Burthrifningin Á degi burthrifningarinnar hefja George W. Bush og aðrir sannkristnir repúblíkanar hendur til himins á meðan borgir hinna guðlausu brenna til grunna.
Burthrifningin Á degi burthrifningarinnar hefja George W. Bush og aðrir sannkristnir repúblíkanar hendur til himins á meðan borgir hinna guðlausu brenna til grunna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hér er sjónum beint að umræðunni um loftslagsvísindi og varpað fram þeirri spurningu á hvaða hátt dómsdagsmenning samtímans hafi áhrif á afstöðu almennings og stjórnmálamanna til válegra veðurfarsbreytinga á jörðinni.

Eftir Guðna Elísson

gudnieli@hi.is

Almenn og margítrekuð sátt vísindasamfélagsins um veruleika loftslagsbreytinga, ástæður þeirra og afleiðingar á enn undir högg að sækja í íslenskri umræðu sem virðist svolítið sér á báti sé horft til nágrannaþjóða okkar í Evrópu. Til dæmis hefur verið reynt að draga úr vægi sáttarinnar með því leggja áherslu á fréttir sem með réttu eða röngu má segja að einkennist af hræðsluáróðri. Almenning þyrsti í krassandi fréttir af heimi á helvegi og sá þorsti liti afstöðuna til umræðunnar, því fólk neiti að trúa öðru en að allt fari á versta veg. Tungmál hrakspárinnar virðist stundum vissulega í berlegu ósamræmi við yfirvegaða framsetningu vísindasamfélagsins á niðurstöðum rannsókna og þetta ósamræmi er notað til þess að gera lítið úr þeirri hættu sem stafar af loftslagsbreytingum. Rökin hljóma einhvern veginn svona. Ekkert er að marka ógnvænlegar niðurstöður vísindasamfélagsins, en ef eitthvað væri að marka þær hafa fjölmiðlarnir brenglað boðskapinn svo rækilega að hann er nær óþekkjanlegur.

Egill Helgason þáttastjórnandi hefur beitt slíkum rökum eins og sjá mátti á vefsíðu hans fyrir skömmu: „Því fer auðvitað fjarri að samstaða sé meðal vísindamanna um þessi mál. Íslenskir fræðimenn á þessu sviði taka til dæmis allir mjög varlega til orða – engar stórar yfirlýsingar þar um mikla hættu.“ 1 Af orðum Egils hér og annars staðar er ljóst að hann telur umræðuna einkennast af hræðsluáróðri – eða „alarmisma“ vilji menn síður skrifa íslensku – en þegar Egill var í kjölfarið hvattur til þess á heimasíðu sinni að fá alvöru sérfræðinga í umræðuþátt sinn, Silfur Egils , til þess að ræða loftslagsmálin svaraði hann: „Varðandi vísindamennina þá var ég með dálítið af þeim í Silfrinu fyrstu árin. Þá trúði ég þessu öllu eins og nýju neti með yfirvofandi hamfarir og man hvað það fór í taugarnar á mér hvað þeir voru óskaplega varkárir í orðum um þetta allt. Maður fær ekkert Gore-stöff frá þeim.“

Í orðum Egils býr einkennileg þverstæða. Vísindamennirnir eru vont sjónvarpsefni og það þrátt fyrir að varkárnin í þeim staðfesti (ranglega?) þá trú þáttastjórnandans að allt sé í lagi. „Dómsdagsloddarar“ á borð við Gore eru aftur á móti auðfúsugestir í Silfur Egils vegna þess að þeir hleypa hita í blóðið. 2 Ætli það sé einmitt þessi afstaða fjölmiðlamanna sem ýtti undir hrakspárorðræðuna til að byrja með? Ætli eina leiðin til þess að ná eyrum fjölmiðla hafi í gegnum tíðina verið að æpa sem hæst? En þótt bilið milli yfirvegaðrar framsetningar vísindamannanna og hrakspárorðræðunnar virðist óbrúanlegt, má ekki túlka það sem svo að allt sé í fínasta lagi, eins og svo margir sem fylgja Agli að málum virðast gera.

Þversögnin í orðum Egils dýpkar þegar í ljós kemur að honum er meinilla við dómsdagsspádóma. Frá marslokum hefur hann skrifað röð hugleiðinga á heimasíðu sína sem eru allar afar gagnrýnar á málflutning manna eins og Als Gore. 3 Í „Heimsslitum“ (8.4.) segir Egill:

Hugmyndirnar um stórkostlegar hamfarir af völdum loftslagsbreytinga spretta af trúarlegri þrá – sem einnig birtist í stjórnmálahugmyndum eins og kommúnisma og nasisma – eftir heimsslitum; atburði sem toppar alla hina. Syndaflóði. Þetta er mjög blandið djúprættri sektarkennd sem virðist vera fylgifiskur mannsins frá örófi alda. Að maðurinn sé spilltur í eðli sínu og eigi að gjalda fyrir það. Nú felst erfðasyndin í því að við höfum syndgað gegn plánetunni – ekki gegn guði eins og í kristindóminum. Fleira í þessu er með trúarlegu yfirbragði. Þeir sem gagnrýna þessar hugmyndir – eða benda einfaldlega á að dómsdagur sé ekki endilega í nánd – eru kallaðir afneitarar. Þeir eru villutrúarmenn og eru úthrópaðir sem slíkir. Al Gore fer um heiminn eins og farandtrúboði með tjald sitt. Eins og títt er um slíka prédíkara snýst þetta dálítið um peninga líka. 4

Það má finna að þessari líkingu Egils á ótal vegu. Trúarmyndin er t.d. mjög villandi, því að í versta falli er hægt að ásaka þá sem vara við afleiðingum loftslagsbreytinga um vísindatrú sem síðan sé krydduð með mergjuðum hamfaralýsingum. Sérkennilegt er einnig að leggja þau varnaðarorð sem felast í hrakspárorðræðunni að jöfnu við heimsslitahugmyndir kommúnista og nasista, einkum í ljósi þess hversu mikið Egill kvartar yfir rökleiðslum sem sé ætlað að tengja menn vondum félagsskap, Reductio ad Hitlerum . Þó er hann sá eini sem minnist á nasista í hópi þeirra sem leitt hafa þessa rökræðu. Samanburðurinn er líka merkingarlaus. Gjöreyðingarstríðið sem Hitler háði síðustu tvö ár heimsstyrjaldarinnar, þegar ljóst var að Þjóðverjar myndu ekki knýja fram sigur, sótti í klassískar fyrirmyndir og evrópska 19. aldar menningu og væri efni í sérstaka grein. Lokaátökin áttu að þurrka með öllu út hinn göfuga þýska kynstofn sem félli með foringja sínum í hreinsandi stríði. Þessi hugmyndafræði verður vart lögð að jöfnu við umhverfisverndarorðræðu samtímans, þó ekki væri fyrir annað en það að hrakspárorðræðan (eins meingölluð og hún er) gengur út á að forða þjóðum heims frá hörmungum öfugt við þá tortímandi dómsdagsþrá sem stýrði ákvörðunum Hitlers.

Hvað felst í hrakspárorðræðunni?

Í skýrslu bresku rannsóknastofnunarinnar IPPR, „Warm Words: How are we telling the climate story and can we tell it better?“ frá ágúst 2006 reyna Gill Ereaut og Nat Segnit að skilgreina vandamálin sem einkenna umræðuna um loftslagsbreytingarnar og skýra hvernig auðveldast sé að hvetja breskan almenning til frekari ábyrgðar. 5 Skýrsluhöfundarnir efast ekki um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á jörðinni, en óttast að hrakspárorðræðan grafi undan getu okkar til að grípa til aðgerða. Svo vitnað sé í orð Simons Retallack, sem réð Ereaut og Segnit til að vinna skýrsluna: „Almenningur hefur verið sviptur valdi vegna þess að málið virðist einfaldlega of stórt. Og þegar hlutir eru farnir að hljóma eins og vísindaskáldskapur verða þeir óraunverulegri en ella.“ 6 Slíka niðurstöðu vilja Ereaut og Segnit forðast í lengstu lög, því að þá sé verr farið af stað en heima setið.

Í tungumáli hrakspárinnar er ógninni er stafar að jarðlífi vegna loftslagshlýnunar komið afdráttarlaust til skila, eins og sést glögglega þegar litið er af handahófi á titla bóka sem snúast um sama efni og An Inconvenient Truth eftir Al Gore, s.s. Field Notes from a Catastrophe , Our Final Hour , Countdown to Apocalypse og The Suicidal Planet . Skýrasta dæmið er hugsanlega nýjasta bók vísindamannsins og umhverfisverndarsinnans James Lovelock, The Revenge of Gaia , eða Hefnd jarðarinnar , sem segir frá því „hvernig jörðin hefur snúist til varnar“ gegn rányrkju mannsins. Kápa Penguin-útgáfunnar sækir fyrirmyndir sínar í heimsslitamyndmál vísindaskáldskapar og jafnvel leturgerð káputextans minnir á slíkar bókmenntir. 7 Í verkum sem þessum er tungumálið þanið til hins ýtrasta, höfundar sækja í kvikmyndakóða máli sínu til stuðnings og orðræðan ber trúarlegan keim vegna þess hversu ríkulega hún vísar í dauða og tortímingu. „Við verðum að bregðast við núna“ er tónninn og hugtök eins og „hamfarir“, „ringulreið“ og „eyðilegging“ eru áberandi. Hrakspárorðræðunni er stundum ætlað að æsa í þessari mynd, hún tekur jafnvel á sig form „loftslagskláms“, 8 þar sem stuðst er við tungumál hasarmynda í þeim tilgangi að fanga alvarleika stöðunnar og lýsa sem best heimi á heljarþröm.

Leiðari breska blaðsins The Independent frá júlí 2006 er gott dæmi um texta sem mótaður er á forsendum kvikmyndalegrar heimsslitasýnar. Hann ber nafnið „Suðumark“ og bregður upp ægilegum afleiðingum gróðurhúsaáhrifa: „Og ástandið á aðeins eftir að versna. Loftslagsbreytingarnar eru hrollvekja sem bönnuð er öllum yngri en 18 ára. Það sem við upplifum núna er kynningarsýnishornið fyrir alla aldurshópa“. 9 Hrakspárorðræða sem sækir í afþreyingariðnað er ekki ný af nálinni. Í bók sinni Nightmare on Main Street ræðir Mark Edmundson vistfræðilegan hrylling sérstaklega og þá tilhneigingu fjölmiðla að fjalla um náttúruna og framtíð mannsins á jörðinni út frá heimsslitaforsendum, en þar er keppst við að draga upp sem myrkasta lýsingu á framtíð jarðarbúa. 1 0 Mannskepnunni er lýst eins og banvænum vírus í vistkerfinu, en svipaða strengi slá ýmis náttúruverndarsamtök og grasrótarhreyfingar sem láta sig umhverfismál varða – stundum vissulega með réttu.

Kvikmyndaframleiðendur hafa fært sér í nyt þá almennu ónotatilfinningu sem dómsdagsumræðan hefur vakið, en á síðustu árum hefur Hollywood sent frá sér fjölda mynda þar sem keppst er við að draga fram endalokin með sem eftirminnilegustum hætti. Nægir að nefna myndir þar sem jörðinni stafar hætta af yfirvofandi árekstri loftsteina ( Armageddon og Deep Impact , báðar frá 1998), myndir sem lýsa ógnvænlegum áhrifum loftslagsbreytinga ( Waterworld (1995) og The Day After Tomorrow (2004)) og myndir sem segja frá ægilegum vírusum sem hæglega geta eytt öllu mannkyni verði útbreiðsla þeirra ekki stöðvuð ( Outbreak (1995), 28 Days Later (2002) og 28 Weeks Later (2007)). Í inngangi að bók sinni um hamfarakvikmyndir, Visions of the Apocalypse , varpar Wheeler Winston Dixon fram þeirri spurningu hvort okkur „þyrsti í endalokin“, hvort einhvers konar hugfró búi í hugmyndum um algjöra útþurrkun, um yfirvofandi endi alls? Þá yrði loks fullkomnu jafnvægi komið á í hreyfingarleysi dauðans. 1 1

Eflaust búa ólíkar hvatir að baki hrakspárorðræðunni. Einhverjir fulltrúar hennar stýrast hugsanlega af örvandi dómsdagslosta sem kenna má við æsandi áhrif kláms, en flestir telja líklega að einvörðungu svo afdráttarlausar yfirlýsingar hristi nægilega upp í almenningi til að gripið verði til aðgerða. 1 2 Dómsdagslostinn tekur þó á sig aðrar og uggvænlegri myndir, því að umræðan um dómsdag er síst bundin við þá umhverfisverndarsinna sem hvað ákafastir eru í því að vilja forða jörðinni frá hamförum framtíðar. Dómsdagshóparnir eru nefnilega tveir. Báðir trúa því að róttækar breytingar á veðurfari muni ógna lífi mannsins á jörðinni, en bregðast við þeirri vissu með ólíkum hætti. Í fyrri hópnum eru þeir sem láta sig umhverfisvernd varða, í þeim síðari bókstafstrúarmenn sem bíða í ofvæni endurkomu Krists, þeirrar stundar þegar þeir verða hrifnir brott úr jarðlífinu áður en jörðin gengur í gegnum þrengingarnar miklu sem leiða til ragnaraka.

Burthrifningarstuðull dagsins er 166

Því hefur verið haldið fram að dómsdagsspá sé spá sem menn vilji ekki sjá rætast. Slík skilgreining passar fullkomlega þegar augum er beint að þeim hópum sem Egill Helgason gagnrýnir í bloggfærslum sínum, þeim umhverfisverndarsinnum sem hamra á hættunni sem fylgi andvaraleysi samtíðarinnar.

En ekki vilja allir dómsdagsprédikarar forða mannkyni frá endalokunum. Todd Strandberg er stofnandi heimasíðunnar Rapture Ready , en þar er að finna upplýsingar um þá ólíku váboða er marka upphaf endalokanna, þegar hinir sannkristnu verða hrifnir upp til himna á meðan stór hluti mannkyns situr eftir í þrengingunum miklu, ægilegum tíma sem varir í sjö ár, á meðan ríki Satans á jörðinni er óskorað. Rétt eins og hlutabréfatölur í kauphöllum skrá breytingar á markaði má á heimasíðu Rapture Ready fylgjast með líkunum á endalokunum, en á nokkurra daga fresti er burthrifningarstuðullinn ( the rapture index ) endurreiknaður með hliðsjón af ýmsum mikilvægum breytum, s.s. óróa á hlutabréfamörkuðum, stýrivöxtum, atvinnuleysi og efnahag, veðurfari, flóðum, þurrkum, jarðskjálftum og uppskerubresti. 1 3 Siðleysi og frjálslyndi eru einnig þekktir fyrirboðar endalokanna miklu, svo ekki sé minnst á eiturlyfjaneyslu, djöfladýrkun, falsspámenn og þá sem ranglega kalla sig hinn endurkomna Krist. Ef burthrifningarstuðullinn er undir 100 er heimsslitaólgan lítil, á milli 100 og 130 er hún í meðallagi og há ef hún nær tölum á bilinu 130 til 160. Þriðjudaginn 15. apríl 2008, þegar þessi orð eru skrifuð, er burthrifningarstuðullinn 166, nógu hár til þess að lesendum síðunnar er ráðlagt að festa sætisólarnar.

Því hefur oft verið haldið fram að burthrifningarhugmyndir séu sérstaklega hættulegar vegna þess að þeim fylgi ákveðið sinnuleysi til hérvistarinnar. Til hvers að vera að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, mengun, orkuforða jarðarinnar, hungursneyð eða öðru slíku? Sanntrúaðra bíður betra líf. Allar þessar hremmingar eru auk þess nauðsynlegur undanfari þess að Kristur snúi aftur og skapi mönnum sæluríki á jörðu. En er Todd Strandberg ekki bara sérvitringur sem óþarfi er að hafa áhyggjur af? Völd manna sem í ofanálag mistúlka spádóma Opinberunarbókarinnar geta ekki verið mikil í upplýstum samfélögum.

Raunin virðist önnur. Í könnun sem unnin var fyrir Time Magazine árið 2002 kom í ljós að 36% Bandaríkjamanna trúa því Biblían sé orð guðs og að hana beri að túlka bókstaflega. Auk þess trúa 59% því að atburðir Opinberunarbókarinnar eigi eftir að rætast og 35% sögðu að eftir hryðjuverkaárásirnar í New York 11. september 2001 settu þeir fréttirnar í samhengi við væntanleg endalok veraldarinnar. 1 4 Þegar burthrifningarstuðull Strandbergs náði sögulegu hámarki 24. sepember 2001, en þá var hann í 182, hrundi heimasíðan næstum undan álaginu, en 8 milljónir gesta heimsóttu hana þann daginn. Aðra vísbendingu um dómsdagsóra Bandaríkjamanna má merkja í vinsældum Left Behind bókaflokksins eftir Jerry B. Jenkins og Tim F. LaHaye, en hann fjallar eins og nafnið gefur til kynna um raunir þeirra sem skildir eru eftir þegar drottinn kallar hina sanntrúuðu til himna. Á heimasíðu bókaflokksins má finna þær upplýsingar að serían sé nú komin í 12 bindi og að fyrstu 10 hafi selst í yfir 55 milljónum eintaka frá árslokum 1995. Samkvæmt heimasíðunni seldist engin bók eins vel í heiminum á árinu 2001 og níunda bindi bókaflokksins, Desecration: Antichrist Takes the Throne . 1 5 Gera má ráð fyrir að salan hafi tekið töluverðan kipp upp úr miðjum september það ár. Þá eru ekki teknar með þær barnabækur og teiknimyndasögur sem byggja á seríunni, en fram til ársins 2002 höfðu þær selst í 18 milljónum eintaka. 1 6 Margir Bandaríkjamenn litu á hryðjuverkaárásirnar í New York sem teikn frá guði og Strandberg viðurkenndi að blendnar tilfinningar bærust í brjósti burthrifningarfólks: „Margir spádómslýsendur grétu að mínu mati krókódílatárum yfir ákveðnum atburðum [...] Í hjörtum sínum vita þeir að þetta styttir aðeins leiðina að dýpstu þrá þeirra“. 1 7

Þessi dómsdagstrú litar bandaríska stjórnmálaumræðu og ítrekað hefur verið bent á að hún stýri afstöðu stjórnarherranna í Washington til málefna Mið-Austurlanda, til framfara í læknavísindum og til umhverfismála. 1 8 Þegar Ronald Reagan varð forseti uxu mjög ítök bókstafstrúarmanna í Washington, sérstaklega þeirra kristnu zíonista sem trúðu því að spáð hefði verið fyrir um stofnun Ísraelsríkis og að endurkoma Gyðinga til fyrirheitna landsins flýtti ragnarökum og endurkomu frelsarans. Hér má nefna innanríkisráðherrann James Watt sem er hvítasunnumaður, en hann sagðist ekki vita „hversu margar kynslóðir við getum treyst á áður en Drottinn snýr aftur,“ 1 9 og varnarmálaráðherrann Caspar Weinberger sem trúði því að dagar okkar væru taldir og að lokunum hefði verið spáð í Opinberunarbókinni. 2 0 Vegur bókstafstrúarmanna hélt áfram að vaxa í bandarískum stjórnmálum á tíunda áratugnum. Tveir forsetaframbjóðendur repúblikanaflokksins, Pat Robertson og John Ashcroft, koma úr hópi þeirra, en George W. Bush gerði Ashcroft að yfirmanni dómsmálaráðuneytisins 2001 þegar hann hafði verið úrskurðaður forseti. 2 1

Í greininni „The Godly Must Be Crazy“ bendir Glenn Scherer á að þeir bandarískir stjórnmálamenn sem mest fylgi hafa meðal hægri sinnaðra bókstafstrúarhópa (t.d. the Christian Coalition, Eagle Forum og Family Resource Council) eru einnig þeir sem versta útreið fá hjá umhverfisverndarhreyfingum. 2 2 Af 45 öldungardeildarmönnum og 186 fulltrúadeildarþingmönnum sem fengu 80–100% fylgi meðal bókstafstrúarhópanna voru aðeins örfáir sem náðu yfir 10% stuðningi hjá umhverfisverndarsamtökunum League of Conservation Voters. Aðeins fimm þessara þingmanna eru ekki repúblikanar og þingmennirnir 231 töldust meira en 40% af heildarfjölda þingmanna á árinu 2004. Í þessum hópi eru ýmsir valdamestu einstaklingar bandarískra stjórnmála, menn sem láta til sín taka í umhverfisumræðunni, t.d. Bill Frist, Mitch McConnell, Rick Santorum, Jon Kyl, James Inhofe, Tom DeLay, Dennis Hastert, Roy Blunt, John Ashcroft, svo ekki sé minnst á forsetann sjálfan, George W. Bush, en hann nýtir sér reglulega sérþekkingu heimsslitaprédikara þegar kemur að málefnum Ísraels. 2 3 Það var til bókstafstrúarhópanna sem Karl Rove biðlaði í kosningunum 2004, en markmið hans var að fá a.m.k. 20 milljónir þeirra að kjörborðinu til þess að tryggja áframhaldandi setu Bush í Hvíta Húsinu.

Stærsta martröð umhverfisverndarhreyfingarinnar

Þáttastjórnandinn Egill Helgason hvetur þá sem vilja fræðast um kenningar er lúta að hlýnun jarðar að sækja sér ýmsar skýrslur um efnið sem bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn James Inhofe lét safna saman, en Inhofe hefur verið kallaður stærsta martröð umhverfisverndarhreyfingarinnar. 2 4

Inhofe, sem var um nokkurt skeið formaður Umhverfisnefndar Bandaríkjaþings, varð heimsfrægur árið 2003 þegar hann lýsti því yfir að margt benti til þess að „hnattræn hlýnun væri stærsta gabb sem borið hefði verið á borð fyrir bandarísku þjóðina“. 2 5 Inhofe er kristinn zíonisti og það er til marks um stöðu hans innan bandarískra bókstafstrúarhreyfinga að árið 2003 hlaut hann 100% stuðning hjá öllum þremur samtökum kristnu harðlínunnar, á meðan stuðningurinn hjá League of Conservation Voters var aðeins 5% (hann hlaut 0 nokkur ár í röð milli 1997 til 2002). 2 6 Inhofe hefur lýst því yfir að í Bíblíunni sé að finna svör við öllum þeim vandamálum sem geta komið upp í málefnum ríksins. Ýmis dæmi eru um það hvernig bókstafstrú Inhofes stýrir hugmyndum hans í utanríkismálum og hann er harður stuðningsmaður forsetaframbjóðandans og trúarleiðtogans Pats Robertson sem er mikill heimsslitafræðingur og skrifaði skáldsöguna The End of the Age (1996) um ríki Satans á jörðinni hina hinstu daga. Þó hefur Inhofe verið tregur til að upplýsa hvernig Biblían móti afstöðu hans til umhverfismála. Þegar blaðamaðurinn Glenn Scherer spurði hann hvort heimsslitahugmyndir hefðu áhrif á formannsstarf hans í valdamestu umhverfisnefnd heims svaraði hann með þögninni einni.

Ein af stóru þversögnunum í viðhorfi margra bókstafstrúarhópa til nýtingar náttúrunnar felst í því að þeir hafna hugmyndinni um takmarkaðar auðlindir jarðar en túlka um leið varnaðarorð vísindasamfélagsins sem vísbendingu um að nú séu endalokin í nánd. 2 7 Strandberg, sem hefur skrifað margar greinar um efnið, er ágætur fulltrúi þessarar þversagnar. Í greininni „Biblíuspádómar og umhverfisverndarstefna“ segir hann ásakanir frjálslyndra umhverfisverndarsinna fáránlegar, hreyfing þeirra sé pólitísk og eigi rætur í nýmarxisma. Strandberg varar trúsystkini sín eindregið við því að falla fyrir þessari hugmyndafræði sem eigi engan samhljóm með Biblíunni. Þau eigi að huga að sáluhjálp sinni og láta Guð um jörðina. Þar sem hún eyðist brátt sé óþarfi að bindast henni of föstum böndum. 2 8 Í annarri bloggfærslu sem ber nafnið „Hnattræn hlýnun og hinstu dagar“ sést hversu vel Strandberg er inni í umræðunni og að hann tekur mark á niðurstöðum vísindasamfélagsins. Hann segir: „Persónuleg sýn mín á loftslagsbreytingar er myrkari en flestra harðlínumanna í umhverfisverndarhreyfingunni. Jörðin er flókin vél er sýnir hæfni Guðs. Athafnir mannsins geta vel gert það að verkum að þetta flókna tæki hrynji algjörlega“. 2 9 Í sömu færslu heldur hann því fram að Al Gore sé trúarleiðtogi umhverfisverndarhreyfingarinnar og óttast að markmiðið hennar sé að sameina mannkyn gegn kapítalisma og guði, en hann er þess fullviss að djöfullinn sé leiðandi afl í þeirri baráttu.

Af þessu má vera ljóst að dómsdagshugmyndir lita viðhorf manna til loftslagsvísinda á tvo vegu. Munurinn á hópunum tveimur liggur í afstöðunni til spárinnar. Annar hópurinn setur hana fram í þeirri von að þá megi forða mannkyni frá fullnustu hennar. Hinn er gagntekinn af eftirvæntingu. 3 0

1 Svar Egils er að finna í ummælahluta bloggfærslunnar„Er heimilt að gagnrýna fræðin“ (8.4.). Sjá: http://eyjan.is/silfuregils/2008/04/08/er-heimilt-ad-gagnryna-fraedin/ [Allar netfréttir og –greinar sem vísað er til hér á eftir voru á netinu 15. apríl 2008].

2 Egill kallaði varaforsetann fyrrverandi loddara (charlatan) í samræðum sínum við Glúm Jón Björnsson, ritstjóra frjálshyggjutímaritsins Vef-Þjóðviljans, í Silfri Egils 6. apríl 2008.

3 Sjá bloggfærslur Egils: „New Statesman um mansal og hlýnun jarðar“ (31.3.), „Fræði Als Gore“ (2.4.), „The Gore Effect“ (3.4.), „Tveir jöfrar“ (4.4.), „Litla ísöldin“ (4.4.), „Heimsslit“ (8.4.) og „Er heimilt að gagnrýna fræðin“ (8.4.). Færslurnar má allar nálgast á: http://www.eyjan.is/silfuregils/

4 Sjá bloggfærslu Egils Helgasonar „Heimsslit“ frá 8. apríl 2008. http://eyjan.is/silfuregils/2008/04/08/heimsslit/#comments.

5 Gill Ereaut og Nat Segnit: „Warm Words: How are we telling the climate story and can we tell it better?“ Institute for Public Policy Research (www.ippr.org), ágúst 2006. Nákvæmari greiningu á hrakspárorðræðunni má finna í grein minni „Nú er úti veður vont: Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“ sem birtist í Ritinu 1/2007 [7. árg.], bls. 5-44, sjá sérstaklega bls. 12-18.

6 „Media attacked for ´climate porn´. Sjá BBC NEWS, 2. ágúst 2006, http://www.bbc.co.uk/.

7 Elizabeth Kolbert: Field Notes from a Catastrophe: Man, Nature, and Climate Change (New York og London: Bloomsbury, 2006); Sir Martin Rees: Our Final Hour: A Scientist's Warning (New York: Basic Books 2003); Paul Halpern: Countdown to Apocalypse: A Scientific Exploration of the End of the World (Cambridge, Massachusetts: Perseus Publishing, 1998); Mayer Hillman, Tina Fawcett og Sudhir Cella Rajan: The Suicidal Planet: How to Prevent Global Climate Catastrophe (New York: Thomas Dunne Books, 2007); og James Lovelock: The Revenge of Gaia (London: Penguin Books, 2007).

Í viðtali Decca Aitkenhead við Lovelock í breska blaðinu The Guardian segir hann hvarfpunktinn þegar kominn, ekkert sem við gerum eigi eftir að koma í veg fyrir hamfarir sem muni þurrka út 80% af mannkyni. Því getum við allt eins notið stundarinnar áður en allt er um seinan. Sjá „Enjoy life while you can“. The Guardian, 1. mars 2008: http://www.guardian.co.uk/theguardian/2008/mar/01/scienceofclimatechange.climatechange.

8 Þessi ábending Ereaut og Segnit var víða tekin upp í umfjöllun um skýrsluna, m.a. á fréttavef BBC: „Media attacked for ´climate porn´. Sjá BBC NEWS, 2. ágúst 2006, http://www.bbc.co.uk/.

9 „Boiling point“, The Independent, 30. júlí 2006. Sjá: http://comment.independent.co.uk/leading_articles/article1204438.ece.

10 Mark Edmundson: Nightmare on Main Street: Angels, Sadomasochism, and the Culture of Gothic. Cambridge: Harvard University Press, [1997] 1999, bls. 27.

11Sjá Wheeler Winston Dixon: Visions of the Apocalypse: Spectacles of Destruction in American Cinema. London og New York: Wallflower Press, 2003, bls. 2-3.

12 Ian Birrell, aðstoðarritstjóri Independent, segir t.d. loftslagsbreytingarnar svo alvarlegan hlut að þær réttlæti fréttaflutning af þessu tagi. Sjá áðurnefnda frétt BBC „Media attacked for ´climate porn´, frá 2. ágúst 2006.

13 The Rapture Index: http://www.raptureready.com/rap2.html.

14 Nancy Gibbs: „Apocalypse Now“. Time, 23. júní 2002. Sjá: http://www.time.com/time/magazine/article/0,9171,1101020701-265419,00.html.

15 Sjá Left Beind Series: http://www.leftbehind.com/channelbooks.asp?channelID=95.

16 Gibbs: „Apocalypse Now“. Time, 23. júní 2002.

17 Sama.

18 George Monbiot: „Bring on the Apocalypse“ í Bring on the Apocalypse. London: Atlantic Books, 2008, bls. 9-12 (birtist fyrst í The Guardian 20. apríl 2004 undir nafninu „Their beliefs are bonkers, but they are at the heart of power: US Christian fundamentalists are driving Bush's Middle East policy“) [sjá http://www.guardian.co.uk/world/2004/apr/20/usa.uselections2004]; Karen Armstrong: „Bush's fondness for fundamentalism is courting disaster at home and abroad“, The Guardian 31. júlí 2006 [http://www.guardian.co.uk/commentisfree/story/0,,1833810,00.html]; og Saul Friedman: „Bush's fundamentalism seen as a decisive, negative factor in his policies“ í Nieman Watchdog: Questions the press should ask (Nieman Foundation for journalism at Harvard University) 4. ágúst 2006 [http://www.niemanwatchdog.org/index.cfm?backgroundid=114&fuseaction=Background.view].

19 James Watt var ranglega ásakaður um að hafa haldið því fram í ræðu á Bandaríkjaþingi 5. febrúar 1981 að óþarfi væri að fara varlega með náttúruauðlindirnar þar sem Kristur væri í vændum. Þessi villa hefur farið víða og má m.a. finna í bók Simon Pearson: The End of the World: From Revelation to Eco-Disaster. London: Robinson, 2006, bls. 281.

20 Gibbs: „Apocalypse Now“. Time, 23. júní 2002.

21 Sjá frekar í grein Kevin Philips: „Theocons and Theocrats“ í The Nation, 1. maí 2006: http://www.thenation.com/doc/20060501/phillips.

22 Glenn Scherer: „The Godly Must Be Crazy: Christian-right views are swaying politicians and threatening the environment“, 27. október 2004. Grist: Environmental News and Commentary. Sjá: http://www.grist.org/news/maindish/2004/10/27/scherer-christian/.

23 Rick Perlstein: „The Jesus Landing Pad: Bush White House checked with rapture Christians before latest Israel move“. The Village Voice, 11. maí 2004. Sjá: http://www.villagevoice.com/news/0420,perlstein,53582,1.html.

24 Sjá í ummælahluta Egils Helgasonar við færsluna „Er heimilt að gagnrýna fræðin?“ http://eyjan.is/silfuregils/2008/04/08/er-heimilt-ad-gagnryna-fraedin/. Egill hvetur menn til þess að lesa „the Inhofe EPW Press Blog“ sem finna má á heimasíðu U.S. Senate Committee on Environment & Public Works. Sjá:

http://epw.senate.gov/public/index.cfm?FuseAction=Minority.Blogs&ContentRecord_id=84E9E44A-802A-23AD-493A-B35D0842FED8.

25 Ræðu Inhofes „The Science of Climate Change“ má nálgast hér: http://inhofe.senate.gov/pressreleases/climate.htm.

26 Sjá frekar í Glenn Scherer: „The Godly Must Be Crazy“.

27 Scherer tekur sem dæmi kennslubókina America's Providential History eftir Mark Beliles og Stephen

28 Todd Strandberg: „Bible Prophecy and Environmentalism“. Sjá: http://www.raptureready.com/rr-environmental.html.

29 Strandberg: „Global Warming and the End Times“. Sjá: http://www.raptureready.com/nm/130.html. Önnur fróðleg grein er eftir Terry James: „End-Time Economy: Forecast of Last-Days Indicators“. Sjá: http://www.raptureready.com/terry/end-time-economy.html.

30 Nú eru loks farin að sjást merki þess að einingin innan bókstafstrúarhópanna sé að gefa sig, en árið 2006 töldu 68% af hvítum meðlimum evangelísku kirkjuhreyfingarinnar í Bandaríkjunum að hnattræn hlýnun væri alvarlegt vandamál. Richard Cizik sem er einn valdamesti talsmaður hreyfingarinnar lýsti því einnig yfir í ágúst á síðasta ári, að James Inhofe væri versti fljótabátafjárhættuspilari sögunnar fyrir að segja hnattræna hlýnun mesta „gabb sem borið hefði verið á borð fyrir bandarísku þjóðina“. Sjá frétt Christina Caron á ABC News, „Evangelicals Go Green -- Will Conservative Candidates Follow Suit?: Some Christians Lead the Charge in Environmental Policy“ 23. ágúst 2007: http://abcnews.go.com/print?id=3511781

Höfundur er dósent í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.