KOMINN AF DÖKKUM ÞRÆL Í meðfylgjandi grein um Þrælaeyjar segir m.a. frá Hans Jonathan, sem fæddur er af "negerinden Regina", eign general Majors Schimmermanns landstjóra á Saint Croix 1784, eins og segir í fæðingarvottorði hans.

KOMINN AF DÖKKUM ÞRÆL Í meðfylgjandi grein um Þrælaeyjar segir m.a. frá Hans Jonathan, sem fæddur er af "negerinden Regina", eign general Majors Schimmermanns landstjóra á Saint Croix 1784, eins og segir í fæðingarvottorði hans. Þar er faðir ekki skráður en munnlega nefndur danskur ritari á staðnum. Hans Jonathan var síðar dæmdur þræll í Kaupmannahöfn, en kom svo 1818 til Íslands sem verslunarstjóri hjá Örum & Wulf á Djúpavogi, gerðist bóndi og giftist þar og af er mikill ættbogi á Íslandi. Meðal afkomenda hans mun vera forsætisráðherra Íslands, Davíð Oddsson.

Um þessa afkomendur Hans Jonathans skrifar Stefán Jónsson fréttamaður m.a.: "Á Austurlandi hefur þótt fremd að því að geta rakið ættir til Hans Jónatans, en hann átti ekki mjög marga afkomendur á Djúpavogi í bernsku minni. Dökki augnliturinn og blásvarta hárið, sem enn teljast aðalsmerki margra í því plássi, eru að litlu leyti þaðan komin. Að vísu eru ættareinkennin frá Saint Croix líka tekin að dofna í blöndu kynslóðanna, en getur þó enn að líta hjá ýmsu góðu fólki vítt um landið, svo sem á prúðu hári Davíðs Oddssonar borgarstjóra í Reykjavík." Stefán segir einnig: "Ekki var Hans Jónatan víst beinlínis blámaður, en mjög dökkur á hörund og hrokkinhærður eins og best gerist í Afríku, og á flestan hátt skar hann sig úr frá dönskum kaupmönnum . . ."

Davíð Oddsson kannaðist við þetta, þegar það var borið undir hann, og hafði gaman af spurningunni. Sagði m.a. að Valgerður föðuramma sín (fædd 1879) Haraldsdóttir bónda á Búlandsnesi Ólafssonar Briem hefði verið dökk á hörund, svo með ólíkindum var af íslenskri konu.

Þess má svo geta að ýmsir fleiri kunnir borgarar eru afkomendur Hans Jónatans, svo sem Heklubræður, en móðurafi þeirra Ingimundur Sveinsson, fæddur 1871 á Djúpavogi, giftist Önnu Maríu Lúðvíksdóttur, afkomanda Hans Jónatans, og meðal barna þeirra var Rannveig Ingimundardóttir, kona Sigfúsar í Heklu. Og fleiri mætti nefna,sem ekki verður nánar rakið hér.

Davíð Oddsson