið um að veruleikinn væri horfinn hafi legið beint við að leita þessa sama veruleika: „Við höfum orðið vitni að þessari leit í verkum ýmissa samtímahöfunda. Og sumir hafa beitt þeirri aðferð að nota sjálfa sig eða eigið líf sem tákn um þennan veruleika sem var horfinn inn í vélvirki fjölmiðlanna. Þannig verður skáldsagan að vettvangi fremur en spegli, vettvangi sem rúmar allan heiminn og kemur lesandanum á óvart með því að látast greina frá sönnum atburðum. En það er jafnmikill skáldskapur og allt annað þótt lesandinn hafi ævinlega jafnmikla þörf fyrir að láta fífla sig. Veruleikinn nú um stundir er óreiða, hann er hlykkjóttur, ofbeldisfullur, aðgangsharður og lýjandi og það hlýtur að vera tilraunarinnar virði að reyna að breyta honum í texta, hleypa honum inn í skáldsögu sem lokar ekki öllum hlerum og setur kertaljós út í glugga heldur býr til heim sem stendur til hliðar við veruleikann, og er í vissum skilningi jafngrimmur, óhugnanlegur og fagur og hann. Ef veruleikinn er horfinn þá er ekkert eftir nema maður sjálfur, ýlfrandi undir himni sem einhver setti yfir mann fyrir löngu án þess að hugsa um afleiðingarnar. Það að ,,vinna með sitt eigið líf“ í skáldskap er þá um leið tilraun til þess að lýsa því frá fyrstu hendi – líkt og á sannferðugan hátt – hvernig maður lifir í samtímanum og hvernig hann gengur af manni dauðum. Annars dreymir mig – eins og Flaubert – um að skrifa bók sem fjallar ekki um neitt. Bók sem verður ekki hægt að taka til umræðu því hún inniheldur ekkert sem hægt er að tala um.“

Fleiri hafa skrifað sögur sem gerast á þessum mörkum veruleika og skáldskapar en með mismunandi hætti. Þetta eru sjálfsævisögulegar bækur og skáldævisögur en líka lykilsögur og jafnvel skáldsögur sem nýta sem efnivið raunveruleg samskipti þekktra einstaklinga í samfélaginu eins og bók Kristjóns Kormáks Guðjónssonar, Frægasti maður í heimi (2005), sem byggist á raunverulegum tölvubréfum. Veruleikinn hefur líka átt það til að ryðjast inn í skáldskap Hermanns Stefánssonar á óvenjulegan hátt. Í Stefnuljósum (2005) birtir hann ljósmynd af aðalpersónunum og nefnir eina þeirra í höfuðið á kunnum rithöfundi, Ólafi Jóhanni Ólafssyni. Hið ímyndaða ryðst reyndar líka inn í söguna með óvæntum hætti – til dæmis þegar aðalsögupersónan gengur með grillur um framhjáhald eiginkonu sinnar – og minnir lesendur þannig á að veruleikinn og reyndar sjálf sagan er ekki öll þar sem hún er séð, hún gefur stefnuljós til vinstri en beygir svo til hægri. Hermann er á þeirri skoðun að það þurfi að bregðast við öfgakenndu ástandi samtímamenningarinnar með öfgakenndum hætti: „Ég held að það sé erfiðara að skrifa um samtímann og samfélagið núna en oft áður. Það er hægt að snúa baki við samtímanum og samfélaginu og einfeldningar skilgreindu margt í módernismanum út frá þessu og töldu hann ekki bregðast við samtíma sínum. Ekkert er jafnafgerandi viðbragð við samtímanum og að snúa baki við honum. Módernisminn sigldi við hlið samtíma síns, í andstöðu við hann og var mjög gagnrýninn. Mörg klassísk stílbrögð eru hins vegar alveg bitlaus í samtímanum og þannig skáldskapur rennur alveg saman við samtímann í stað þess að taka sjálfstæða afstöðu til hans. Einföld skopfærsla er til dæmis útilokuð í samtímanum því samtíminn skopfærir sig látlaust sjálfur, keyrir sig sjálfur út í hinar rökréttu öfgar svo það er óþarft að gera grín að honum. Að fara út fyrir siðferðismörk með einföldum hætti er oftast hálfmarklaust því ekki bara hneykslast enginn lengur heldur er offramboð á efni sem á að hneyksla. Og einfaldar samfélagslegar bókmenntir hafa tilhneigingu til að verða bara endursagnir á fréttum líðandi stundar, fréttir í samtalsformi, eitthvað sem er efst á baugi í dag en er horfið á morgun. Kannski þyrfti líka að leita leiða til að setja bókmenntir sem með einhverjum hætti halda áfram þar sem módernisminn skildi við í samfélagslegt samhengi, tala um þær þannig, gera þær að þeirri pólitík sem þær eru án þess að smætta þær í leiðinni.“

Pólitíkin sem Hermann nefnir gæti verið sú aðferð að afhjúpa ofríki ímyndanna með því að afmá mörkin milli veruleika og skáldskapar, að búa til tálmynd af veruleikanum sem inniheldur í raun ekkert nema sjálfa sig. Segja má að þetta hafi verið verkefnið í Sendiherranum eftir Braga Ólafsson og skáldsögum Eiríks og Hermanns sem hér hafa verið nefndar. Allar þessar sögur taka róttæka afstöðu til samtímans með því að láta reyna á það form sem þær eru skrifaðar inn í.

En eins og sást í Afleggjaranum eru aðrir möguleikar á gagnrýninni greiningu á samtímamenningunni. Nýjasta skáldsaga Gyrðis Elíassonar, Sandárbókin (2007), er einnig gott dæmi.

Frá jaðrinum

Sandárbókin fjallar um myndlistarmann sem hefur tekið sér bólfestu í útjaðri samfélagsins, í hjólhýsahverfi sem myndast hefur í skóglendi úti á landi. Hann hefur misst sambandið við alla sína nánustu, týnt vinum sínum og týnst í sjálfum sér, eins og hann segir flesta gera sem helga sig því sem kallað er list. Hann á heldur ekki mikil samskipti við aðra í hjólhýsahverfinu nema dularfulla konu sem hann sér stundum í skóginum en þorir reyndar ekki að nálgast. Hann er einmana en „vantar allan kraft til að rísa yfir vöntun á mannlegum tengslum sem hefur skapast í lífi [hans]“. Í fyrstu virðist hann hafa misst löngunina til að mála en smámsaman fer hann að mála trén í skóginum í raunsæislegum anda. Þannig líður sumarið við það að hann reynir að líkja eftir hinum náttúrulegu formum og litum um leið og hann reynir að hugsa sem minnst um heiminn í kring og lífið, að minnsta kosti ekki síðustu árin sem hann kallar sandár – þau hafa runnið úr greipum hans. Annar hluti bókarinnar heitir Haust. Listamaðurinn er nánast einn í hjólhýsabyggðinni og fátt gerist. Hann saknar hins vegar ekki borgarinnar enda gekk honum ekki eins vel að mála þar og í skóginum, í borginni vantaði einhverja tengingu sem nú er komin, eftir langan tíma, og henni ætlar hann ekki að sleppa aftur: „Ég ætla að gera hana að sítengingu.“ Í lok bókar rennur hann saman við óminnisrökkrið, hugsandi um myndirnar sem hann málaði aldrei en eru samt hans myndir.

Undirtitill Sandárbókarinnar er Pastoralsónata . Orðið pastoral vísar til lífsstíls hirðingja fyrr á öldum sem lifðu í samhljómi við náttúruna. Orðið vísar iðulega til afar rómantískra lýsinga á sveitalífi í bókmenntum sem eiga lítið skylt við veruleikann. Undirtitillinn leggur þannig áherslu á rómantíska lýsingu bókarinnar á listamanninum sem hefur fundið samhljóminn í náttúrunni, tenginguna við listina og lífið sem hann fann ekki í firringu borgarinnar.

Gyrðir segir að það megi á vissan hátt skoða Sandárbókina sem gagnrýni á samtímamenninguna, „og það gildir reyndar með fleiri bækur mínar, þótt menn hafi síður tekið eftir því í þeim“. Hann segir það mat sitt að stundum geti verið betra að skoða úr jaðrinum, „svo vel má vera að ómeðvitað hafi ég valið mann sem stendur nánast utan við samfélagið til að lýsa því sem mér þykir athugavert í hringiðu lífsins“.

Hinn gagnrýni tónn beinist þó kannski öllu frekar að umgengni mannsins við náttúruna en það er þema sem hefur verið áberandi í bókmenntum síðustu ára og Gyrðir hefur fjallað um áður: „Ég lít þannig á að það að vera maður hljóti að fela í sér sáttmála við jörðina sem við lifum á, hún er það sem við höfum til að byggja líf okkar á, og undir öllum mannvirkjum er náttúran, undir öllum steinsteyptum húsum og malbiki. Kannski þarf „menningin“ að breytast á nýrri öld, í átt til samræmis við náttúruna, og þegar horft er til loftslagsbreytinga og slíks, er það reyndar ekkert „kannski“. Menning sem ekki felur í sér skynsamlega umgengni við náttúruna og ákveðna hógværð gagnvart henni er að mínu mati falsmenning og ekkert annað. Hún hlýtur að fela tortíminguna í sjálfri sér.“

Eiga rithöfundar að segja satt?

Ein spurninganna sem greinarhöfundur lagði fyrir íslenska rithöfunda var sú hvort þeir væru sammála bandaríska rithöfundinum Ernest Hemingway um að það væri hlutverk rithöfundarins að segja satt. Svör rithöfundanna voru æði ólík og fara hér á eftir.

Gyrðir Elíasson

Ekki fer ég að deila við stórmenni eins og Hemingway! En maður hlýtur að spyrja sig að því hvort einhver einn sannleikur sé til í dag, án þess að ég telji mig einhvern sérstakan afstæðishyggjumann. Hemingway var stríðsfréttaritari meðal annars, en ef maður skoðar t.d. fréttaflutning frá styrjaldarsvæðum sér maður hversu margar birtingarmyndir sannleikurinn (eða lygin?) getur haft. En Hemingway hefur líklega átt við að höfundurinn ætti að skrifa út frá sönnum forsendum; í þeim skilningi að skáldskapur hans væri innlifaður og upplifaður með einhverjum hætti. Allir vita að rithöfundar hagræða því sem í daglegu tali er kallað sannleikur, en alla vega á góðum degi viljum við trúa því að sú hagræðing fari stundum nær sannleikanum en veruleikinn sjálfur.

Bragi Ólafsson

Ég veit ekki hvað Hemingway á við með þessu. Ef rithöfundur hefur eitthvert sérstakt hlutverk, þá get ég ímyndað mér að það sé að þróa list sína og bæta einhverju við það sem hefur verið gert áður. Ef til vill er mikilvægast fyrir skáldsagnahöfund – og hugsanlega er það þá hlutverk hans – að fá lesendur til að trúa því sem í rauninni er ekki satt.

Auður Ólafsdóttir

Ég held að Hemingway hafi verið að plata þegar hann sagðist segja satt.

Nema hann hafi átt við bókmenntalegan sannleika (lögmál verksins) sem er sannleikur alveg sér á báti og óhjákvæmilega fullur af lygum. Hann er í ætt við sannleik augnabliksins sem er sannleikur á meðan hann er upplifaður.

Til að texti geti borið með sér sannleikskorn og til að lesandi kannist við persónur og aðstæður og staði úr eigin hugarheimi og geti speglað sinn veruleika í sögunni þarf hann helst að vera uppspuni, tilbúningur. Þess vegna gæti ég t.d. aldrei skrifað bók sem gerist í París, það myndi takmarka of mikið sannleika verks. Sem stendur er ég að prófa að skrifa leikrit um fólk sem telur sig hafa höndlað sannleikann, það verður subbulegt...

Jón Kalman Stefánsson

Já. Eða öllu heldur; ef skáldskapur virkar þá er hann sannur. Og hlutverk höfundarins er að láta skáldskapinn virka, að hann snerti lesandann – og breyti síðan heiminum. Þá er hann sannur.

Árni Þórarinsson

Sannleikurinn er jafn snúinn og veruleikinn. En það er jafn mikilvægt að reyna að höndla hann og tjá hann.

Haukur Már Helgason

Já. Og mig langar jafnvel að nota fornt orðalag og tala um æðstu kröfu til rithöfundar. Sannleikurinn þarf ekki að vera realískur, ekki natúralískur og kannski er hann ekki skilgreinanleg kví. En hann sprettur stundum fram við tilteknar aðgerðir, hann er óhjákvæmilega alltaf það sem áður var ósagt, og er þannig óvænt þegar það heyrist, þó að það segi sig síðan sjálft. Mér finnst Hannes segja svona satt með þessu stutta ritverki, titlinum á sýningunni „Bæ bæ, Ísland“.

Krafan um sannleikann í skáldskap er náskyld kröfunni um að lifa ekki í lygi, það má jafnvel leggja þessar tvær kröfur að jöfnu. Og þess vegna hefur þetta eitthvað að gera með ást – ást er veður sem útrýmir lygi.

Þórarinn Eldjárn

Já, það getur a.m.k. ekki verið hlutverk höfunda að efla lífslygi, afneitun, blekkingu og eymd.

Einar Már Guðmundsson

Já, fyrst Hemmingway sagði það. Samt trúi ég ekki á neinn sannleika. Ég held að hann sé enn varasamari en veruleikinn. Sannleikurinn er mjög slæmt veganesti fyrir þann sem ekki lýgur.

Auður Jónsdóttir

Gulrótin sem teymir mig áfram er þessi tilraun til að fanga grun um sannleika, jafnvel þótt grunurinn felist í því að slíkur sannleikur fyrirfinnist hvergi. En hlutverk rithöfundarins sem slíks felst fyrst og fremst í því að hann verður að skapa sér það sjálfur. Rithöfundur sem lýgur getur verið jafngóður og rithöfundur sem rembist við að segja satt. Jafnvel betri. En hann verður að kunna að ljúga nógu vel til að aðrir trúi honum.

Ólafur Jóhann Ólafsson

Já, í þeim skilningi að höfundur verður að mynda trúnaðarsamband við lesendur sína. Það gerist ekki nema lesendunum finnst hann koma hreinskilnislega fram við sig, beri fyrir þeim virðingu og reyni ekki að snúa á þá eða stytta sér leið. Það er sá sannleikur sem ég held að Hemingway karlinn hafi átt við.

Pétur Gunnarsson

Nú lægi auðvitað beinast við að spyrja eins og Pílatus forðum: Hvað er sannleikur? Og líka vitna í Kristnihaldið: „Það er gaman að heyra fuglana kvaka, en það væri annað en gaman ef þeir væru ævinlega að kvaka satt.“ En ég held að það sem Hemingway sagði hafi verið: „Good writing is true writing“ og átti þá við að maður skrifaði best um það sem maður þekkti af eigin raun. Þetta stangast að vísu á við Flaubert sem hélt því fram að maður skrifaði best um það sem maður þekkti ekki, það væri forsendan fyrir því að alskapa hlutinn – að því gefnu að höfundurinn hefði hæfileika og innlifunargáfu.

En að því öllu slepptu: auðvitað reynir höfundur ævinlega að skrifa eins og hann er maður til og beitir til þess öllum brögðum, líka lygi.

Yrsa Sigurðardóttir

Ef átt er við „All good books have one thing in common – they are truer than if they had really happened“ þá túlka ég þessa tilvitnun á annan veg, þ.e. að góð bók verði að vera trúverðugri en raunveruleikinn. Því er ég sammála, þ.e. ótrúverðug saga er ekki góð saga. Á móti kemur að það er fátt undir sólinni sem ekki gæti gerst þegar manneskjan á í hlut svo það er enginn skilgreindur sannleikur sem hægt er að halda sig við. Maður reynir því bara að vera sögupersónunum trúr með því að gæta þess að þær séu fylgnar sér.

Guðbergur Bergsson

Shakespeare var vitrari og sagði: All is true.