21. apríl 2008 | Íþróttir | 907 orð | 1 mynd

Það var einfaldlega uppselt á alla leiki hjá Víkingi

Stórskytta Viggó Sigurðsson.
Stórskytta Viggó Sigurðsson.
VIGGÓ Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður og landsliðsþjálfari í handknattleik, lék með gullaldarliði Víkings sem landaði fyrsta Íslandsmeistaratitli Víkings í handknattleik árið 1975.
VIGGÓ Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður og landsliðsþjálfari í handknattleik, lék með gullaldarliði Víkings sem landaði fyrsta Íslandsmeistaratitli Víkings í handknattleik árið 1975. Eftir það tók við nánast óslitin sigurganga næstu tíu árin, en þá sigraði Víkingur ávallt í deild eða bikar. Þegar Morgunblaðið bað Viggó að rifja upp þessa gullöld Víkings, þá segir hann Karl Benediktsson hafa komið með hugarfarsbreytingu inn í félagið og Bogdan Kowalczyk hafi í beinu framhaldi tekið við keflinu og búið til lið sem hafði getu til að verða Evrópumeistari.

Eftir Kristján Jónsson kris@mbl.is
Viggó hóf sinn handknattleiksferil hjá Fram enda bjó hann í Lauganesinu. Þegar komið var fram í 2. flokk skipti Viggó yfir í Víking enda var faðir hans mikill stuðningsmaður Víkings. Viggó minnst þess að faðir hann hafi sótt það mjög stíft að strákurinn færði sig um set: ,,Pabbi var Víkingur og var formaður handknattleiksdeildarinnar. Ég hef oft sagt frá því að hann setti mér þá afarkosti að annaðhvort færi ég í Víking eða ég borgaði sjálfur matinn heima hjá mér. Hann sá að við bræðurnir gátum eitthvað en við skiptum báðir yfir í Víking en bróðir minn Jón G. lék með Þrótti. Ég byrjaði 17 ára í meistaraflokki eða í kringum 1972.

Karl tók út meðalmennskuna

Árið 1975 verður ákveðinn vendipunktur í handboltanum hjá Víkingi þegar Karl Benediktsson tók við þjálfun meistaraflokks. Þá varð alger viðhorfsbreyting og hann byrjaði að láta okkur æfa tvisvar á dag á undirbúningstímabilinu. Víkingur hafði verið í ströggli þessi ár á undan og vorum alltaf að berjast við ÍR og Ármann um að halda okkur uppi í deildinni. En þetta ár verðum við meistarar nokkuð óvænt og það var í fyrsta skiptið sem Víkingur vann mótið. Við vörðum titilinn árið eftir og síðan kom Bogdan og tók við stjórninni. Karl tók út þessa meðalmennsku sem ríkt hafði hjá félaginu og kom með hugarfar sigurvegarans.

Við vorum með stóran hóp leikmanna og sem dæmi vorum við eitt sinn með fimmtán manna hóp þar sem fjórtán höfðu spilað landsleik. Þarna voru Páll Björgvinsson, Þorbergur Aðalsteinsson, Ólafur Jónsson, Árni Indriðason og Sigurður Gunnarsson. Kristján Sigmundsson og Ellert Vigfússon voru saman í markinu. Guðmundur Guðmundsson tók við af Ólafi í horninu. Þetta voru feikilega sterkir leikmenn. Kalli og Bogdan breyttu leikmönnunum úr þokkalegum handknattleiksmönnum í landsliðsmenn. Þegar Bogdan kom æfðum við kannski þrefalt meira en áður.“

Rígurinn við Val risti djúpt

Á þessum árum voru Valsmenn einnig með geysilega sterkt lið og mikil samkeppni var á milli félaganna. Þegar Viggó er spurður út í þann ríg sem var á milli liðanna þá segir hann það í raun hafa verið líkara hatri: ,,Fyrir mér er eftirminnilegasti leikurinn með Víkingi þegar við spiluðum úrslitaleik Íslandsmótsins gegn Val 1975. Sá leikur stendur alltaf upp úr. Hálfleikstölurnar voru 6:3 að mig minnir og þetta voru bara slagsmál. Barátta upp á líf og dauða. Við unnum þá 14:11 og vorum eiginlega með sigurinn allan tímann. Þetta er náttúrulega eftirminnilegasti leikurinn á ferlinum fyrir mig, ásamt útisigri með Barcelona á Atletico Madrid árið 1980. Þar tryggðum við okkur Spánarmeistaratitilinn og ég skoraði þrettán mörk í leiknum af tuttugu og sex. Barcelona hafði ekki unnið í Madrid í sextán ár enda var Atletico Evrópumeistari á þeim tíma.

Varðandi Valsleikinn þá var Laugardalshöllin troðfull af áhorfendum en á þessum tíma var einfaldlega uppselt á leikina. Það var geysilegur rígur á milli liðanna og nánast hatur. Það risti mjög djúpt og þessi lið börðust í mörg ár. Þá var líka annað umhverfi en í dag. Menn skiptu ekkert á milli þessara félaga. Þú varst einfaldlega brennimerktur ef þú fórst úr Víking í Val.

Æfðum eins og atvinnumenn

Þegar maður hugsar til baka þá held ég að við höfum ekki áttað okkur á því hversu sterkir við vorum. Það voru ekki þessi miklu samskipti sem eru í dag og ef við hefðum áttað okkur á því að við ættum möguleika á því að vinna einhverja af þessum Evrópukeppnum þá hefðum við klárað það. Því við æfðum á þeim tíma eins og atvinnumannalið æfa í dag. Menn hentu öllu öðru til hliðar.“

Það er ekki furða að Viggó haldi slíku fram vegna þess að Víkingar voru alltaf að falla úr Evrópukeppnum á þessum tíma með minnsta mögulega mun gegn öflugum liðum. Auk þess lenti liðið í furðulegum uppákomum og þar stendur hæst þegar liðið var einfaldlea dæmt úr keppni árið 1978: ,,Þá unnum við sænska liðið Ystad í báðum leikjunum. Menn fundu tilbúna ástæðu til þess að dæma okkur úr keppni, sem snérist um að menn fóru út að skemmta sér eftir sigurinn. Vorum kærðir af sænskum stjórnarmanni í alþjóða-handknattleikssambandinu og dæmdir úr keppni. Ég lýsi þessu bara sem ofbeldi og spillingu. Það var ekkert hægt að gera og dómurinn var bara endanlegur. Þetta ristir ennþá djúpt í mínum huga. Það kom reyndar vel á vondan því Ystad fékk ekki að halda áfram í keppninni. Oft vantaði okkur herslumuninn í Evrópuleikjum þrátt fyrir að alltaf væru menn úr liðinu að fara utan í atvinnumennsku.“

Kvaddi með sigri

Frá 1979 til 1983 lék Viggó með Barcelona og Leverkusen en sneri þá aftur heim. Viggó var fyrsti erlendi handknattleiksmaðurinn til að leika á Spáni. Hann lauk ferlinum með Víkingi og kveðjuleikur hans var sigur í bikarúrslitum gegn FH árið 1985. Þá var Viggó einungis 32 ára gamall en sneri sér þá að þjálfun sem hann hefur sinnt nánast sleitulaust síðan. ,,Maður átti svo sem nóg eftir. Ég var nú tekinn úr umferð í þessum úrslitaleik gegn FH og það segir kannski eitthvað.“

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.