5. maí 2008 | Bréf til blaðsins | 543 orð

Ráð við munnangri

Frá Reyni Eyjólfssyni

Frá Reyni Eyjólfssyni: "MUNNANGUR er algengur sjúkdómur, sem lýsir sér í myndun ætisára (ulcers) í munnholi og á tungu. Þessu fylgja yfirleitt mikil óþægindi og sársauki, jafnvel svo að sjúklingurinn getur átt erfitt með að borða og jafnvel tala."
MUNNANGUR er algengur sjúkdómur, sem lýsir sér í myndun ætisára (ulcers) í munnholi og á tungu. Þessu fylgja yfirleitt mikil óþægindi og sársauki, jafnvel svo að sjúklingurinn getur átt erfitt með að borða og jafnvel tala. Einkennin vara einatt í viku til hálfan mánuð og koma fram nokkrum sinnum á ári. Um orsakir er enn lítið vitað, en gizkað hefur verið á að þetta stafi af einhverju ólagi á ónæmiskerfinu.

Eins og nærri má geta hafa fjölmörg meðul verið reynd við þessum ófögnuði, en því miður með takmörkuðum árangri. Um það verður ekki fjölyrt frekar.

Að gefnu tilefni gerði ég nokkuð nákvæma leit í vísindabókmenntunum sl. sumar í von um að finna eitthvað haldgott við þessum vágesti og mér til talsverðar undrunar tókst það. Dr. Loyd V. Allen, lyfjafræðingur og ritstjóri International Journal of Pharmaceutical Compounding (Alþjóðlegt tímarit um lyfjagerð) hafði birt grein í þessu tímariti árið 1999 þar sem hann lýsti tilbúningi mísóprostóldufts til meðferðar á munnangri. Bæði hann og aðrir halda því fram að þessi samsetning sér ákaflega virk í þessum tilgangi. Mísóprostól er prostaglandínafbrigði og er notað í töfluformi sem vörn við myndun ætisára í maga og skeifugörn af völdum bólgueyðandi gigtarlyfja. Það er virka efnið í Cytotec 0,2 mg töflum (fást í 20 stk. pakkningum).

Mísóprostól er gríðarlega áhrifamikið efni og því verður að þynna það vel út með hæfilegu burðarefni (fylliefni). Allen notaði til þess blöndu af tveimur duftkenndum efnum, þ.e. Polyox 301 og hýdroxýprópýl metýlsellulósa. Bæði þessi efni mynda lím (klístur eða pasta) með vatni og stuðla þannig að því að duftblandan haldist í ætisárunum, sem er gott fyrir virknina.

Þessi tvö hjálparefni voru mér ekki tiltæk með góðu móti og ég fór því að skyggnast um eftir einhverju, sem hægt væri að nota í staðinn. Eftir nokkra leit í íslenzku Sérlyfjaskránni ákvað ég að prófa Kenalog 0,1% munnholspasta (fæst í 10 g túpum). Það inniheldur efni, sem halda því föstu á slímhimnum og auk þess bólgueyðandi lyfjaefni (tríamsínólón).

Þar sem ég held að mísóprostólið þoli ekki vel geymslu hef ég búið til mjög lítið af pastanu í einu: Ein Cytotec 0,2 mg tafla er mulin niður í mjög fínt duft í mortéli. Af duftinu eru vegin 25 mg og blandað vandlega saman við 935 mg af Kenalog 0,1% pasta á glerplötu (eða flatbotna diski) með stálspaða (kíttisspaða). Pastað er svo strax sett í lítið glerglas með þéttu skrúfloki og geymt í kæliskáp. Bezt er að nota það strax (bera á ætisárin með hreinum fingri, eyrnapinna eða þ.u.l., helzt að kvöldi), en sennilega er ekki ráðlegt að geyma það lengur en í svona 14 daga.

Umrætt mísóprostól-pasta hefur aðeins verið prófað á einum sjúklingi, sem hefur lengi verið illa haldinn af munnangri og er búinn að reyna „allt milli himins og jarðar með litlum árangri“. En virkni pastans er kraftaverki líkust, svo notuð séu hans eigin orð – sárin hverfa nú á 1-2 dögum!

Tæplega þarf að hafa áhyggjur af aukaverkunum af pastanu þó að ekki sé hægt að útiloka þær með öllu. T.d. gæti ofnæmi komið fyrir.

Vonandi getur pastað komið öðrum að gagni. Lyfin, sem notuð eru í það eru bæði lyfseðilsskyld. Apótekin geta auðvitað hæglega blandað þessu saman og sett í snyrtilegar umbúðir (sem verða að vera rakaþéttar).

REYNIR EYJÓLFSSON,

lyfjafræðingur.

Frá Reyni Eyjólfssyni

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.