Íslands- og bikarmeistarar Víkings í knattspyrnu, handknattleik og blaki: Meistaraflokkur karla í knattspyrnu: Íslandsmeistarar: 1920, 1924, 1981, 1982, 1991. Bikarmeistarar: 1971.

Íslands- og bikarmeistarar Víkings í knattspyrnu, handknattleik og blaki:

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu: Íslandsmeistarar: 1920, 1924, 1981, 1982, 1991. Bikarmeistarar: 1971.

Meistaraflokkur karla í handknattleik: Íslandsmeistarar: 1975, 1980, 1981, 1982, 1983, 1986, 1987. Bikarmeistarar: 1978, 1979, 1983, 1984, 1985, 1986.

Meistaraflokkur kvenna í handknattleik: Íslandsmeistarar: 1992, 1993 og 1994. Bikarmeistarar: 1994.

Meistaraflokkur kvenna í blaki:

Íslandsmeistarar: 1975, 1980, 1981, 1987, 1989, 1991, 1993, 1998. Bikarmeistarar: 1980, 1989, 1990, 1991, 1993, 1995.

Strákafélag

»Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað í kjallaranum að Túngötu 12 hinn 21. apríl árið 1908, en þar átti Emil Thoroddsen átti heima. Á fundinn mættu 32 drengir.

»Aðalhvatamenn og í fyrstu stjórn voru Axel Andrésson, þá 12 ára gamall, formaður, Emil Thoroddsen 9 ára, ritari, og Davíð Jóhannesson, 11 ára, gjaldkeri, hinir stofnendurnir voru Páll bróðir Axels 8 ára og Þórður Albertsson 9 ára.

»Tilgangurinn með stofnun félagsins var að spila fótbolta og til að fjármagna kaup á bolta. Víkingar iðkuðu íþrótt sína gjarnan fyrstu árin á gulllóðinni sem svo var kölluð, en þar stendur hús Oddfellow-reglunnar.

»Nýjabæjartúnið var sömuleiðis vinsæll vettvangur og þar var oft keppt við Fótboltafélag Miðbæinga, en meðlimir þess munu um 1912 hafa gengið í raðir Víkinga.

»Fyrsti gjaldkerinn særði tveggjeyringa og fimmeyringa upp úr vösum félagsmanna þar til hafðist að mestu fyrir fyrsta boltanum, en Egill Jacobsen kaupmaður er talinn hafa hjálpað til með það sem upp á vantaði.

»Víkingsstrákarnir áttu fyrstu árin flestir heima á Suðurgötu, Tjarnargötu og neðsta hluta Túngötu í hjarta bæjarins.

»Knattspyrnufélagið Fram var stofnað nokkrum dögum á eftir Víkingi og voru mikil tengsl á milli félaganna, en Framarar voru flestir 2–4 árum eldri.

»Árið 1914 vann Víkingur KR 2-1 í fyrsta opinbera kappleik félagsins á móti Ungmennafélags Íslands. Verðlaunaskjalið er geymt í Víkinni.

»Kvennaknattspyrna var æfð innan vébanda Víkings þegar á fyrstu árunum og árið 1915 æfði stór hópur stúlkna í miðbænum undir stjórn Axels. Ætlan þeirra var að stofna fyrsta kvennaknattspyrnulið landsins.

Taplausir

»Meðal stúlkna sem á þessum tíma æfðu knattspyrnu hjá Víkingi má nefna Ásthildi Jósefsdóttur Bernhöft, Svövu Blöndal, Ragnheiði og Elínu Hafstein, Margréti Thors og Emilíu og Önnu Borg.

»Piltalið Víkings tapaði ekki opinberum knattspyrnuleik frá stofnun 21. apríl 1908 til 16. júní 1918 og skoraði 58 mörk gegn 16.

»Víkingur tók fyrst þátt í Íslandsmóti karla í knattspyrnu árið 1918.

»Víkingur vann Íslandsmótið í fyrsta skipti árið 1920 og aftur 1924.

»Meðal leikmanna í meistaraliðum Víkings 1920 og 1924 má nefna Helga Eiríksson, Óskar Norðmann, Einar Baldvin Guðmundsson, Pál Andrésson, Þórð Albertsson, Halldór Halldórsson, Gunnar Bjarnason, Hall Jónsson, Ágúst Jónsson, Harald Aspelund, Sigurð Waage, Magnús Brynjólfsson , Val Gíslaon, Halldór Sigurbjörnsson, Sverri Forberg og Jakob Guðjohnsen.

»Tennis var stundaður innan Víkings á árunum fyrir og um 1930. Agnar Klemens Jónsson var einn helst hvatamaður þess og Gísli Sigurbjörnsson var kosinn vallarstjóri tennisvallar á Sólvöllum.

»Fyrsta erlenda knattspyrnuliðið sem heimsótti Ísland var Akademisk Boldklub frá Danmörku í ágústmánuði 1919. Tveir Víkingar voru í úrvalsliðinu sem lagði Danina 4:1 í sögufrægum leik, þeir Óskar Norðmann og Páll Andrésson.

»Fimm Íslandsmót í röð, 1932-36, fékk Víkingur ekki stig í móti elsta aldursflokks í knattspyrnu.

»Þorsteinn Ólafsson tannlæknir sagði eitt sinn frá því að þegar hann var 13 ára árið 1933 hefði hann þurft að leika með þremur flokkum sama daginn. Með 3. flokki kl. 10 á sunnudagsmorgni, klukkan 14 hófst leikur með 2. flokki og klukkan 20.30 með 1. flokki.

»Víkingar urðu Reykjavíkurmeistarar í knattspyrnu 1940.

»Þorbjörn Þórðarson, sem var formaður Víkings 1943–1944, gerði Víkingsmerkið.

»Víkingurinn Brandur Brynjólfsson var fyrsti fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, en fyrsti landsleikurinn var gegn Dönum árið 1946.

»Guðjón Einarsson, sem lengi var formaður Víkings, fékk fyrstur Íslendinga réttindi sem milliríkjadómari í knattspyrnu, árið 1946.

»Víkingurinn Agnar Klemens Jónsson var fyrsti formaður KSÍ og Víkingurinn Árni Árnason var fyrsti formaður HSÍ.

Deildir

»Á aðalfundi Víkings 1943 var samþykkt tillaga um að starfsemi félagsins yrði skipt upp í þrjár deildir: knattspyrnudeild, skíðadeild og deild handknattleiks og frjálsra íþrótta.

»Árið 1938 hófust æfingar í handbolta í Víkingi. Víkingur sá um framkvæmd fyrsta Íslandsmótsins í handknattleik árið 1940.

»Árið 1945 fór fyrsta Reykjavíkurmótið fram á Hálogalandi, en þessi braggi var áður í eigu bandaríska hersins og kallaðist þá Andrew's Hall.

»Víkingur sendi tvö stúlknalið til keppni á þessu móti, auk karlaliða.

»Veturinn 1946 varð Víkingur í fyrsta sinn Íslandsmeistari í handbolta er liðið sigraði í 2. flokki.

»Byggingu skíðaskála var fyrst hreyft á aðalfundi Víkings 1939 af Gunnari Hannessyni, Agnari Lúðvíkssyni og fleirum.

Á brattann

»Alexander Jóhannsson, formaður skíðanefndar, afhenti félaginu fullbúinn skála í Sleggjubeinsskarði, skammt frá Hellisheiðarvirkjun, á aðalfundi Víkings 1944.

»Gamli skálinn í Sleggjubeinsskarði brann til kaldra kola á páskum 1964. Um 50 manns voru í skálunum og þótti mildi að ekki urðu alvarleg slys.

»Nýr skíðaskáli var reistur í Sleggjubeinsskarði, en síðustu ár hefur starf skíðadeildar að mestu verið í Bláfjöllum og þar var fyrir 10 dögum tekin skóflustunga að nýjum skála.

»Víkingar héldu félags- og stjórnarfundi út um allan bæ fyrstu áratugina. Ein fundargerð stjórnar frá 1948 hefst á þessum orðum: „Fundur var haldinn í bílnum R-2438...“

»Fyrstu 40 árin í sögu Víkings hafði félagið ekki yfir eigin félagsaðstöðu að ráða. Árið 1946 tók félagið á leigu fyrrverandi „Iglo officers club“ í Camp Tripoli fyrir félagsheimili og fékk einnig loforð um landspildu sunnan Háskólans.

»Víkingur fékk um 1950 úthlutað svæði við Njarðargötu, en það þótti ófullnægjandi.

»Formlega var fulltrúaráð stofnað í Víkingi 17. október 1954, en slíkt hafði þá verið til umræðu í nokkur ár í félaginu, Meðal þeirra sem gerðust ævifélagar í fulltrúaráðinu í upphafi með þúsund króna gjaldi voru þeir Þorlákur Þórðarson og Geir Hallgrímsson, borgarstjóri og forsætisráðherra.

»Fyrstu Íslandsmeistarar Víkings í handbolta voru leikmenn 2. flokks karla árið 1946.

»Veturinn 1957-58 sendi Víkingur í fyrsta skipti kvennaflokka til keppni á Íslandsmóti í handbolta.

Nýtt land

»Á stjórnarfundi í Víkingi 19. ágúst 1952 mælti Gunnlaugur Lárusson, þá gjaldkeri, eitthvað á þessa leið: Svæðið í Vatnsmýrinni er ónothæft, ekki vegna stærðarinnar, heldur vegna staðarins. Ég legg til og mæli eindregið með að athugað verði strax hvort annað svæði í einu af nýju úthverfum bæjarins sé fáanlegt...“

»27. febrúar 1953 samþykkti Bæjarráð Reykjavíkur að úthluta Víkingi félagssaðstöðu milli Hæðargarðs og Breiðagerðisskóla. Þá um haustið tók Axel Andrésson fyrstu skóflustungu að félagsheimili við Hæðargarð, þar sem varð ný vagga félagsins.

» Fyrsti malarvöllurinn var vígður að Hæðargarði árið 1959. Grasvöllur var síðan tekinn í notkun í Hæðargarði á árinu 1976.

»Árið 1961 varð Víkingur Íslandsmeistari í 5. flokki í knattspyrnu undir stjórn Eggerts Jóhannessonar. Þar með má segja að starfið í Bústaða- og Smáíbúðahverfum hafi verið farið að bera ávöxt.

»Deildakeppni í knattspyrnu var tekin upp árið 1955 og ári síðar féll Víkingur niður í 2. deild. Liðið komst ekki í 1. deild fyrr en árið 1969 eftir spennandi úrslitaleik við Breiðablik. Víkingur vann 3-2 og skoruðu Jóhannes Tryggvason og Hafliði Pétursson tvívegis úr vítaspyrnum.

»Eitt af fyrstu verkefnum Jóns Aðalsteins Jónassonar sem formanns Víkings var að gangast fyrir stofnun nýrra deilda. Í júní 1973 voru stofnaðar deildir fyrir badminton, blak og borðtennis. Síðar sama ár var kvennadeild stofnuð og Göngu-Víkingar 1977. Aðeins borðtennisdeildin er nú starfandi.

»Rannveig Laxdal var fyrsta landliðskona Víkings í handbolta.

Sigrar

»Rósmundur Jónsson varð fyrsti landsliðsmaður Víkings í handbolta. Rósmundur var valinn í landsliðið í handbolta sem útileikmaður árið 1963, en markvörður landsliðsins var hann 12 árum síðar, árið 1975.

»Blakdeild var í mörg ár öflug í Víkingi og fyrsta Íslandstitilinn færðu blakstúlkur Víkingi 1975.

»Fyrstu Íslandsmeistaratitlar fullorðinna í borðtennis komu árið 1982 er Stefán Konráðsson vann í einliðaleik og hann ásamt Hilmari Konráðssyni í tvíliðaleik.

»Lára Herbjörnsdóttir var fyrsti formaður Kvennadeildar Víkings, en hún er meðal heiðursfélaga í Víkingi.

»Árið 1971 varð Víkingur bikarmeistari í knattspyrnu, en lið úr 2. deild hafði ekki áður unnið þennan eftirsótta titil. Jón Ólafsson skoraði eina markið í úrslitaleiknum gegn Breiðabliki.

»Við kjör á íþróttamanni árins 1971 varð Gunnar Gunnarsson, fyrirliði, í 10. sæti.

»Langþráðri bið Víkinga lauk árið 1975 er Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik.

»Diðrik Ólafsson var fyrirliði íslandsmeistara Víkings í knattspyrnu árið 1981, en þá voru 57 ár frá því að Víkingur hafði staðið í þessum sporum

»Útvarps- og sjónvarpsmaðurinn Heimir Karlsson varð Íslandsmeistari með Víkingi bæði í handknattleik og knattspyrnu 1981 og 1982,

»Karl Benediktsson þjálfaði íslandsmeistara Víkings í handbolta 1975. Bogdan Kowalczyk hóf störf hjá Víkingi 1978.

»Páll Björgvinsson var útnefndur íþróttamaður Reykjavíkur árið 1982 og tók við viðurkenningunni úr hendi Davíðs Oddssonar, þáverandi borgarstjóra.

»Framkvæmdastjóri Víkings er Örn Ingólfsson og hefur hann starfað hjá félaginu frá árinu 1998. Þórarinn Egill Sveinsson tekur við sem framkvæmdastjóri 1. maí nk.

»Árið 1976 var Víkingi úthlutað félagssvæði í Fossvogi.

»Byrjað var að ræsa fram svæðið og girða árið 1981. Rúmum þremur árum seinna gátu knattspyrnumenn hafið æfingar á grasi í Fossvoginum.

»Byrjað var á framkvæmdum við íþróttahúsið í Fossvogi í febrúar 1991. Húsið var, ásamt félagsheimili, vígt til notkunar í október sama ár.

»Húsnæðið fékk nafnið Víkin og lýsir þeim stað þar sem víkingar til forna lögðu skipum sínum, söfnuðu kröftum, öfluðu vista og æfðu vopnfimi áður en þeir héldu á ný í víking.