Veiðimaður Reynir notar sérstakan síufork til að hreinsa úr minkasíunum. Í þessari síu var einn steggur og grindin sést á bakkanum.
Veiðimaður Reynir notar sérstakan síufork til að hreinsa úr minkasíunum. Í þessari síu var einn steggur og grindin sést á bakkanum. — Ljósmynd/Guðni Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is Minkurinn er boðflenna í íslenskri náttúru og þykir mörgum hann hafa unnið sér til óhelgi. Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að halda minknum í skefjum.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

Minkurinn er boðflenna í íslenskri náttúru og þykir mörgum hann hafa unnið sér til óhelgi. Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að halda minknum í skefjum. Nokkur umræða hefur verið undanfarið um íslenskt veiðitæki, minkasíuna, sem Reynir Bergsveinsson veiðimaður fann upp og þróaði. Þá stendur yfir veiðiátak á mink í Eyjafirði og á Snæfellsnesi á vegum umsjónarnefndar um minkaveiðiátak og Umhverfisstofnunar. Á grundvelli þess á að gera tillögur um framkvæmd minkaveiða.

Reynir hóf að hanna og þróa minkasíuna sumarið 2002 og fékk leyfi Umhverfisstofnunar til notkunar hennar 1. september 2003. „Ég taldi, eðli málsins samkvæmt, að það yrði miklu auðveldara að veiða minkinn í síur undir vatnsyfirborðinu en í gildrur á þurru landi. Minkurinn er alltaf í vatni að leita að fiski eða lirfum og púpum,“ segir Reynir. Fyrirtækið Vaskur á bakka ehf. framleiðir og selur minkasíuna. Nú er búið að leggja yfir 400 minkasíur hér á landi og hefur Reynir eftirlit með um helmingi þeirra.

Veiðir undir vatnsyfirborði

Veiðitækið minkasía samanstendur af síu og grind úr málmi og steyptu vatnsröri. Sjálf sían er í laginu eins og stromphár hattur og er strompurinn opinn í kollinn. Síunni er smeygt inn í annan enda steypta rörsins og hinum enda rörsins lokað með málmgrind. Búnaðinum er sökkt í vatn á minkaslóð svo fljóti vel yfir. Minkurinn er forvitinn og forvitnin verður honum að fjörtjóni. Hann skríður inn um síuna en kemst ekki út aftur og drukknar strax. Reynir hefur aldrei komið að lifandi mink í minkasíu.

Vitja verður reglulega um minkasíurnar, bæði til að hreinsa úr þeim dauða minka sem og leðju og aðskotahluti sem vilja setjast í síurnar og geta truflað virkni þeirra. Stundum þarf að hagræða þeim eða færa ef aðstæður eða vatnsborð hafa breyst.

Læðurnar gáfaðri

Á liðnum vetri (27. febrúar) birtist í Morgunblaðinu frétt um góðan árangur af notkun minkasía í tilraunaverkefni fyrir austan fjall. Þá var ámálgað við Reyni hvort hægt væri að fara með honum í vitjun. Af því varð á sumardaginn fyrsta þegar Reynir vitjaði um í Norðurárdal og víðar í Borgarfirði. Síurnar voru lagðar fyrir um ári síðan og hafa þegar 16 fullorðnir minkar veiðst í þær. Reynir telur að svæðið sé nú nokkurn veginn hreint af mink, þótt búast megi við einni eða tveimur nýjum minkafjölskyldum inn á svæðið þegar líður á sumarið.

Við byrjuðum neðarlega í Borgarfirði og aðgættum síur í skurðum og lækjum sem liggja að Norðurá. Minkar voru í þremur síum, tveir í tveimur og einn í þeirri þriðju. Tvær höfðu fyllst af aur og drasli í vatnavöxtum í vetur. Hreinsað var úr öllum síum og tveimur hagrætt betur. Reynir segir mikilvægt að sinnt sé um síurnar þrisvar til fjórum sinnum á ári svo þær virki eðlilega.

Ekki þarf endilega margar síur til að halda minknum niðri á tilteknu svæði séu þær rétt staðsettar. Reynir þekkir atferli minksins vel og segir að rannsókn í Kolgrafarfirði sýni að steggirnir fari víða um í ætisleit. Til að ná þeim sé nóg að hafa síur með fimm kílómetra millibili. Læðurnar eru heimakærari og halda sig þar sem þeim líður best. Þær fara víðar um í ætisleit rétt áður en þær gjóta og eins þegar hvolparnir eru orðnir stálpaðir. Langmest veiðist af hvolpum, og raunar læðum líka, í minkasíur í ágúst ár hvert.

„Læðurnar eru gáfaðri en steggirnir,“ sagði Reynir. „Ég tel að sumar læður hafi áttað sig á síunum.“ Þetta markar Reynir af því að þess eru nokkur dæmi um að hvolpahópar hafi lent í minkasíum en læðan ekki. Hann telur að læðunni hafi tekist að forða hvolpunum frá síunni meðan hún hafði stjórnina. Svo hafi hvolparnir hætt að hlýða og því farið sem fór.

Mögulegt að minnka stofninn

Reynir hefur stundað minkaveiðar í meira en hálfa öld, lengst með hefðbundnum aðferðum. Hann skaut fyrsta minkinn sem veiddist í Barðastrandasýslu í mars 1953. Þá áttuðu menn sig skyndilega á því að minkurinn var kominn þar um allt.

Undanfarin ár hefur ársveiðin oft farið yfir átta þúsund minka. Reynir telur ólíklegt að hægt verði að útrýma minknum úr íslenskri náttúru enda varla ástæða til. Hins vegar telur hann vel mögulegt að halda stofninum niðri svo ársveiðin verði um fjórðungur af því sem hún er nú.

„Ef menn vilja ná lengra í minkaveiðum þá á að byrja á því sem er einfaldast að gera. Með þeim aðferðum sem við höfum beitt er auðveldlega hægt að ná stofninum á Suðurlandi niður í þriðjung af því sem hann er í dag,“ segir Reynir. Hann telur að þegar því marki verði náð þurfi menn að spyrja sig hvort þeir vilji ganga lengra og kosta því til sem þarf. Það verði miklu erfiðara og dýrara að ná síðasta þriðjungnum en fyrstu tveimur.

Reynir bendir einnig á að minkar valdi mismiklum skaða. Mestu fjárhagslegu tjóni valdi þeir sem leggjast á seiði og fisk í dýrmætum veiðiám. Eins þeir sem spilla æðarvarpi. Þá hafi minkar víða valdið villtum fuglum miklum búsifjum. Þeir minkar sem haldi sig aðallega við sjávarsíðuna og sæki fæðu í sjó valdi ekki sýnilegum skaða. Reynir nefnir til dæmis ströndina frá Straumsvík og suður á Vatnsleysu, sem hann segir vera kjörinn kennslustað fyrir minkaáhugafólk.

Á þessum slóðum eru óðul minka með allt niður í 100-150 metra millibili. Hann segir minkinn fara á stjá þegar er háfjara. Þeir sæki fyrst í polla sem myndast og svo í flæðarmálið. Aðallega taki þeir smáfiska en einnig vaðfugla, lirfur og önnur smádýr.

Víða á annesjum Vestfjarða eru minkar sem Reynir telur ómögulegt að uppræta. Þeir halda sig í urðum og er gengt undir yfirborðinu frá flæðarmáli og upp í fuglabjörg. Þessir minkar nærast aðallega á sjávarfangi. Hann nefnir einnig Teigsskóg í Reykhólasveit en Reynir stundaði lengi minkaeyðingu á þeim slóðum. Hann segir að í Teigsskógi sé minkastofn sem lifir alveg sjálfstæðu lífi, er í jafnvægi og fer lítið út fyrir svæðið. Þegar fjörðinn lagði svo minkarnir komust ekki í fisk fóru þeir í skóginn og veiddu hagamýs og rjúpur.

Samstillt átak til árangurs

Til að ná svæðisbundnum árangri við fækkun minka þarf samstillt átak allra á svæðinu sem hagsmuna eiga að gæta, að mati Reynis. Hugmynd hans er að stofnuð verði svæðissamlög þar sem t.d. veiðifélög, sveitarstjórnir og hlunnindabændur vinni saman. Velji þessir aðilar að beita minkasíum til að halda minknum í skefjum verði svæðin tekin út og staðsetning minkasíanna skipulögð. Reynir segir að honum þyki eðlilegt að ríkið taki þátt í stofnkostnaði enda taki það þátt í kostnaði við minkaveiðar.

Reynir segir reynsluna hafa sýnt að með markvissri vinnu sé hægt að halda minknum niðri. Hann nefnir Mývatn sem dæmi um stað þar sem hefðbundnum veiðiaðferðum hefur verið beitt með góðum árangri. Eins hafi minkaveiðiátak með minkasíum í Ölfusi, upp með Sogi, við Þingvallavatn og í Grímsnesi skilað góðum árangri.

Minkur

MINKAR voru fyrst fluttir hingað til lands haustið 1931. Minkurinn er af marðarætt og á íslenski villiminkurinn ættir að rekja til Norður-Ameríku.

Talið er líklegt að fyrstu minkarnir hafi sloppið út í íslenska náttúru ári síðar. Fyrsta minkagrenið fannst svo við Elliðaár í Reykjavík 1937. Minkurinn var fljótur að laga sig að íslenskri náttúru og árið 1940 var ákveðið að greiða fyrir veidda villiminka. Landnámi minksins hringinn í kringum landið lauk 1975 þegar minka varð fyrst vart í Öræfasveit.

Árlega veiðast í kringum átta þúsund minkar hér á landi. Minkarnir á meðfylgjandi mynd, steggur og læða, voru í einni minkasíunni við Norðurá og áætlaði Reynir að þeir hefðu veiðst um miðjan mars þegar fengitíminn stóð sem hæst.

Árangursrík aðferð

Landssamband veiðifélaga segir minkasíur hafa reynst afar árangursríkar og hafi veiðifélög og fleiri notað þær með góðum árangri. Þetta kemur m.a. fram í fréttatilkynningu sem landssambandið sendir frá sér vegna gagnrýni dýralæknis á notkun minkasíanna. Segir landssambandið þessi viðhorf byggjast á misskilningi og fáfræði á þessari aðferð við minkaveiðar. Það bendir á að villiminkurinn valdi stórfelldu tjóni á fiski í ám og vötnum svo og á fuglalífi almennt.

„Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir veiðirétthafa og alla sem fiskveiðar stunda í ám og vötnum að koma í veg fyrir það tjón sem villiminkurinn sannarlega veldur. Sérstaklega eru seiði, sem alast upp í ferskvatni, viðkvæm fyrir afráni villiminksins. Því er nauðsynlegt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að halda villimink í skefjum og koma í veg fyrir tjón af hans völdum,“ segir í tilkynningunni. Um veiðar með minkasíu segir m.a.: „Aðferðin er einföld og skjótvirk og minkur sem fer í síurnar drepst tafarlaust. Því er rangt með farið að hér sé um ómannúðlegri veiðiaðferð að ræða umfram aðrar viðurkenndar aðferðir við veiðar á villimink.“ Þá vekur landssambandið sérstaklega athygli á því að minkasíur hafi verið samþykktar sem lögleg veiðiaðferð af Umhverfisstofnun.