Í dag hefði Haraldur Sigurðsson bókavörður orðið 100 ára gamall en hann lést 20. desember 1995. Haraldur vann á Landsbókasafni Íslands í yfir 30 ár og verður ávallt minnst sem eins mætasta starfsmanns þess. Hann sinnti auk þess umfangsmiklum fræðistörfum, var mikilvirkur þýðandi og útgefandi og gaf sig töluvert að félagsmálum.

Haraldur var fæddur á Krossi í Lundarreykjadal 4. maí 1908 en foreldrar hans voru Halldóra Jóelsdóttir og Sigurður Jónsson bóndi á Krossi. Haraldur naut ekki langrar skólagöngu. Eftir að henni lauk tók Haraldur til við að þýða ýmis merk rit, er náðu miklum vinsældum, og má þar nefna Söguna um San Michele (1933) eftir Axel Munthe, Silju (1935) og Skapadægur (1939) eftir F.E. Sillanpää, og Gösta Berlings sögu (1940) eftir Selmu Lagerlöf. Haraldur var blaðamaður við Þjóðviljann 1936-1940 en færði sig síðan um set og hóf að vinna hjá bókaútgáfunni Helgafelli þar sem hann starfaði til ársins 1946 þegar hann var skipaður bókavörður í Landsbókasafni Íslands. Safnið varð aðalstarfsvettvangur hans allt til 1978 er hann lét af því starfi fyrir aldurs sakir og hafði þá tvö seinustu árin verið deildarstjóri í þjóðdeild þess.

Þegar Haraldur var 13 ára gamall las hann 1. bindi af Landfræðisögu Íslands eftir Þorvald Thoroddsen. Við lestur hennar vaknaði áhugi hans fyrst á gömlum landakortum. Þegar hann byrjaði að vinna á Landsbókasafni fór hann að viða að sér heimildum um Ísland á landabréfum. Hann hafði safnað bókum með skrifum erlendra manna um Ísland um nokkurt skeið. Nú bættust við söfnunina bækur um kort og kortagerð. Haraldur leitaði víða fanga í heimildaöflun sinni, hann heimsótti erlend söfn og ræddi við fræðimenn. Afrakstur rannsókna hans á kortasögunni kom svo út í tveimur stórum bindum 1971 og 1978 þegar Haraldur stóð á sjötugu. Kortasaga Íslands hefst með elstu frásögnum um Thule og lýkur 1848 þegar búið var að prenta kort Björns Gunnlaugssonar. Í fyrra bindinu, sem nær til loka 16. aldar, leitast Haraldur við að tína til öll þekkt kort af Íslandi. Hann rekur af mikilli nákvæmni sögu Íslands á fornum kortum og gerir rækilega grein fyrir þróun kortagerðar af þessum hluta heimsins. Síðara bindið heldur áfram að rekja söguna þar sem því fyrra sleppir og hefst á umfjöllun um þau tímamót sem urðu með tilkomu Íslandskorts Guðbrands Þorlákssonar í útgáfum þeirra Orteliusar og Mercators. Vegna mikillar aukningar í gerð og prentun korta og kortasafna á 16. öld segir Haraldur aðallega frá þeim kortum sem helst mörkuðu veginn og urðu öðrum til fyrirmyndar en leyfir líka ýmsu smálegu að fljóta með. Hann einskorðar sig ekki við heildarkortin af landinu heldur fjallar hann einnig um sjókort, landshlutakort og sérkort af ýmsu tagi.

Það er einmitt í tveimur síðastnefndu kortaflokkunum sem Íslendingar koma oft við sögu. Í Kortasögunni leggur Haraldur mikla áherslu á að setja íslenska kortagerð í erlent samhengi og tengja Ísland við umheiminn. Ritið hlaut mikið lof bæði innlendra og erlendra fræðimanna enda er það gagnmerkt framlag til aukinnar þekkingar á sviði sem lítt hafði áður verið kannað. Fyrir þetta stórvirki var Haraldur gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1980. Bókasafn Haralds um kortafræði og skyld efni náði um 600 bindum bóka og tímarita. Þar er m.a. að finna endurprentanir á kortabókum fremstu kortagerðarmanna fyrri alda, ýmis rit virtra fræðimanna á þessu sviði auk helstu tímarita um kort alveg frá byrjun útkomu.

Við opnun Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu 1. desember 1994 var skýrt frá því að Haraldur og kona hans Sigrún Á. Sigurðardóttir hefðu gefið safninu kortabókasafn sitt auk ýmissa annarra gagna um landakort og sögu þeirra er Haraldur hafði dregið að þegar hann vann að kortasögunni. Mörg rita gjafarinnar eru mjög fágæt þótt flest séu þau gefin út á síðustu öld. Bókagjöfin myndar stofn að handbókasafni fyrir kortasafn þjóðdeildar. Eins og minnst var á hér að ofan lét Haraldur sér annt um söfnun ferðabóka um Ísland og varð safn hans um þau efni að lokum eitt hið mesta og merkasta í einstaklingseigu hér á landi. Einnig hafði Haraldi áskotnast mikið af ritum um önnur efni s.s. fagurbókmenntir og ýmis fræðirit. Allar þessar bækur keypti Bókasafn Akraness árið 1994 og mynda þau rit þar sérsafn sem kennt er við Harald og Sigrúnu. Fer vel á því að bækurnar séu varðveittar á stað sem er nærri átthögum hans.

Haraldur kvæntist árið 1954 Sigrúnu Ástrós Sigurðardóttur kjólahönnuði. Heimili þeirra var lengst að Drápuhlíð 48, hlýlegt og menningarlegt og öðrum þræði vinnustaður húsráðendanna beggja. Sigrún studdi mann sinn í störfum hans og líklega er hlutur hennar í æviverki Haralds meiri en marga grunar.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur sett upp litla sýningu í forsal þjóðdeildar safnsins til að minnast aldarafmælis Haralds Sigurðssonar. Sýningin endurspeglar aðallega framlag hans til rannsókna á kortasögu landsins en einnig er reynt að gera öðru ævistarfi hans skil.

Jökull Sævarsson.