„HVAÐ er helst til ráða í hríðarbyl á jökli þegar leiðsögumaðurinn hefur fallið ofan í stóra sprungu, svarar ekki kalli og engin hreyfing er merkjanleg á línunni?“ Þannig spyr Gunnlaugur B.

„HVAÐ er helst til ráða í hríðarbyl á jökli þegar leiðsögumaðurinn hefur fallið ofan í stóra sprungu, svarar ekki kalli og engin hreyfing er merkjanleg á línunni?“ Þannig spyr Gunnlaugur B. Ólafsson á bloggsíðu sinni, en hann stóð ásamt fimm öðrum ferðafélögum frammi fyrir þessari spurningu í 1.450 metra hæð á Öræfajökli um helgina.

„Þetta er nokkuð sem við getum alltaf átt von á. Þetta fylgir ferðum um skriðjökla,“ segir Stefán Markússon, leiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, sem féll ofan í sprunguna. Tekur hann fram að þetta sé ástæða þess að gerðar séu stífar öryggiskröfur um að allir séu í línu um leið og lagt er á jökul. Aðspurður segir Stefán fallið niður um sprunguna hafa verið einir 8-10 metrar, en að sér hafi ekki orðið meint af, enda sé hann alvanur því að ferðast um jökla og æfður í því að fara niður um sprungur og klifra upp aftur.

Miklar kröfur

„Enda er það ekki að ástæðulausu sem gerðar eru miklar kröfur til leiðsögumanna sem leiðbeina hópum á ferð um jökla.“ Tekur hann fram að í þeim tilvikum þegar leiðsögumaður dettur ofan í sprungu eigi samferðafólkið bara að setjast niður til að stoppa fallið og bíða, því leiðsögumenn séu þjálfaðir í því að koma sér sjálfir upp. Að sögn Stefáns hefur hann starfað með Hjálparsveit skáta í Kópavogi síðan 1995 og verið leiðsögumaður sl. tíu ár.

Spurður hvað hafi þotið í gegnum huga hans þegar hann datt ofan í sprunguna segist Stefán fyrst og síðast hafa haft áhyggjur af samferðafólki sínu og hvernig það myndi upplifa uppákomuna. „Sjálfur er ég vanur því að fara ofan í holur, enda æfum við það og eigum að kunna að bjarga ýmist okkur sjálfum eða öðrum sem fara niður um sprungu. Þó maður detti í sprungu þá breytir það engu. Þetta er álíka mikið bögg eins og þegar maður er að stikla yfir á og stígur óvart ofan í ána og blotnar í lappirnar.“

Að sögn Stefáns hugðist hann klifra upp sprunguna. „Þegar ég stoppaði í fallinu hékk ég fyrst í lausu lofti, en við hlið mér var lítil snjóbrú sem ég vippaði mér upp á. Ég kallaði upp til hópsins til að láta vita af mér og leggja áherslu á að þau ættu ekki að hífa mig upp því ég stóð mjög vel á snjóbrúninni, en þau hafa greinilega ekki heyrt í mér. Síðan kippti ég af mér bakpokanum og ætlaði að græja mig þannig að ég yrði enn fljótari upp, en í þeim svifum tóku þau í línuna og byrjuðu að hífa mig upp,“ segir Stefán sem við það missti bakpokann út úr höndunum en í honum var m.a. GPS-staðsetningartæki. Allt fór þó vel að lokum og hópurinn komst klakklaust niður af jöklinum.

Réttur búnaður er lykilatriði

„ÞAÐ að detta í sprungu er viðbúin hætta í öllu okkar starfi. Þess vegna höfum við mjög afgerandi öryggiskröfur sem við förum eftir þegar ferðast er á jöklum, en þá eru allir settir í línu, “ segir Jón Gauti Jónsson, sem sér um markaðs- og kynningarmál hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Tekur hann fram að það gerist reglulega að fólk fari niður um sprungur í ferðum sínum um jökul og þá sé lykilatriði að vera með réttan búnað og kunna að bregðast rétt við aðstæðum, enda séu gerðar miklar kröfur til fjallaleiðsögumanna fyrirtækisins. „Við ætlum að skoða þetta mál og læra af því,“ segir Jón Gauti og tekur fram að ávallt sé farið yfir verkferla og skoðað hvernig megi breyta og bæta hlutina þegar upp koma atvik á borð við það sem varð á Öræfajökli um helgina.